Frétt
Neytendur verði af 104 tonnum af tollfrjálsum ostum
Neytendur verða á þessu ári af 104 tonnum af tollfrjálsum ostum frá Evrópusambandinu vegna breytinga Alþingis á frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um innflutning svokallaðra sérosta, að því er fram kemur á vef Félags atvinnurekenda.
Þingið samþykkti í nótt breytingartillögu meirihluta ríkisstjórnarflokkanna í atvinnuveganefnd við frumvarpið, sem fellir niður meginhluta þess og hefur af neytendum þær hagsbætur, sem í því áttu að felast og samkomulag var um við samþykkt búvörusamninganna árið 2016. Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega þessa þjónkun ríkisstjórnarmeirihlutans við hagsmuni innlendra framleiðenda búvara.
Í frétt segir að í ljósi þess að niðurstaðan varð þessi, gilda óbreytt ákvæði tollasamnings Íslands og ESB um að tollfrjáls innflutningskvóti fyrir svokallaða sérosta, þ.e. osta sem falla undir vernd afurðaheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu, taki gildi í áföngum á fjórum árum. Forsaga málsins er hins vegar sú að þáverandi meirihluti atvinnuveganefndar lagði til, í því skyni að liðka fyrir samþykkt búvörusamninganna á sínum tíma, að taka alla aukningu á tollkvóta fyrir sérosta, 230 tonn, inn strax við gildistöku samningsins. Jón Gunnarsson þáverandi formaður nefndarinnar kallaði þessa ráðstöfun „verulega tilslökun“ á móti hækkun á almennum tollum á osta, sem kveðið var á um í búvörusamningunum. Sú tollahækkun tók gildi í ársbyrjun 2017.
Atvinnuvegaráðuneytið framkvæmdi ekki þennan vilja Alþingis og bar fyrir sig að skort hefði skýrt heimildarákvæði í texta laganna þegar búvörusamningarnir voru samþykktir. Eftir að Félag atvinnurekenda vakti athygli á málinu og gagnrýndi vinnubrögð ráðuneytisins ákvað Kristján Þór Júlíusson að flytja frumvarp til að vilji Alþingis frá árinu 2016 mætti ná fram að ganga og öll aukningin á tollkvóta fyrir sérosta tæki gildi á þessu ári.
Nefndin skipti um skoðun vegna þrýstings frá landbúnaðinum
Meirihluti atvinnuveganefndar lagði í fyrstu til breytingu á frumvarpinu þannig að aukningin tæki gildi á þessu ári og því næsta. Eftir 2. umræðu um málið skipti nefndin hins vegar um skoðun, eftir að hagsmunaaðilar í landbúnaði beittu hana verulegum þrýstingi, og lagði til í nefndaráliti sem lagt var fram í gær að 1. grein frumvarpsins, um að flýta aukningu tollkvótans, félli alfarið brott. Þannig var frumvarpið samþykkt í nótt. Þetta þýðir að á þessu ári missa neytendur af 104 tonnum af tollfrjálsum ostum og á næstu þremur árum af tugum tonna árlega.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, gagnrýnir þessa afgreiðslu Alþingis harðlega á vef Félags atvinnurekenda.
„Við samþykkt búvörusamninganna var lagt til að hraða innleiðingu sérostakvótans til að vega upp á móti miklum tollahækkunum á mjólkurvörum, þar á meðal á ostum, sem ríkið samdi um við bændur. Nú hafa þær tollahækkanir verið í gildi í eitt og hálft ár, en gildistöku tollasamningsins við ESB seinkaði hins vegar til 1. maí síðastliðins. Þegar af þeim ástæðum hallar á neytendur og innflytjendur osta. Í stað þess að lagfæra það klúður sem varð í lagasetningunni á sínum tíma, ákveða fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna nú að rjúfa sáttina og ganga þannig freklega gegn hagsmunum og réttmætum væntingum jafnt innflutningsfyrirtækja og neytenda,“
segir Ólafur.
Ólafur bendir á að tollkvóta fyrir sérosta er ekki úthlutað með uppboði eins og öðrum tollkvótum, heldur með hlutkesti.
„Það þýðir að hægt er að selja þessa osta á mun lægra verði en ella af því að á þá leggst ekkert útboðsgjald. Meira úrval og lægra verð í ostaborðinu er auðvitað eitur í beinum hagsmunaaðila í landbúnaði. Því miður láta fulltrúar stjórnarflokkanna hagsmuni þeirra ganga framar hagsmunum innflytjenda og neytenda.“
Myndir: úr safni
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Ekta rjómaís með hvítu súkkulaði og piparkökum – Fullkominn á veisluborðið yfir hátíðarnar
-
Frétt2 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Hátíðar opnun Hafsins
-
Markaðurinn20 klukkustundir síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi