Uppskriftir
Ein fiskiuppskrift og sósa að eigin vali
Það má nota flestar ef ekki allar fisktegundir sem seldar eru í venjulegum fiskbúðum í þessa uppskrift. Fiskurinn þarf að vera flakaður, roðflettur og beinhreinsaður.
Matreiðsluaðferð
Fiskurinn er skorinn í hæfilega bita.
Bleytið fiskinn í sítrónusafa.
Setjið álpappír í botninn á eldfastri skál eða ofnskúffu.
Stráið fínt söxuðum lauk á álpappírinn.
Raðið fiskbitunum ofaná laukinn, frekar þétt.
Brettið kantinn á álpappírnum upp svo safinn af fisknum renni ekki frá honum.
Setjið í miðjan 180C heitan ofn í um 8 til 12 mínútur eftir þykkt fisksins.
Hellið eða sigtið safanum af fisknum í sósuna og hrærið samanvið.
Frosnir fiskbitar eru matreiddir á sama hátt nema það þarf að bæta við 10 mínútum sem þýðir 18 til 22 mínútur í blástursofni en 22 til 27 mínútum í venjulegum heimilisofni.
Einnig má skera fiskinn í þunnar lengjur, rúlla honum upp og matreiða á sama hátt og hér að ofan. Einnig er hægt að rúlla fiskinum í kringum tvo fingur og fylla holuna eftir suðu.
Sósur
Allar uppskriftir eru fyrir 4.
Blaðlaukssósa
20 cm. langur partur af hvíta endanum af blaðlauknum
Kljúfið hann langsum og skolið í vatni, skerið í ½ cm. sneiðar
3 matskeiðar smjör
½ bolli rjómi
½ bolli kjúklingasoð
1 matskeið maísmjöl til að þykkja.
Aðferð
Bræðið smjörið í pott eða pönnu. Bætið blaðlauknum útí, lækkið hitann lítið eitt og kraumið í 3 til 4 mínútur, hrærið stöðugt í. Laukurinn á alls ekki að brúnast. Bætið vökvanum útí og látið sjóða í 2 til 3 mín. Hrærið kartöflumjölið út í 2 matskeiðum af vatni eða kjúklingasoði og þykkið sósuna. Bragðið til ef þarf og berið fram með fisknum. Berið fram með soðnu grænmeti og grófu brauði.
Gráðostasósa
2-3 matskeiðar smjör eða olía
½ meðalstór saxaður laukur
2 stilkar sellerí skorið í ½ sm. þykkar sneiðar
½ bolli rjómi
½ bolli kjúklingasoð
Gráðostur eftir smekk
2 matskeiðar maísmjöl
Aðferð
Hitið smjörið í pott eða pönnu. Bætið lauknum útí og kraumið í 1 til 2 mín. Bætið selleríinu úti og kraumið í 2 til 3 mín. Setjið vökvann útí og látið sjóða í 2 til 3 mínútur. Myljið gráðostinn útí eftir smekk. Smakkið til. Leysið maísmjölið upp í vatni eða kjúklingasoði og þykkið sósuna.
Berið fram með soðnu grænmeti og grófu brauði.
Sinnepsósa
2 til 3 matskeiðar smjör eða olía
½ meðalstór saxaður laukur
1 stilkur sellerí skorið í ½ sm. þykkar sneiðar
½ bolli rjómi
½ bolli kjúklingasoð
2 til 3 teskeiðar gott sinnep eftir smekk, til dæmis Dijon.
2 msk maísmjöl
Aðferð
Hitið smjörið í pott eða pönnu. Bætið lauknum útí og kraumið í 1 til 2 mín. Bætið selleríinu úti og kraumið í 2 til 3 mín. Setjið vökvann útí og látið sjóða í 2 til 3 mínútur. Bætið sinnepinu útí eftir smekk. Smakkið til. Leysið maísmjölið upp í vatni eða kjúklingasoði og þykkið sósuna.
Berið fram með soðnu grænmeti.
Rjóma sveppasósa
2 til 3 matskeiðar smjör eða olía
½ meðalstór saxaður Laukur
150 gr sveppir, skornir í sneiðar.
½ bolli rjómi
½ bolli kjúklingasoð
2 matskeiðar maísmjöl
Aðferð
Hitið smjörið eða olíuna í potti eða á pönnu. Bætið lauknum útí og kraumið í 2 til 3 mínútur. Bætið sveppunum útí og kraumið í 2 til 3 mínútur. Bætið vökvanum í og látið sjóða í 2 til 3 mínútur. Smakkið til. Leysið maísmjölið upp í vatni eða kjúklingasoði og þykkið sósuna.
Berið fram með soðnu grænmeti og grófu brauði.
Spergilsósa
2 til 3 matskeiðar smjör eða olía
½ meðalstór saxaður laukur
200 gr. grænn spergill, ferskur, skorinn á ská í þunnar sneiðar
½ bolli rjómi
½ bolli kjúklingasoð
2 matskeiðar maísmjöl
Aðferð
Hitið smjörið eða olíuna í potti eða á pönnu. Bætið lauknum útí og kraumið í 2 til 3 mínútur.
Bætið Sperglinum útí og kraumið í 1 til 2 mínútur. . Bætið vökvanum í og látið sjóða í 2 til 3 mínútur. Smakkið til. Leysið maísmjölið upp í vatni eða kjúklingasoði og þykkið sósuna.
Berið fram með soðnu grænmeti
Agúrku og kapers meðlæti
2 til 3 matskeiðar smjör eða olía
½ meðalstór saxaður laukur
1 agúrka skorin langsum, kjarninn fjarlægður og skorinn í sneiðar.
1 lítið glas kapers
50 gr. óbráðið smjör
Aðferð
Hitið smjörið eða olíuna í potti eða á pönnu. Bætið lauknum útí og kraumið í 2 til 3 mínútur.
Bætið agúrkunum úti og síðan kapersinum og safanum líka. Látið sjóða upp og bætið óbrædda smjörinu útí. Þegar smjörið er bráðnað er meðlætið tilbúið. Berið fram með soðnum kartöflum og spergilkál.
Rækjusósa
2 til 3 matskeiðar smjör eða olía
½ meðalstór saxaður laukur
½ bolli rjómi
½ bolli kjúklingasoð
200 gr. rækjur
2 matskeiðar maísmjöl
Aðferð
Hitið smjörið eða olíuna í potti eða á pönnu. Bætið lauknum útí og kraumið í 2 til 3 mínútur.
Bætið vökvanum útí og látið suðuna koma upp. Leysið maísmjölið upp í vatni eða kjúklingasoði og þykkið sósuna. Bætið rækjunum útí bragðið til og takið af hitanum um leið og suðan kemur upp. Rækjurnar eiga ekki að sjóða. Berið fram með soðnum kartöflum og gulrótum.
Appelsínu-smjörsósa
½ bolli appelsínuþykkni
150 gr óbrætt smjör
Aðferð
Skerið smjörið í bita. Setjið appelsínuþykknið og smjörið í pott og yfir hálfan hita. Hrærið í þar til allt smjörið er bráðnað. Þá er sósan til, má ekki sjóða.
Berið fram með soðnu blönduðu grænmeti.
Banana meðlæti
2 til 3 matskeiðar smjör
2 bollar eplasafi
2 gulir bananar afhíðaðir og skornir í tæplega 1 cm. sneiðar.
1-2 msk maísmjöl (Maizena)
Aðferð
Hitið smjörið í pönnu, það má ekki brúnast. Bætið bananasneiðunum útí og rétt hitið. Bætið epla safanum útí og látið suðuna koma upp.
Leysið maísmjölið upp í eplasafa eða kjúklingasoði og þykkið sósuna.
Berið fram með soðnu spergilkáli og gulrótum.
Epla karrýsósa
3 til 4 matskeiðar smjör eða olía
½ meðalstór saxaður laukur
1 grænt epli, skrælað, kjarnað og skorið í litla teninga.
1 til 2 matskeiðar karrý.
½ bolli rjómi
½ bolli kjúklingasoð
2 mats maísmjöl
Aðferð
Hitið smjörið eða olíuna í potti eða á pönnu. Bætið lauknum útí og kraumið í 2 til 3 mínútur.
Bætið eplinu útí og kraumið í rúma mínútu. Bætið karrýinu útí og hrærið samanvið í 10 til 15 sekúndur bætið vökvanum útí og látið sjóða í 3 til 4 mínútur. Bragðið til.
Leysið maísmjölið upp í vatni eða kjúklingasoði og þykkið sósuna. Berið fram með soðnum hrísgrjónum og grófu brauði.
Höfundur er Hilmar Bragi Jónsson matreiðslumeistari
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Ekta rjómaís með hvítu súkkulaði og piparkökum – Fullkominn á veisluborðið yfir hátíðarnar
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Hátíðar opnun Hafsins
-
Frétt1 dagur síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn5 klukkustundir síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn16 klukkustundir síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi