Frétt
Brúnastaðir hlýtur Hvatningarverðlaun ársins
Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin í Þingeyjarsveit og á Húsavík í gær. Farið var í heimsóknir til fyrirtækja á svæðinu, í göngutúr við Goðafoss og boðið var upp á hvalaskoðunarferðir á bæði eikarbátum og RIB bátum. GeoSea bauð öllum svo í bað áður en haldið var á Fosshótel í hátíðarkvöldverð og dagskrá sem endaði með dansi og gleði. Dagurinn var frábærlega vel heppnaður og þátttakendur fóru heim glaðir í bragði eftir frábæra samveru.
Venju samkvæmt voru veittar viðurkenningar á hátíðinni, að þessu sinni fyrir Fyrirtæki ársins, Sprota ársins og einnig voru veitt Hvatningarverðlaun.
Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi.
Fyrirtæki ársins í ár er Gentle Giants, sem hefur í yfir tuttugu ár boðið upp á hvalaskoðun á Skjálfanda. Hvalaskoðun er ákveðið hryggjarstykki í norðlenskri ferðaþjónustu og ein vinsælasta afþreyingin sem hér er boðið upp á, árið um kring. Það er ekki síst fyrir tilstilli fyrirtækja á borð við Gentle Giants, en stofnendur þess hafa unnið ötullega að uppbyggingu fyrirtækisins og um leið ferðaþjónustu á Norðurlandi öllu.
Í samkeppninni sem ríkir í norðlenskri hvalaskoðun er vöruþróun og nýsköpun mikilvæg, og þar hefur Gentle Giants verið öflugt. Boðið er upp á fjölbreytt úrval ferða, sem snúast ekki eingöngu um hvalaskoðun heldur einnig fuglaskoðun, sjóstangveiði, hesta og jafnvel jóga – svo eitthvað sé nefnt. Fyrirtækið hlaut viðurkenningu frá Samtökum atvinnulífsins fyrr á þessu ári, sem Menntasproti ársins 2022.
Þá viðurkenningu fékk fyrirtækið meðal annars fyrir mikla vinnu á sviði mennta-, fræðslu-, og þjálfunarmála innan fyrirtækisins en einnig fyrir uppbyggingu á samstarfi við aðila á svæðinu og samfélagslega ábyrgð.
Viðurkenningin Sproti ársins er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi.
Það má með sanni segja að þetta fyrirtæki hafi vakið eftirtekt á þessu ári, enda haft mikil áhrif á tækifæri fólks til ferðalaga bæði til og frá Norðurlandi. Í ár er það Niceair sem fær verðlaun sem Sproti ársins. Með þrautseigjuna að vopni og gríðarlega trú á millilandaflugi um Akureyrarflugvöll, tilkynntu forsvarsmenn Niceair það síðasta vetur að félagið myndi hefja sig til flugs í sumar. Viðtökurnar voru frábærar og það er greinilegt á fólki á Norður- og Austurlandi hefur hversu mikla þýðingu það hefur að hafa millilandaflug nálægt sinni heimabyggð.
Félagið hefur mikil tækifæri á erlendum mörkuðum, þá sérstaklega hjá farþegum sem vilja heimsækja Ísland í annað sinn og horfa þá til áfangastaðar eins og Norðurlands. Takist því að nýta þessi tækifæri þarf ekki að spyrja að áhrifunum sem það mun hafa á norðlenska ferðaþjónustu. Þrátt fyrir bakslag í upphaflegum flugáætlunum félagsins er engan bilbug á því að finna og mjög augljóst hversu ákveðnir stjórnendur þess eru í því að vinna að brautargengi félagsins.
Þeirra starf vekur athygli á Norðurlandi öllu og skapar ný tækifæri fyrir ferðaþjónustu eins og hún leggur sig.
Hvatningarverðlaun ársins eru til fyrirtækis sem býður upp á þjónustu sem byggir vel undir ímynd Norðurlands og er orðið þekkt meðal innlendra og erlendra ferðamanna fyrir einstaka upplifun.
Í ár er það Brúnastaðir í Fljótunum sem hlýtur þessa verðlaun. Þar býður fjölskyldan upp á gistingu fyrir ferðamenn, er með lítinn dýragarð og framleiðir sína eigin osta úr geitamjólk, sem eru algjört lostæti. Þeir sem mættu á síðustu uppskeruhátíð muna vel eftir skemmtilegri heimsókn á Brúnastaði þar sem við fengum einmitt að smakka á ostunum og hitta geiturnar á hlaðinu, auk litla refsins sem sló í gegn.
Sjá einnig: Ný matarsmiðja á Brúnastöðum
Brúnastaðir eru frábært dæmi um það hvernig það fer saman að reka býli og ferðaþjónustu. Þar fá gestir að kynnast íslenskum landbúnaði og afurðum hans, sauðfjárrækt og skógrækt en um leið fá þeir framúrskarandi og faglega þjónustu. Fulltrúar fyrirtækisins gátu því miður ekki verið með á Uppskeruhátíðinni og fá þau verðlaunin afhent við fyrsta tækifæri.
Mynd: northiceland.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun15 klukkustundir síðan
Slippurinn í Vestmannaeyjum tekur sitt síðasta tímabil 2025 – Gísli Matt: ástæða lokunarinnar er sú að við trúum því að allt gott taki enda
-
Frétt3 dagar síðan
Nýr miðlægur listi yfir sveina með starfsréttindi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Flottir ekta ítalskir réttir og pizzur af betri gerðinni – Fagnaðu gamlárskvöldinu með stæl á Piccolo – Myndir
-
Food & fun1 dagur síðan
Tveir íslenskir gestakokkar verða á Food and Fun hátíðinni í Stavanger
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Veitingageirinn í jólaskapi
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Gleðileg jól, kæru lesendur – Veitingageirinn.is þakkar fyrir sig
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Árið 2024 var stórt ár fyrir matgæðinga á KEF
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Jólakveðja frá Leiðtoga matvæla- og veitingagreina