Frétt
Hald lagt á 17 tonn af kjötvörum á Spáni, smitað af listeríu bakteríunni – Vídeó
Í gær lagði Evrópulögreglan Europol hald á 17 tonn af kjötvörum á Spáni sem smitað var af listeríu bakteríunni.
Sex einstaklingar hafa verið handteknir og er talið að minnsta kosti þrír þeirra hafi vitað að varan væri sýkt af bakteríunni, en tilkynntu það ekki til yfirvalda á Spáni, heldur héldu áfram að selja kjötið.
Mikill listeríu-faraldur hefur verið á Spáni í nær eitt ár og hafa allt að 193 einstaklingar smitast af bakteríunni frá þessum kjötvörum.
Kjötvörurnar verða brenndar í borginni Cadiz á Spáni.
Þó að starfsemi fyrirtækisins sé aðallega á Spáni, þá hafa nokkur tilvik fundist í Evrópu. Fjórir meðlimir úr þýskri fjölskyldu, ásamt breskum ríkisborgara sem var í Frakklandi, eru taldir hafa veikst af þessum sýktum kjötvörum.
Með fylgir myndband sem sýnir aðgerðir evrópulögreglunnar Europol:
Um Listeríu bakteríuna á vef Embætti landlæknis segir:
Listería baktería
Listeria monocytogenes er baktería sem er víða í náttúrunni og finnst hjá fjölda dýrategunda. Hérlendis hefur hún verið til vandræða í sauðfé vegna fósturláts hjá kindum. Til eru 13 tegundir Listeria en einungis Listeria monocytogenes er sjúkdómsvaldandi í mönnum. Helsta smitleið bakteríunnar er með matvælum.
Listería monocytogenes veldur nánast aldrei sjúkdómi hjá fullfrísku ungu fólki þrátt fyrir að það neyti matvæla sem eru menguð með bakteríunni. Ákveðnir þættir auka mikið líkur á ífarandi sýkingu: Hár aldur, mikil áfengisneysla og ónæmisskerðing (krabbameinssjúklingar og sjúklingar eftir líffæraígræðslu). Nýfædd börn og fóstur í móðurkviði eru í aukinni hættu á að sýkjast, sem getur leitt til fósturláts eða dauða.
Meðgöngutími sýkingarinnar, þ.e. tíminn sem líður frá smiti til sjúkdómseinkenna, er oftast um 3 vikur en getur verið allt frá 3–70 dagar.
Smitleiðir
Listeria moncytogenes smitast með matvælum sem ýmist hafa verið menguð frá upphafi eða mengast hefur í framleiðsluferli. Helstu matvælategundirnar sem tengst hafa sýkingum eru mjúkir og ógerilsneyddir ostar, kaldreyktur og grafinn lax og í Bandaríkjunum hefur bakterían fundist í niðursneydddum kalkúni og kjúklingum tilbúnum til neyslu.
Einkenni
Við ífarandi sýkingu af völdum Listeria monocytogenes getur bakterían borist út í blóðið og valdið blóðsýkingu, en einnig sækir hún í miðtaugakerfið og leiðir í þeim tilfellum til heilahimnubólgu. Einkenni geta í upphafi sjúkdóms verið mismikil og lýst sér sem vanþrif og léleg matarlyst hjá nýfæddum börnum. Einkennin geta líka verið bráð með hita, höfuðverk, ógleði, uppköstum og alvarlegu blóðþrýstingsfalli. Hjá fóstrum sem sýkjast í móðurkviði getur sýkingin breiðst út til margra líffæra og fylgja því afar slæmar horfur. Barnshafandi konur eru gjarnan einkennalausar eða með vægan hita en þrátt fyrir það getur sýkingin leitt til fyrirburafæðingar eða fósturláts.
Greining
Greining fæst með ræktun bakteríunnar úr blóði, mænuvökva, fósturvatni eða legköku.
Meðferð
Hægt er að meðhöndla sýkinguna með sýklalyfjum. Batahorfur fullorðinna geta verið nokkuð góðar en eru verri hjá nýfæddum börnum og fóstrum.
Forvarnir
Fræðsla til verðandi mæðra og fullorðinna um áhættuþætti og um fæðutegundir sem ber að forðast á meðgöngu.
Bóluefni gegn Listeria monocytogenes er ekki til.
Listeria monocytogenes er lögum samkvæmt tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis.
Mynd: skjáskot úr myndbandi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Nýr ítalskur veitingastaður opnar í Smáralindinni
-
Starfsmannavelta5 dagar síðan
Snædís kveður ION hótelið
-
Keppni2 dagar síðan
Grétar Matthíasson keppir í kokteilagerð um helgina í stærsta spilavíti í Evrópu
-
Keppni3 dagar síðan
Guðmundur og Svala hrepptu titilinn Íslandsmeistarar í brauðtertugerð
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Vel heppnað eftirréttanámskeið Iðunnar og Ólöfu Ólafsdóttur Konditor og eftirréttameistara – Myndir og vídeó
-
Keppni3 dagar síðan
Ingi Þór Einarsson á Útópía er hraðasti Barþjónn Íslands – Myndaveisla
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Einstaklega vel heppnað matarmót – Myndaveisla
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Edda Heildverslun – Stóreldhús 2024