Frétt
Grái kötturinn býður í pönnukökupartý í tilefni 20 ára afmælis – Hundar eru einnig velkomnir á Gráa köttinn
„Grái kötturinn opnaði kl. 17 þann 29. október 1997. Þá var hann opinn í klukkutíma og við fengum einn viðskiptavin. Það var Valdimar Tómasson ljóðskáld. Valdi pantaði eina malt, drakk hana og spjallaði. Svo lokuðum við kl. 18“
, svona byrjar fréttatilkynningin frá Gráa kettinum sem heldur upp á 20 ára afmæli staðarins um þessar mundir.
Hulda Hákon og Jón Óskar, hjón og listamenn, opnuðu Gráa köttinn við Hverfisgötu 16a fyrir tuttugu árum ásamt syni sínum Burkna. Á boðstólnum var heldur nýstárlegur matur því um morgunverðarstað var að ræða sem bauð upp á amerískar pönnukökur, egg og beikon og fleira í þeim dúr.
Staðurinn fékk nafnið Grái kötturinn eftir orðatiltakinu – og gráa heimiliskettinum Jósteini, sem hafði löngum eytt eftirmiðdögunum uppi á ofni í vinnustofu Sigmars Ó. Maríussonar sem var áður með verslun í húsnæðinu.
Matseðillinn hefur verið að mestu óbreyttur þessi tuttugu ár og innréttingarnar hafa einnig haldið sér algerlega óbreyttar – en það var Friðrik Weishappel sem stýrði hönnunarvinnunni. Staðurinn hefur átt sína fastagesti í gegnum árin og verið fastur punktur í veitingastaðaflóru Reykjavíkur – og óhætt er að segja að hann sé einstakur í sinni röð í þeirri flóru.
Nýir eigendur
Fyrr á þessu ári seldu Hulda og Jón Óskar staðinn og önnur hjón tóku við, þau Elín Ragnarsdóttir og Ásmundur Helgason. Elín og Ásmundur, sem reka einnig bókaútgáfuna Drápu, hafa ekki breytt matseðlinum né innréttingunum; bækur eru enn í hillum og listaverk á veggjum; Trukkurinn er enn á matseðlinum ásamt amerísku pönnukökunum, beyglum og brauði.
Afmælispönnukökupartý
Grái kötturinn ætlar að slá upp veislu og á . Föstudaginn 10. nóvember verður haldið upp á 20 ára afmæli Gráa kattarins með afmælipönnukökupartýi. Þá verður á boðstólnum stafli af amerískum pönnukökum á 500 krónur, eða á 20 ára gömlu verði. Pönnukökupartýið byrjar kl. 7.30 og stendur fram eftir degi, og allir eru velkomnir, bæði gamlir vinir kattarins sem nýir.
Upphafið
Jón Óskar Hafsteinsson og Hulda Hákon bjuggu í Brooklyn í New York í nokkur ár þar sem þau lögðu stund á nám í málaralist. Þegar þau komu heim til Íslands söknuðu matarmenningarinnar frá Brooklyn og þá kannski sérstaklega ameríska morgunmatarins. Því fór það svo að nokkrum árum eftir heimkomuna réðust þau í að opna veitingastað sem myndi leggja áherslu á amerískan morgunmat; amerískar pönnukökur, egg, beikon, beyglur og fleira tilheyrandi. Staðurinn var opnaður að Hverfisgötu 16a í lok október 1997 og fékk nafnið Grái kötturinn.
Pönnukökuuppskrift frá tónskáldi
Frá upphafi lögðu þau Jón og Hulda áherslu á að búa til sem flest frá grunni. Þannig er brauðið bakað á staðnum, túnfisksalat og houmous eru búin til í eldhúsinu og pönnukökudeigið er einnig blandað á staðnum. Mottóið var enski frasinn „no shortcuts“.
Upphaflegu pönnukökuuppskriftinni var skipt út fljótlega eftir opnun, og það í samvinnu við einn fastagest staðarins.
„Skömmu eftir að við opnuðum Köttinn fór Leifur Þórarinsson tónskáld að venja komur sínar þangað. Hann vann á nóttunni og mætti oft snemma. Pantaði amerískar pönnukökur og kaffi. Leifur dvaldi lengi í Bandaríkjunum og þekkti réttinn þaðan. Skemmtilegur maður sem gaman var að spjalla við. Eftir nokkur kynni fór hann að ámálga við okkur að pönnukökurnar væru góðar en gætu verið betri. Við spurðum hann ráða og síðan tók við tímabil þar sem Leifur mætti, fékk sínar pönnukökur með smá breytingum á uppskriftinni. „Örlítið meira salt“, „mætti ekki bæta við smá lyftidufti?“, „of þykkar“, „of þunnar“, „prófið bóghveiti“ og svo framvegis. Þannig varð uppskriftin að pönnukökunum til“
, segir Hulda Hákon.
Að lokum má geta þess að hundar eru velkomnir á Gráa köttinn.
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Ný vefbók fyrir matvælakennslu og áhugafólk um matreiðslu – Þér er boðið í útgáfupartý
-
Keppni1 dagur síðan
Ertu lærður matreiðslumaður eða matreiðslunemi og langar til að komast í ungkokkalandsliðið?
-
Vín, drykkir og keppni4 dagar síðan
Fyrsti viðburður ársins hjá Kampavínsfjelaginu – 6 rétta matseðill með kampavíns pörun
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Poke skál með kjúklingi og salatosti
-
Keppni4 dagar síðan
Graham’s Blend Series Kokteil keppni 2025
-
Keppni1 dagur síðan
Þessir veitingastaðir og Íslendingar eru tilnefndir til BCA 2025 – Myndaveisla
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Bóndadagurinn nálgast
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Hákarl á þorrabakkann