Pistlar
Þessi pistill er svo saltur að ef þú sleikir skjáinn finnur þú saltbragðið
Svanur Gísli Þorkelsson skrifar skemmtilegan pistil um salt, sem er eitt af því sem við tökum sem sjálfsögðum hlut í dag. Fyrrum var það afar verðmætt enda bráðnauðsynlegt og oft kallað „hið hvíta gull.“
Svanur Gísli Þorkelsson skrifar:
Allt um salt
Jæja, kannski ekki allt en þessi pistill er svo saltur að ef þú sleikir skjáinn finnur þú saltbragðið af honum. Ég legg samt ekki til að þú gerir það.
Það fyrsta sem þú flytur inn í nýja húsnæðið þitt er salt og brauð eða svo býður hjátrúin sem er samt nokkuð ný hér á landi. Natríumklóríð eins saltið heitir í efnafræðinni á að tryggja heimilinu velmegun. En eitt er víst að Íslendingar hefðu aldrei komist í álnir ef ekkert hefðu þeir haft saltið. Saltfiskur og söltuð síld gerðu okkur rík.
Ef þú átt ekki fyrir salti í grautinn ertu í slæmum málum of e.t.v. verri en þú heldur því salt er lífsnauðsynlegt manninum. En það getur líka verið banvænt í of stórum skömmtum og ef þú þjáist af vissum kvillum þurfa þeir alls ekki að vera stórir til að skaða þig. Einhverjir hljóta að muna eftir sögunni af kóngsdótturinni sem sagðist elska föður sinn eins og salt og fékk bágt fyrir.
Salt er eitt af því sem við tökum sem sjálfsögðum hlut í dag. Fyrrum var það afar verðmætt enda bráðnauðsynlegt og oft kallað „hið hvíta gull.“ Fyrsta borgin sem varð til í Evrópu er borgin Solnitsata í Búlgaríu en nafnið merkir þýðir Saltnáma. Rústir hennar eru 7400 ára gamlar.
Frægar borgir eins og Salzburg og Via Salaria voru einnig nefndar eftir saltinu og fjölmargt við matargerð tengist því á einn eða annan hátt. Af og til fara af stað heitar umræður um hvort salt sé krydd eða bragðefni og þær enda flestar á að fólk kemur sér saman um að salt sé ekki krydd.
Elsta rótin af orðinu salt er „sal“ og það hefur haldist í sinni upprunalegu mynd í flestum Indóevrópskum málum. Án þess væri ekki til sulta eða sultur, sollur hvað þá selta í íslensku.
Salt var lengi svo fágætt og verðmætt að t.d. greiddu Rómverjar hermönnum sínum hluta launa þeirra í salti og var sá hluti kallaður salarium. Í ensku varð það að „salary“ sem þýðir laun.
Meðal Slavneskra þjóða varð til orðið „Sladúkú“ sem komið er af salti en þýddi „sætur eða sætindi“ sem þýðir að þeir notuðu salt yfir sykur.
Rómverjar notuðu salt í alla mata, þeir söltuðu grænmetið og kölluðu það herba salata en við köllum það bara salat.
Þeir settu það í sósurnar sínar og kölluð þær salsa. Í Frakklandi slepptu þeir ellinu og úr var sause eða sósa á íslensku. Á Spáni varð til söltuð pylsa sem er kölluð salami.
Nafnorðið Saltari á samt ekkert skylt við saltið. Það er gamalt orð yfir bók sem innihélt Davíðssálma úr biblíunni og er komið af hundgömlu grísku orði yfir hörpu þ.e. psaltḗrion.
“Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á þá að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum”, segir Í Biblíunni og auðvitað er salt í guðfræðinni.
Á vef kirkjunnar er eftirfarandi að finna um salt; „Til forna var salt mikils metið. Grikkirnir kölluðu saltið guðdómlegt. Rómverjar töldu að ekkert væri nytsamlegra en sólin og saltið. Á tímum Jesú taldi fólk saltið hafa þrjá eiginleika.
Í fyrsta lagi tengdist saltið hreinleika. Án efa benti litur þess til þess að það væri hreint. Rómverjar sögðu að það væri hreinast alls vegna þess að það væri runnið frá því sem væri hreinast alls, sólinni og sjónum. Saltið var frumstæðast allra fórna sem guðunum voru færðar. Gyðingar færðu saltaðar fórnir. Af þessu má sjá að þegar Jesús Kristur segir að vilji kristið fólk vera salt jarðar þá eigi það að vera öðrum gott fordæmi um þennan hreinleika með dyggðugu líferni sínu.“
Sem sagt, salt er allt.
Höfundur er: Svanur Gísli Þorkelsson.
Pistilinn er einnig hægt að lesa hér.
Mynd: úr safni
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Mesta úrval Japanskra hnífa á Íslandi
-
Vín, drykkir og keppni10 klukkustundir síðan
Opnuðu 18 L kampavínsflösku í fyrsta sinn á Íslandi – Nýir eigendur Kampavínsfjelagsins
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Gulli bakari heiðraður sem kaupmaður ársins 2024
-
Vín, drykkir og keppni3 dagar síðan
Mikil aukning á fölsuðu áfengi – IBA biðlar til allra barþjóna og veitingamenn að vera vel á verði
-
Uppskriftir4 dagar síðan
Ljúffengar og góðar fiskibollur
-
Frétt3 dagar síðan
Upplýsingar til rekstraraðila í kringum Austurvöllinn
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Úrvalslið veitingageirans fagnaði opnun þriggja nýrra veitingastaða á Keflavíkurflugvelli – Myndir
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Beittir hnífar: Svartur föstudagur – Viku tilboð