Vertu memm

Nemendur & nemakeppni

Fyrsta sveinspróf í matreiðslu utan höfuðborgarsvæðisins

Birting:

þann

Sveinspróf í matreiðslu - Verkmenntaskólans á Akureyri

Nemendur, kennarar og sveinsprófsnefnd

Það voru sannarlega merk tímamót í sögu Verkmenntaskólans á Akureyri og um leið í matreiðslunámi á Íslandi er tíu nemendur luku sveinsprófi í matreiðslu nú í vikunni.

Þetta er í fyrsta skipti sem sveinspróf er haldið í matreiðslu í VMA og utan höfuðborgarsvæðisins. Nemendurnir tíu sem þreyttu sveinsprófið hafa allir verið í þriðja bekk í matreiðslu á þessari önn og staðið sig mjög vel. Allir stóðust þeir sveinsprófið.

Marína Sigurgeirsdóttir, brautarstjóri matvælabrautar VMA, segir í samtali við vma.is að sveinsprófið hafi gengið mjög vel og fulltrúar sveinsprófsnefndar í matreiðslu, sem allir komu frá höfuðborgarsvæðinu, hafi lofað mjög þá aðstöðu sem skólinn hafi til menntunar matreiðslu- og framreiðslufólks. Hún sagðist lengi hafa beðið eftir þessum degi, enda hafi verið markvisst unnið að þessu í mörg undanfarin ár.

Sveinspróf í matreiðslu - Verkmenntaskólans á Akureyri

Gestir nutu ljúffengs matar og drykkjar.

Í sveinsprófi í matreiðslu er matreitt samkvæmt  sex rétta matseðli sem sveinsprófsnefnd gefur út. Sveinsprófið tók tvo daga, það hófst sl. þriðjudag og var frá kl. 11 til 19 þann dag og í fyrradag var aftur hafist handa kl. 11 og prófinu lauk með glæsilegum málsverði þar sem gestir nutu þeirra dýrindis krása sem sveinsprófsnemarnir töfruðu fram.

Nemar í framreiðslu sem starfa á tveimur veitingastöðum á Akureyri, annars vegar Rub 23 og hins vegar Strikinu, önnuðust framreiðslu undir stjórn Trausta Víglundssonar, formanns sveinsprófsnefndar í framreiðslu, og Eddu Bjarkar Kristinsdóttur, kennara í framreiðslu við matvælabraut VMA. Sigmar Örn Ingólfsson, fulltrúi í sveinsprófsnefnd í framreiðslu, var einnig viðstaddur.

Sveinspróf í matreiðslu - Verkmenntaskólans á Akureyri

Slegið á létta strengi.
Jakob Magnússon í sveinsprófsnefnd og Friðrik Sigurðsson formaður sveinsprófsnefndar

Í sveinsprófsnefnd í matreiðslu, sem dæmdi frammistöðu nemendanna, eru Friðrik Sigurðsson formaður og með honum Jakob Magnússon og Bjarki Hilmarsson.

Marína Sigurgeirsdóttir segir að sveinsprófið hafi verið mikil og ánægjuleg tímamót, enda hafi matreiðslunemar nú í fyrsta skipti verið fullmenntaðir á landsbyggðinni.

Mikil þörf séu sé á bæði matreiðslumönnum og þjónum til starfa í ört vaxandi veitingageira og því sé afar mikilvægt að hafa loks getað stigið þetta skref.

Í síðustu viku þreyttu þrjátíu nemendur sveinspróf í matreiðslu í Hótel og Matvælaskólanum og nú tíu á Akureyri.

Myndir: vma.is

Kristinn Jakobsson lærði fræðin sín á Bautanum og útskrifaðist árið 2005 og 2008 sem matreiðslumeistari. Kristinn hefur starfað á Bautanum, Strikinu, Gamla Bauk á Húsavík, Lostæti svo fátt eitt sé nefnt. Hægt er að hafa samband við Kristinn á netfangið: [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið