Vertu memm

Uppskriftir

Vinningshafar í saltfiskuppskriftarkeppni

Birting:

þann

T.v. Óskar Sævarsson, Sverrir Halldórsson matreiðslumeistari og dómari mætti fyrir hönd félagsins Matur – saga – menning, Hugrún Jóhannesdóttir sem fékk 4.-5. verðlaun, Fanný Erlingsdóttir sigurvegari, Helga Kristjánsdóttir sem mætti fyrir hönd Sigríðar Klemensdóttur sem fékk 3. verðlaun og Sigrún J. Franklín sem tók við 2. verðlaunum fyrir hönd Elsu K. Kristinsdóttur

Saltfisksetrið í Grindavík og félagið Matur-saga-menning stóðu fyrir saltfiskuppskriftarkeppni.  Sigurvin Gunnarsson, matreiðslumeistari, Sverrir Halldórsson, matreiðslumeistari og Laufey Steingrímsdóttir, næringafræðingur völdu fimm vinningsuppskriftir, en þær eru eftirfarandi:

1. sæti: kr. 30.000
Steiktur saltfiskur með grænmeti og kartöflustöppu / Fanný Erlingsdóttir

2. sæti: kr. 20.000
Saltfiskur í þjóðbúningi / Elsa Karen Kristinsdóttir

3. sæti: kr. 10.000
Suðrænn saltfiskur / Sigríður Klemensdóttir

4. og 5. sæti kr. 5.000 hvor
Stappaður saltfiskur/Þóra Sigurðardóttir og Uppskrift á flakki/Hugrún
Jóhannesdóttir

Vinningar verða afhentir í Saltfisksetrinu, Hafnargötu 12a Grindavík, laugardaginn 28. mars kl. 13.

Vinningsuppskriftir eru sýnilegar á vefsíðum:

Vinningshöfum er óskað til hamingju og öllum sem sendu inn uppskriftir og komu að keppninni er þökkuð þátttakan.

Hér að neðan ber að líta uppskriftirnar:

1. sæti

Steiktur saltfiskur með grænmeti og kartöflustöppu.

800 gr. saltfiskflök, útvötnuð og roðflett, skorin í 8 jöfn stykki.

Samsetning.

1dl hveiti.
8 hvítlauksgeirar, skornir í sneiðar.
½ dl. jómfrúarólífuolía
3 gulrætur skornar í þunna strimla
1/2  blaðlaukur, skorinn í strimla.
4-5 basilikulaufblöð skorin í strimla.
2 dl. kjúklingasoð
2 dl. rjómi, eða matreiðslurjómi.
1msk.kornsinnep.
1msk hlynsíróp.
Salt og pipar eftir smekk.

Kartöflustappan.

10 meðalstórar kartöflur soðnar.
2 msk. smjörlíki.
2 msk. sykur.
1 tsk. salt.
½ – 1 dl. rjómi eða mjólk.
½  blaðlaukur, skorinn smátt.
½  græn paprika, skorin smátt.
2 meðal stórir tómatar, kjarnhreinsaðir og skornir smátt.
2 msk. smjörlíki.

Smjörlíkið er brætt í potti. Kartöflurnar skrældar og stappað saman við, passa upp á að kartöflurnar séu vel heitar.
Sykri, salti og rjóma ( mjólk ) hrært saman við, smakkið til, á að vera dálítið sætt á bragðið.
Blaðlaukur, paprika og tómatar svitað á pönnu í smjörlíki og öllu blandað saman við kartöflustöppun

Veltið saltfiskinum upp úr hveiti og steikið í vel heitri olíunni í ca. 2 mín. á hvorri hlið.
Létt steikið hvítlaukssneiðarnar í stórum potti ( víðum ) ásamt gulrótastrimlunum og blaðlauknum.
Hellið kjúklingasoðinu yfir ásamt basilikublöðunum.
Látið sjóða vel saman. Bætið rjómanum saman við ásamt kornsinnepinu og hlynsírópinu.
Saltið og piprið eftir smekk.

Fanný Erlingsdóttir

2. sæti

Saltfiskur í þjóðbúningi

Í íslensku byggi með maltsósu.  Þessi gamli guli ekki nætursaltaður þorskur.

600-800 gr útvatnaður saltfiskur
200 gr byggmjöl
250 gr smjör, ósaltað
2 greinar blóðberg
1 grein rósmarin
3 dl malt
200 gr ísl smælki eða kartöflur
1 lítill haus blómkál
4 dl mjólk
dass af olíu

Kartöflurnar- sjóðið kartöflurnar hellið af þeim og maukið gróft eð olífuolíu og fersku dilli, salt ef vill.

Blómkálsmauk- skerið blómkálið í bita og sjóðið í mjólkinni í mauk, sett í mixer með pipar og 50 gr smjör (einnig er hægt að setja gulrætur í staðinn fyrir blómkálið).

Fiskurinn- veltið saltfiskinum upp úr byggmjölinu og steikið á meðal heitri pönnu,

Sósan- blóðbergi, rosmarinog malti bætt út í pönnuna sjóðið í 2 mín tekið af og mjúku smjöri hrært smá saman út í.

Borið fram með góðu salati . Ekki skemmir að hafa humarhala með ef fjárhagur leyfir.

Þetta er allt íslenskt hráefni og ég er stolt af því.

Elsa Karen Kristinsdóttir

3. sæti

Suðrænn saltfiskur

600 – 800 gr útvatnaður saltfiskur (best að vera með þykk stykki

Marinering:
½ hvítlaukur, saxaður
¼ bolli hvítlauksedik
1/8 bolli ferskt óreganó
½ bolli sveskjur
¼ bolli ólífur
¼ bolli kapers
½ bolli sólþurrkaðir tómatar í olíu, saxaðir
1 bolli ólífuolía
6 lárviðarlauf
pipar eftir smekk
1 msk. karrí

Gjarnan má setja meira af hvítlauk, ólífum, sveskjum, kapers og/eða sólþurrkuðum tómötum eða sleppa einhverju af þessu, allt eftir smekk hvers og eins. Fyrir þá sem eru hrifir af lauk er um að gera að bæta við lauk eða rauðlauk.

Skerið salfiskinn í bita. Blandið marineringunni saman í skál og setjið saltfiskinn út í. Látið maríneast í 6 – 24 klst. Setjið síðan í eldfast mót og bætið við:
¼ bolla saxaðri steinselju
½ bolli hvítvín
½ bolli púðursykur

Steikið í 180°C heitum ofni í ca 20 mín. Berið fram með soðnum smákartöflum eða hrísgrjónum og góðu brauði.

Sigríður Klemensdóttir

4.-5. sæti

Stappaður saltfiskur

Borinn fram með nýbökuðu brauði

Hráefni:
Saltfiskur
Kartöflur
Smjör
Hálfur hvítlaukur
Fersk steinselja og ferskur graslaukur
Piparkorn
Sítróna

Upplagt að nota afganginn af síðustu saltfiskmáltíð.
Eða: Veljið góða bita af (helst sólþurrkuðum!) saltfisk
Veljið fallegar lífrækt ræktaðar kartöflur
Útvatnið saltfiskinn í sólarhring.
Roðflettið saltfiskbitana

Hellið “útvötnunarvatninu”
setjið ferskt vatn í pott og látið saltfiskinn sjóða í  15-20 mínútur.
Gufusjóðið kartöflurnar – lengd suðu fer eftir stærð kartaflnanna.
Skrælið kartöflurnar
Saxið hvítlaukinn og léttsteikið í smjöri (má nota ólífuolíu; geymið steikingarsmjörið/olíuna).
Saxið kryddjurtirnar.
Steytið piparkornin í mortéli.

Setjið soðna saltfiskbitana í matvinnsluvél ásamt svolitlu af soði, steiktum hvítlauk, pipar brædda hvítlaussmjörinu/olíunni og skrældum kartöflunum.

Maukið allt saman góða stund. Bætið soði við þangað til maukið er orðið hæfilega mjúkt til að smyrja því á brauð.

Berið fiskstöppuna fram ásamt volgu nýbökuðu brauði, smjöri, söxuðum graslauk og steinselju ásamt sítrónu til að kreista yfir stöppuna.
————————
Hráefni í brauð:
½  líter vatn
5gr. ger
1tsk. hafsalt
400 gr. lífrænt ræktað fínmalað ljóst hveiti
ca.200 gr. lífrænt ræktað íslenskt hveiti frá Þorvaldseyri.

Þóra Sigurðardóttir

4.-5. sæti

Saltfisksúpa

Efni í soð:
1.l. vatn
1. stór laukur í sneiðum
4. baconsn.
2-3 sellerystönglar
2. stk. láviðarlauf
1. tsk þurrkað rósmarín.
3. Knorr nautaten.

Allt soðið rólega saman rúmlega hálfa klst. Soðið síað og sett í pott.

1 poki Svampemix
1. rauð paprika
1. dl. rautt púrtvín
1 lítill ,,Blue cheese“
800 gr. útvatnaður saltfiskur
1 peli rjómi
2. lúkur ferskt spínat.

1. poka af frosnum villisveppum bætt út í soðið. (Svampemix, fæst í Bónus og Hagkaup.) Siðan einni rauðri smátt skorinni papriku, 1dl rauðu púrtvíni og vel muldum gráðosti. Látið sjóða í nokkrar mínútur.
Bein og roðhreinsaður fiskurinn er skorinn í sykurmolastóra bita og bætt í ásamt lausþeyttum rjómanum. Suðan látin koma upp augnablik og potturinn þá tekin tekinn af hellunni. Spínatinu bætt varlega í og látið bíða í örfáar mínútur. Smakkið til, má þynna með vatni eða salta örl. eftir smekk.

Takið rautt epli (hart ekki mjölvað) og skerið í mjög smáa bita. Setjið í skál og hrærið saman við 2-3 matskeiðum af smátt skornum graslauk. Stráið 1-2 matskeiðum af eplablöndunni yfir hvern disk eftir að súpunni hefur verið ausið í þá. Gott að bera með gróft nýbakað brauð með íslensku smjöri.

Þessi réttur hefur þróast og breyst síðustu ár. Ég nota hann við hátíðlegt tækifæri sem aðalrétt, þó að hann sé súpa, við miklar vinsældir.

Hugrún Jóhannesdóttir

Uppskriftirnar á veitingageirinn.is eru frá fagmönnum og áhugafólki á matargerð sem skilar fjölbreyttar og bragðgóðar uppskriftir til þín. Ef þú lumar á uppskrift sem þú vilt birta á veitingageirinn.is sendu okkur þá uppskriftina ásamt nafni á [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið