Vertu memm

Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel

Bacco í Smáralind lokar – „Tímabundið hlé – við komum aftur“ segir eigandinn – Opnar nýjan veitingastað í Mathöll Höfða

Birting:

þann

Bacco, hinn litríki ítalski veitingastaður í Smáralind, mun loka dyrum sínum þann 15. júní. Eigandinn, Cornel G. Popa, segir að ákvörðunin sé hluti af fyrirfram ákveðnu tilraunaverkefni – og að nýir spennandi tímar séu fram undan.

Sjá einnig: Nýr ítalskur veitingastaður opnar í Smáralindinni

Cornel hyggst opna veitingastað í Mathöll Höfða í samstarfi við Svanhildi Heiðu Snorradóttur, þar sem áhersla verður á léttar, bragðmiklar máltíðir og persónulega þjónustu.

Við ræddum við Cornel um lokunina, nýja verkefnið og hans sýn á veitingarekstri í Reykjavík.

Bacco í Smáralind lokar – „Tímabundið hlé – við komum aftur“ segir eigandinn - Opnar nýjan veitingastað í Mathöll Höfða

Cornel G. Popa

Hvers vegna að loka Bacco í Smáralind?

„Þegar ég tók að mér rýmið í Smáralind vissi ég frá byrjun að þetta yrði eins árs pop-up samningur. Hugmyndin var alltaf að prófa markaðinn – að sjá hvernig fólk myndi bregðast við þessu koncepti.

Þannig að þó það sé dálítið súrt að loka, þá var þetta aldrei hugsað sem varanlegt. Ég er hins vegar ótrúlega þakklátur fyrir þetta tækifæri og fyrir að fá að koma með eitthvað nýtt í Smáralind.“

Ertu með sérstök skilaboð til þeirra sem hafa stutt staðinn á þessu ári?

„Ég vil þakka öllum innilega sem studdu okkur – hvort sem fólk kom í hádegismat, kvöldverð eða varð fastagestur. Við nutum þess virkilega að elda fyrir ykkur og vona að það hafi komið fram á hverjum diski. Fyrir þá sem eru svekktir yfir lokuninni vil ég segja: þetta er bara tímabundið hlé.

Við erum nú þegar að leita að nýju heimili fyrir Bacco og við komum aftur – betri en nokkru sinni fyrr.“

Geturðu sagt okkur aðeins meira um nýja veitingastaðinn Delisia Salads sem opnar í Mathöll Höfða?

„Hugmyndin kviknaði þegar kjúklingasalatið okkar á Bacco sló óvænt í gegn. Það byrjaði sem léttur réttur – eitthvað ferskt með góðu hvítvíni – en endaði sem annar vinsælasti rétturinn á matseðlinum, strax á eftir lamba bolognese-inu. Þá rann upp fyrir mér að það er mikil eftirspurn eftir gæðasalötum sem eru holl og heimagerð.

Ég fann svo frábært rými í Mathöll Höfða og ákvað að láta verða af þessu. Eins og áður segir þá verður þetta samstarf með Svanhildi Heiðu Snorradóttur, traustan fjölskylduvin minn sem mun sjá um reksturinn dag frá degi. Hún er einstaklega heillandi og lífleg manneskja og mun setja sinn svip á allt þetta verkefni.“

Bacco í Smáralind lokar – „Tímabundið hlé – við komum aftur“ segir eigandinn - Opnar nýjan veitingastað í Mathöll Höfða

Svanhildur Heiða við framkvæmdir á nýja veitingastaðnum

Hvað viltu að þessi nýi staður komi með inn í veitingalífið í Mathöll Höfða?

„Við erum að koma með eitthvað ferskt – bæði í bragði og útliti. Lita- og bragðrík salöt sem eru holl en á sama tíma ljúffeng. Það er ekki alltaf auðvelt að finna eitthvað sem er bæði nærandi og ljúffengt, en það er nákvæmlega það sem við stefnum að.

Hvort sem þú kemur í fljótlegan hádegismat eða afslappaðan kvöldverð, þá á þetta að vera upplifun – pínulítið frí frá hversdagsleikanum.“

Segir Cornel G. Popa.

Hvernig hefur þessi vegferð í veitingarekstri mótað þig sem eiganda og kokk?

„Þó ég hafi rekið La Cucina eitt sumar áður, og nú erum við að fara í annað sumar með Little Italy og Sæta Vagninn, þá var Bacco fyrsta raunverulega skrefið mitt inn í alla flækjuna sem fylgir veitingarekstri – pappíra, tímasetningar, óvæntan kostnað.

Þetta var erfiður skóli en nauðsynlegur, og ég kem út úr þessu betri og jarðbundnari rekstraraðili.“

Hver er framtíðarsýn þín fyrir veitingastaðina þína næstu árin?

„Markmiðið er að stækka Delisia Salads í lítið smáfranchise á næstu árum. Ég er sannfærður um að þetta koncept á fullt erindi og með réttu samstarfsfólki getum við vaxið.

Með Little Italy ætla ég svo að halda áfram í að minnsta kosti tvö sumur í viðbót – það hefur orðið ákveðinn fastur punktur í sumarveitingum borgarinnar og mér finnst þetta ennþá ótrúlega gaman.“

Þeir sem vilja kveðja Bacco í Smáralind hafa fram til 15. júní. Nýi veitingastaðurinn Delisia Salads mun opna á næstu vikum í Mathöll Höfða, þar sem áhersla verður lögð á ferskleika, gæði og persónulega þjónustu.

Myndir: aðsendar

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið