Viðtöl, örfréttir & frumraun
PubQuiz, skötuveisla, heimagerður rabarbaragrautur á einum vinsælasta viðburði á Vestfjörðum – Vídeó
Hið goðsagnakennda og árlega Ögurball verður haldið í Ögri við Ísafjarðardjúp laugardaginn 16. júlí nk. Aðgöngumiða fylgir tjaldstæði, aðgangur að sveitaballinu frábæra og heimagerður rabarbaragrautur með rjóma sem gott er að gæða sér á milli dansspora.
Ögurhátíðin byrjar á föstudeginum 15. júlí með skötuveislu í hádeginu fyrir áhugasama. Um kvöldið verður barsvar „ pubquiz “, fylgt eftir með brennu og brekkusöng. Á laugardagsmorgun verður söguganga um svæðið sem endar með messu í Ögurkirkju. Ögurballið sjálft fer svo fram um kvöldið þar sem Stuðbandið Halli og Þórunn spila fyrir dansi en þau eru að sigla inn í sitt 23. ár á sviðinu í samkomuhúsinu.
Ögurball hefur verið haldið síðan Ungmennafélagshúsið var byggt í Ögri 1926, ballið datt niður um hríð en hefur verið haldið ár hvert af Ögursystkinunum síðan 1999 og nú er næsta kynslóð að taka við. Rukkað er inn í hliðinu á Ögri og óþarfi að panta fyrirfram, nóg af tjaldstæðum og tilvalið að skella sér í sund í Reykjanesi til að þrífa af sér ferðarykið.
Thelma Rut Hafliðadóttir, ein af skipuleggjendum ballsins segir;
„Það er gömul hefð að bjóða rabarbaragraut með rjóma á ballinu. Þegar ballið var fyrst að komast á laggirnar þá var langt að fara á ball, fólk var að koma allstaðar að úr djúpinu og fór fólk ýmist á hestum, gangandi eða sjóleiðina. Þá var tekið upp á því að bjóða upp á rabarbaragraut með rjóma svo fólk kæmist heim án vandræða. Við höldum í hefðina og grautinn geri ég með uppskrift ömmu minnar Maju í Ögri, rjómann fáum við frá Erpsstöðum í Dölum.
Þetta er svo ótrúlega skemmtilegt, stórfjölskyldan skipuleggur sumarfríið út frá þessari helgi. Vinir og vandamenn eru farnir að gera það sama og það er svo frábært að sjá sama fólkið ár eftir ár sem maður myndi líklega ekki annars hitta. Þessi helgi er alveg ótrúlega dýrmæt fyrir okkur, fullorðna fólkið og börnin, hún þjappar fjölskyldunni vel saman.“
Ögurballið er einn vinsælasti viðburður sumarsins á Vestfjörðum, myllumerki ballsins er #ogurball og og eins á facebook og instagram. Hægt er að panta í skötuna í s: 857-1840 eða á facebook síðu Ögur Travel.
Vídeó
Með fylgir heimildarmynd um Ögurballið, en viðmælandi er Hafliði Halldórsson matreiðslumeistari.
Mynd: facebook / Ögurballið
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun7 dagar síðan
La Barceloneta er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlýtur ICEX viðurkenningu
-
Uppskriftir6 dagar síðan
Vinsælustu uppskriftirnar árið 2024
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðan
Þessi réttir stóðu upp úr hjá Michelin eftirlitsmönnum á árinu 2024
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Frétt5 dagar síðan
Mest lesnu fréttir ársins 2024 á Veitingageirinn.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Markaðurinn22 klukkustundir síðan
Við leitum að öflugum hótelstjóra á Fosshótel Vestfirði
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Fagfélögin taka í notkun nýjar Mínar síður