Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel
Keahótel taka við rekstri Sigló Hótels
Keahótel ehf. hafa tekið við rekstri Sigló Hótels og tengdrar starfsemi. Samningurinn gildir til 17 ára og hefur þegar tekið gildi. Keahótel leigir allan rekstur Sigló Hótels á Siglufirði, en þar undir er hótelið sjálft, veitingastaðirnir Sunna, Rauðka og Hannes Boy ásamt Sigló gistiheimili, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Keahótel ehf.
Með þessum samningi verður Sigló Hótel níunda hótelið í hótelkeðju Keahótela, sem meðal annars reka Hótel Kea á Akureyri, Hótel Borg í Reykjavík og Hótel Kötlu á Vík.
„Þetta er spennandi tækifæri en ég hef mikla trú á svæðinu og er stoltur af því að fá Sigló Hótel í okkar raðir. Ég hef miklar væntingar til áframhaldandi ferðaþjónustu á svæðinu. Samningurinn gefur færi á að efla markaðsstarf til muna og nýta samlegðaráhrif hótelkeðjunnar í öflugu sölu- og markaðsstarfi, bæði innalands og á alþjóðavísu“,
segir Páll L. Sigurjónsson, forstjóri Keahótela.
Róbert Guðfinnsson og fjölskylda hans stofnuðu Sigló Hótel árið 2015. Hótelið er búið 68 herbergjum, þar er að finna veitingastað, útipottasvæði og þurrgufu. Hótelið stendur við höfnina á Siglufirði og hefur notið mikilla vinsælda. Það er orðið eitt af aðalkennileitum Siglufjarðar.
„Núna, þegar við sjáum fram á að ferðaþjónustan fari að taka við sér eftir tvö krefjandi ár, þá er mikil þörf á umtalsverðri endurskipulagningu í greininni. Við erum stolt af því að hafa náð samkomulagi við Keahótel og að hafa komið rekstrinum í góðar hendur. Við erum sannfærð um að félag með jafn öfluga bakhjarla og Keahótel er, verði leiðandi afl í íslenskri ferðaþjónustu á næstu árum,“
segir Róbert, en Kvika banki var Sigló Hóteli til ráðgjafar.
Aron Pálsson hótelstjóri Hótel Kea verður einnig hótelstjóri á Sigló Hóteli og María Elín Sigurbjörnsdóttir verður áfram aðstoðarhótelstjóri.
Aron segist spenntur yfir breytingunum og í þeim felist mikil tækifæri, enda hafi verið unnið gott starf á Sigló Hóteli.
„Við munum hlúa að því sem vel hefur verið gert og meðal annars einblína á upplifunarpakka sem boðið hefur verið upp á með góðri raun eins og skíðanámskeið, þyrluskíðamennsku, golfi og fleira. Við tökum við góðu búi þar sem hótelið er í fullum rekstri og mannað góðu starfsfólki.“
Myndir: aðsendar
-
Frétt3 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Iðunn Mathöll á Akureyri opnar í dag
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Frétt2 dagar síðan
Innköllun á sviðasultu frá Kjarnafæði
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Fallegur og girnilegur jólakrans bar sigur úr býtum
-
Frétt5 klukkustundir síðan
Atvinnurekanda skylt að greiða matreiðslumanni 1,4 milljónir króna vegna vangreiddra launa