Vertu memm

Freisting

Einn besti veitingastaður landsins

Birting:

þann

Veitingastaðurinn Við Tjörnina

Hjörtur Howser skrifar um veitingastaðinn Við Tjörnina og er greinilega mjög ánægður með matinn og þjónustuna og segir að Við Tjörnina sé einn sá besti veitingastaður landsins.

Við Tjörnina
 
Veitingastaðurinn Við Tjörnina lætur lítið yfir sér á annari hæð gamla hússins við Dómkirkjuna. Gengið er inn á staðinn á hliðinni sem snýr að Alþingishúsinu og staðsetningin verður vart þjóðlegri. Upp þröngan stiga sem brakar í og tekið á móti manni á skörinni. Ég var smástund að átta mig á umhverfinu, húsgögnunum og fjölbreyttum skrautmunum þegar við settumst í gamla sófann í barherberginu til að drekka fordrykk og skoða matseðilinn.

Stemmningin svolítið eins og heima hjá gamalli frænku manns og mér fannst ég eiga að vera stilltur og prúður því hún hefði boðið til kvöldverðar. En þessi sérkennilegi stíll veitingahússins er einn af stærstu kostum þess, fyrir utan kokkana að sjálfsögðu. Stemmningin er heimilisleg og afar róandi og afslöppuð, manni líður strax vel þarna inni.

Þjónninn okkar þetta kvöld var eiginlega meira í ætt við breskan “butler” en hefðbundinn veitingahúsaþjón. Professional framkoma og hegðun í hvívetna. Og hann gerði allt rétt. Þarna var komin tilfinningin sem ég hef svo oft mært, að ég sé kóngur um stund og mínar þarfir og væntingar séu í aðalhlutverki. Tíminn, frá því ég kem inn og þar til ég stend aftur úti að lokinni máltíð, er minn tími. Þetta upprof frá raunveruleikanum er ef til vill helsta ástæða þess að ég fer út að borða. Að vera borinn í gullstól og borða mat sem er betri en sá sem maður eldar sjálfur heima.

Við völdum samsettan fimmrétta sælkeraseðil þar sem kokkarnir ráða för. Og svo hófst konsertinn. Fyrst kom á borðið rjómalöguð fiskisúpa og hún lagði strax grunninn að máltíðinni með lyktinni einni saman. Algjört lostæti og greinilega elduð af ástríðu og natni. Næst kom heitreyktur svartfugl með eplasalati og piparrjóma, góður forréttur og salatið kom skemmtilega á óvart. Innbökuð saltfiskkæfa með humri var frábær og fullkomnaði uppbygginguna að aðalréttinum, humarinn var stór, bragðgóður og rétt eldaður. Tvennskonar fiskur var í boði sem réttur dagsins, skötuselur og lúða, og kokkarnir völdu þá báða. Það er alltaf gaman þegar matreiðslumennirnir fylgja réttum sínum eftir og þeir komu báðir að færa okkur aðalréttinn og segja frá matseldinni. Skapar stemmningu og eftirvæntingu. Og þvílíkt ævintýr.

Ég fer ekki oft að hlæja þegar ég smakka mat en það gerðist þarna, fiskurinn var svo bragðgóður og lystugur að ósjálfráð viðbrögð mín voru að hlæja upphátt í gleði minni. Það er langt síðan ég hef smakkað jafn góðan mat og þarna var borinn á borð og öll umgjörð þessarar máltíðar var eins og kafli í klassísku tónverki. Svona sinfóníur eru einfaldlega ekki leiknar víða í dag. Það er engin tilviljun að þegar gera á vel við erlenda gesti og stórmenni þá er oftar en ekki farið með viðkomandi á þennan veitingastað. Hann er einn af fáum sem hefur eigin stíl bæði í innréttingum og matseld og hér finnur maður það “commitment” sem vantar sárlega á suma staði í borginni.

Hér var sannarlega ekki farin sú leið sem margir fara í dag, að mála veggina gráa og panta svo bara allan húsbúnað frá Ítalíu haldandi að það sé málið, vera bara nógu hipp og kúl og þá skipti matur og þjónusta ekki eins miklu máli. Nei, á veitingahúsinu Við Tjörnina er maturinn og þjónustan í öndvegi. Umhverfið er óður til gamla tímans þegar virðing og mannasiðir voru enn hluti af menningu okkar. Ég gef staðnum 5 stjörnur því hér er að finna eitt besta veitingahús landsins.

*********

Segðu þína skoðun

 

Rýni þessi birtist í Mannlífi, ágúst ´06

Greint frá á bloggsíðu Hjartar

Heimasíða Við Tjörnina: www.vidtjornina.is

 

[email protected]

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss
Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið