Vertu memm

Frétt

Laun hækkað langmest í veitinga- og gistigeiranum

Birting:

þann

Nautasteik - Veitingastaður

Laun hafa hækkað langmest í veitinga- og gistigeiranum á síðustu árum og mest meðal verka- og þjónustufólks. Frá því rétt áður en lífskjarasamningarnir voru samþykktir árið 2019 hafa laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkað um að meðaltali 48,5% og verkafólks um 48,2%, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbankanum.

Laun stjórnenda hafa á sama tímabili hækkað um 27,4% og laun sérfræðinga um 33,4%. Kaupmáttur hefur aukist um að meðaltali 10% á tímabilinu, en þróunin er ólík eftir hópum.

Spenna á vinnumarkaði hefur ýtt undir launaþrýsting síðustu mánuði. Atvinnuleysi minnkaði hratt eftir að faraldrinum linnti og mælist enn lítið, 3,2% í október. Launavísitalan hefur hækkað um 10,9% á síðustu tólf mánuðum. Hún hækkaði mest í desember eftir að kjarasamningar á stórum hluta vinnumarkaðarins voru samþykktir, svo aftur þó nokkuð í apríl og júní þegar gengið var frá fleiri kjarasamningum.

Kaupmáttur launa hefur aukist um 2,7% á síðustu tólf mánuðum. Á fyrstu mánuðum ársins rýrnaði kaupmáttur milli ára. Hann tók að sækja aftur í sig veðrið með hjaðnandi verðbólgu á seinni hluta ársins og hefur nú aukist síðustu fimm mánuði.

Laun hækkað langmest í veitinga- og gistigeiranum

Laun hafa hækkað mismikið eftir starfstéttum og atvinnugreinum síðustu misseri. Til þess að bera saman launaþróun ólíkra hópa á vinnumarkaði er ágætt að horfa á þróunina frá því rétt áður en lífskjarasamningarnir voru samþykktir snemma árs 2019 og þar til nýjustu kjarasamningar höfðu verið undirritaðir á langstærstum hluta vinnumarkaðar, í júlí síðastliðnum. Nýjustu gögn Hagstofunnar um launaþróun ólíkra hópa ná einmitt fram í júlímánuð.

Á því tímabili (mars 2019 – júlí 2023) hafa laun hækkað mest í greinum tengdum veitinga- og gistirekstri, um 54,9%. Laun hafa hækkað næstmest í verslunum og viðgerðaþjónustu, um 40,2%, og minnst í fjármála- og vátryggingastarfsemi, um 30,0%.

Í takt við þetta hafa laun hækkað hlutfallslega mest meðal þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks, um 48,5%, og meðal verkafólks, um 48,2%. Stjórnendur hafa hækkað hlutfallslega minnst í launum á tímabilinu, um 27,4%, og sérfræðingar næstminnst, um 33,4%.

Að meðaltali hefur kaupmáttur launa aukist um 10,1% á tímabilinu frá mars 2019 til september 2023. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 28% á tímabilinu og kaupmáttur aukist hjá nær öllum hópum, þó mjög lítið meðal sérfræðinga og rýrnað lítillega meðal stjórnenda.

Þessi munur á launuþróun ólíkra starfstétta og atvinnugreina er ekki tilviljun. Á tímabilinu sem hér er til skoðunar hefur markmið kjarasamninga, sérstaklega lífskjarasamninganna, verið að hækka hlutfallslega mest laun þeirra sem hafa lægstu launin, svo sem með krónutöluhækkunum og þaki á launahækkanir. Á sama tíma hefur verið kröftug eftirspurn eftir starfsfólki í greinum tengdum ferðaþjónustunni, svo sem gisti- og veitingarekstri, sem ýtir sérstaklega undir launahækkanir í þeim geira, og minnst eftirspurn eftir starfsfólki í fjármála- og tryggingastarfsemi. Um þessar mundir virðist eftirspurn eftir starfsfólki þó mest í byggingariðnaði

Hlutfallsleg launaþróun ólíkra hópa hefur þó verið þó nokkuð jafnari eftir síðustu kjaraviðræður en á tímabilinu frá 2019 og fram að síðustu áramótum. Í lok janúar losna kjarasamningar á stærstum hluta vinnumarkaðarins eftir stutt samningstímabil. Í nýlegri þjóðhagsspá spáðum við því að laun myndu hækka um 9,4% á þessu ári og um 7,9% á næsta ári. Við spáðum svo hófstilltari hækkunum árin á eftir, 7,0% árið 2025 og 6,1% árið 2026. Samkvæmt spánni eykst kaupmáttur um 0,6% á þessu ári, um 2,4% á næsta ári og um 2,6% árið 2025.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin.

Efsta mynd: úr safni

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið