Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel
Exeter Hotel opnar við Tryggvagötu 12 – Nýr Le Kock veitingastaður opnaði í veitingarými hótelsins
Keahótel ehf. hafa opnað nýtt og glæsilegt fjögurra stjörnu hótel, Exeter Hotel, við Tryggvagötu 12 í Reykjavík.
Hótelið dregur nafn sitt af hinu þekkta Exeter húsi sem stóð á reitnum og hefur nú verið endurgert og fellt inn í breytta götumynd við gömlu höfnina.
Hótelið er hannað í nútímalegum iðnaðarstíl með sterkri tengingu við sögu svæðisins þar sem hvert smáatriði hefur verið vandlega valið með það í huga. Opin rými, hrátt útlit og skarpir litir einkenna hönnunina sem í bland við nútímaarkitektúr skapa einstaka upplifun fyrir gesti.
Í tilkynningu frá Keahótel ehf. kemur fram að á hótelinu eru alls 106 vel útbúin herbergi, allt frá tveggja manna herbergjum að svítum. Þar ber helst að nefna Svítuna á efstu hæð hótelsins sem telur 51 fermetra ásamt svölum sem veita einstakt útsýni yfir hafnarsvæðið og Esjuna. Á hótelinu er einnig líkamsræktaraðstaða og gufubað.
Á jarðhæð hússins, við Tryggvagötu, er opið veitingarými þar sem boðið er upp á nýstárlega matarupplifun og frábæra stemningu. Veitingastaðurinn Le Kock er þekktur fyrir fjölmenningarlegt götufæði (street food) með áherslu á úrvals hráefni og óhefðbundna framsetningu. Í sama anda er Tail bar, en hann er sá fyrsti á landinu sem tekur í notkun svokallaðar „bottoms up“ bjórdælur auk þess að bjóða upp á frábært úrval góðra kokteila. Bakaríið Deig, sem staðsett er við innganginn, býður gestum og gangandi nýbakað brauð alla morgna.
Hönnun og útlit hótelsins var í höndum Richard Blurton og Sigurðar Halldórssonar hjá Gláma-Kím Arkitektum og sá byggingverktakinn Mannverk um byggingarframkvæmdir. Ljósmyndir sem prýða veggi hótelsins eru eftir listamanninn Hrafnkel Sigurðsson.
Framkvæmdastjóri Keahótela, Páll L. Sigurjónsson, segist afar ánægður með útkomuna
„Þetta hefur verið virkilega spennandi verkefni frá fyrsta degi og gaman að taka þátt í því. Við skynjum mikinn áhuga á hótelinu og höfum fengið fyrirspurnir varðandi þá nýstárlegu og afslöppuðu upplifun sem boðið verður upp á.“
Mikil uppbygging hefur verið á þessu svæði undanfarið sem nýtur stöðugt meiri vinsælda meðal ferðamanna og borgarbúa og bætir Páll við;
„Hótelið ásamt opna veitingarýminu smellpassar í fjölbreytta flóru þessa svæðis og nær að tengja saman Granda, gömlu höfnina og miðbæinn á frábæran hátt“.
Keahótel ehf. er þriðja stærsta hótelkeðja landsins og reka nú samtals 11 hótel með alls 900 herbergi í Reykjavík, á Akureyri, við Vík í Mýrdal og við Mývatn.
Myndir: aðsendar / keahotels.is
-
Markaðurinn3 dagar síðanJóhannes Kristjánsson hefur hafið störf hjá Bako Verslunartækni (BVT)
-
Markaðurinn3 dagar síðanViltu reka kaffihús í hjarta Miðborgarinnar
-
Vín, drykkir og keppni2 dagar síðanÞessir barir og barþjónar eru tilnefndir til BCA á Íslandi
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun19 klukkustundir síðanGóð stemning og öflugt fagfólk á fundi Klúbbs Matreiðslumeistara hjá Bako
-
Vín, drykkir og keppni5 dagar síðanBarþjónar fá einstakt tækifæri til að fylgjast með sérfræðingum að störfum
-
Vín, drykkir og keppni5 dagar síðanAtvinnurekendur bregðast við: Styttri opnun og færri vaktir á krám
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðanGamli Baukur heldur áfram með nýja eigendur og skýra sýn
-
Keppni2 dagar síðanTíu barþjónar tryggja sér sæti í úrslitum Bláa Safírsins









