Viðtöl, örfréttir & frumraun
Eigandi Sjávarsetursins gagnrýnir harðlega meintan mismun Suðurnesjabæjar á fyrirtækjum
Rekstur veitingastaðarins Sjávarsetrið í Sandgerði hangir nú á bláþræði og blasir nauðungarsala við húsnæði staðarins þann 10. febrúar næstkomandi, náist ekki lausn fyrir þann tíma. Í harðorðri Facebook-færslu lýsir Arna Björk Unnsteinsdóttir, einn eigenda Sjávarsetursins, yfir miklum vonbrigðum með það sem hún telur vera ósanngjarna og jafnvel spillta stjórnsýslu af hálfu Suðurnesjabæjar.
Sjávarsetrið opnaði 26. ágúst 2022 og hefur síðan verið virkur þátttakandi í veitingalífi Sandgerðis.
Sjá einnig: Nýr veitingastaður opnar í Sandgerði
Nú segir Arna reksturinn vera á lokametrunum, nema kraftaverk eigi sér stað. Hún lýsir stöðunni sem bæði fjárhagslega og tilfinningalega yfirþyrmandi og segir sig hafa leitað allra leiða til að bjarga því sem hún kallar „fjórða barnið sitt“.
Í færslunni bendir Arna á að hún telji að aðrir aðilar í bænum njóti verulegs stuðnings sem Sjávarsetrinu hafi verið neitað um. Hún fullyrðir að skuldir annarra veitingastaða hafi verið afskrifaðar og samningar framlengdir þrátt fyrir ógreidda leigu. Þar nefnir hún sérstaklega Garðskagi ehf., fyrirtæki sem rekur veitingastaðinn Röstina, og bendir á að bæði bæjarstjóri Suðurnesjabæjar og annar fulltrúi bæjarstjórnar sitji í stjórn félagsins.
„Þá er nú ekki nema von að samningar séu framlengdir og skuldir afskrifaðar þegar bæjarstjóri sem og annar fulltrúi bæjarstjórnar eru í stjórn fyrirtækisins,“
skrifar Arna og segir slíkt grafalvarlegt mál sem hljóti að vekja spurningar um jafnræði og hagsmunaárekstra.
Hún gagnrýnir jafnframt harðlega innkaupastefnu bæjarins og segir Sjávarsetrið hafa verið sniðgengið þegar kemur að matarþjónustu fyrir miðhús eldri borgara í Sandgerði, þrátt fyrir að staðurinn hafi boðið upp á hádegishlaðborð alla virka daga á lægra verði en samkeppnisaðilar. Samkvæmt henni var ákveðið að semja við fyrirtæki í Keflavík án þess að þjónustan færi í útboð.
Í færslunni nefnir hún einnig dæmi um að einkaaðili hafi þurft að greiða fyrir að eldri borgarar fengju skötu á Þorláksmessu, auk þess sem hús í bænum hafi verið selt á um tvær milljónir króna án útboðs. Þá segist hún hafa heyrt af því „út í bæ“ að skuldir fleiri fyrirtækja hafi verið felldar niður.
Arna bendir einnig á að bæjarskrifstofur Suðurnesjabæjar kaupi reglulega mat fyrir starfsmenn sína, nú vikulega samkvæmt leiðréttingu hennar, en hafi ekki verslað við Sjávarsetrið frá miðju ári 2023.
„Ég er ekki að krefjast þess að bærinn versli einungis við okkur,“
skrifar hún,
„ég bið ekki um annað en að við séum tekin til greina.“
Hún segir lágmarksstuðning nægja til að reksturinn geti lifað af.
Í lok færslunnar veltir Arna því upp hvort einhver, þar á meðal fulltrúar bæjarins, vilji koma inn í reksturinn með fjárfestingu og eignast helmingshlut eða meira í veitingastaðnum. Með færslunni birtir hún skjáskot sem hún segir sýna hvaða bæjarfulltrúar samþykktu áframhaldandi samning við Garðskaga ehf., sem og lista yfir stjórnarmenn félagsins.
-
Markaðurinn4 dagar síðanJóhannes Kristjánsson hefur hafið störf hjá Bako Verslunartækni (BVT)
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðanGóð stemning og öflugt fagfólk á fundi Klúbbs Matreiðslumeistara hjá Bako
-
Markaðurinn5 dagar síðanViltu reka kaffihús í hjarta Miðborgarinnar
-
Vín, drykkir og keppni3 dagar síðanÞessir barir og barþjónar eru tilnefndir til BCA á Íslandi
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðanGamli Baukur heldur áfram með nýja eigendur og skýra sýn
-
Keppni3 dagar síðanTíu barþjónar tryggja sér sæti í úrslitum Bláa Safírsins
-
Frétt5 dagar síðanÞegar þorrablót ganga í garð. Hvað þarf að hafa í huga varðandi matvælaöryggi?
-
Markaðurinn3 dagar síðanRýmingarsala á nokkrum línum frá BONNA








