Frétt
"Skyr-Broulet" er besti eftirréttur, …sem ég hef nokkurn tímann bragðað!
Að venju var fréttaritari að vafra um veraldarheim sælkera og lenti á virkilega skemmtilegri blog lesningu.
Eftirfarandi pistill er ritað af Hrannari Hafberg sem segir frá heimsókn sinni á hinn geysivinsæla norðlenska veitingastað Friðrik V., sem margir ættu nú að þekkja.
Friðrik V – Akureyri
Það var heilmikil veisla nú um síðustu helgi. Við brugðum okkur nokkur norður í land á ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri og stefnan var tekin á Friðrik V á föstudagskvöldið. Við lögðum af stað á föstudagsmorgun til að vera komin í tíma. Undirbúningurinn hafði verið þó nokkur, Halli var búinn að setja sig í samband við Friðrik nokkrum vikum áður og einhverjir af ráðstefnugestunum voru væntanlegir, – Mike, prófessorinn minn og mikill matgæðingur, vildi alls ekki missa af þessu.
Á norðurleiðinni var komið við á Brú, enda þykir mér gott að fá mér ekta íslenska kjötsúpu á leiðinni norður – þó ég hafi nú fengið þær tvær í ferðinni. Kjötsúpan er e.t.v. eitt af okkar betri réttum, sem við gætum hæglega gert að okkar nýja íslenska skyndibita, en merkilegt nokk, þá þykir Íslendingum jafnan betra að fá sér pylsu með öllu eða þjóðvegahamborgara eða pizzusneið þegar þeir eru á ferðinni. Það mætti leggja meira upp úr kjötsúpunni finnst mér, góður matur og tilvalinn skyndibiti! (Svo verður hún nú bara betri og betri eftir því sem hún er hituð upp oftar!)
Friðrik tók sér tíma til að líta upp úr pottunum
Við renndum í hlað hjá Friðriki V, þegar norður var komið og kíktum inn og tilkynntum komu okkar og hvað við yrðum mörg. Friðrik og Adda heilsuðu bæði upp á okkur og sýndu okkur borðið, sem þau höfðu sérstaklega útbúið fyrir veisluna. Friðrik tók sér tíma til að líta upp úr pottunum og gæta að því að einn úr hópnum væri með glútenóþol og sagðist ætla að taka tillit til þess. Svo skellti hann sér aftur inn í eldhús og við komum okkur fyrir í húsi í bænum, þar sem við ætluðum að gista, skelltum okkur í bað og svo í betri fötin.
Við gengum inn á staðinn á mínútunni átta, en þá var enn von á fleiri gestum í hópinn okkar, svo við skelltum okkur á Kaffi Akureyri á neðri hæðinni í fordrykk. Valið stóð milli Campari-Soda eða Mojito. Svo allir yrðu sáttir, þá stakk ég upp á Mojito, sem eftir á að hyggja voru e.t.v. mistök. Mojito-inn var borinn á borð allt of sykraður, mig grunar að of mikill sykur og jafnvel Sprite hafi flotið með í glasið. Það voru einungis 1-2 klakar á floti innan um tvær litlar lime-sneiðar, sem hafði verið stungið ofan í glasið eins og upp á punt, og manni leist ekki betur á myntuna en svo, að hún hafi komið úr kryddstauk, þurrkuð og mulin, og flaut ofan á drykknum. Við létum það ekki á okkur fá, heldur bruddum sykurinn og biðum eftir hinum gestunum.
Merkilegt að nýta saman rabarbara og epli til að hreinsa bragðlaukana
Stuttu síðar kom seinna hollið; allt í allt vorum við sjö, sem röltum upp stigann og inn í salinn. Við vissum ekki einu sinni hvað biði okkar, heldur höfðum pantað Gourmet-seðilinn hjá Friðriki, þar sem hann ræður öllu innihaldi, allt eftir því hvað er ferskast til hverju sinni. Það olli okkur því örlitlum heilabrotum með val á víni, en vínseðillinn hjá Friðriki er frekar góður miðað við það að vera ekki mjög langur. (Til hvers svo sem að lengja listann með ódýrari og vínum, sem e.t.v. henta ekki matreiðslunni?) Adda kom og bauð okkur upp á sérstakan fordrykk staðarins, óáfengan, með rabarbara og eplum. Græn matarepli voru svo snyrtilega skorin út í glasið. Hann var einstaklega hressandi og bætti mikið úr vonbrigðunum með Mojito-inn á neðri hæðinni. Merkilegt að nýta saman rabarbara og epli til að hreinsa bragðlaukana og undirbúa matarlystina, það kom virkilega vel út!
Á borðunum var vatn og klakar í skál, tapenade úr sólþurrkuðum tómötum, blönduðum ólívum, ferskum kryddjurtum og ólívuolíu, góð stálhnífapör og sterk tauþurrka. Umgjörðin var fullkomin, og það var eins og vitað hefði verið fyrirfram hvaða drykkir yrðu pantaðir, glasauppsetningunni var ekki haggað. Boðið var upp á þrjár tegundir af brauði, sem ég missti af, enda fékk ég sérstakar glútenlausar bollur úr maís. (Þá sjaldan, sem maður fær slíka þjónustu, en maður er jafnan vanur því að þurfa að sleppa ákveðnum þáttum matarins, þegar staðirnir geta ekki tekið tillit til fæðuóþols. Ég var feginn því, að við hefðum komið við fyrr um daginn til að láta vita, og um leið þakklátur fyrir það, að Friðrik hafi hugsað til mín við útfærslu réttanna, eins og síðar átti eftir að koma í ljós.)
Friðrik V. flytur á nýjan stað
Staðurinn er á afskaplega hentugum og þægilegum stað og aðgengi er gott – að staðnum. Hins vegar getur stiginn verið fólki erfiður, en í þessu húsi er held ég ekki lyfta. Fyrir tveimur árum síðan, þegar verið var að ákveða stað til að kíkja á, þurftum við að hverfa frá Friðriki V, þar sem ein úr hópnum á erfitt með stiga. Það er þó von til að úr því rætist, þegar staðurinn flytur á nýjan stað nú í sumar, í gilið á móti gamla Hótel KEA. Biðin eftir F.V hefur því verið all löng hjá manni. Ég var hins vegar mjög ánægður með að hafa loksins haft tækifæri til að líta inn. Salurinn er ekki svo stór, en tekur þó ca. rúmlega 50 manns í sæti. Ég tók snemma eftir því að mikið var að gera, það var allt fullt og ég hélt til að byrja með að skvaldur mundi trufla okkur, en það varð þó ekki. Það ætti kannski frekar að vera manni meira tilhlökkunarefni en hitt að vita af því að svo margir sækja staðinn. Það reyndist einmitt vera svo!
Fiskurinn var afar góður og paprikan fannst mér hitta beint í mark
Mike skaust fram í eldhús og fann út úr víninu, við skyldum byrja á hvítu og fara svo út í rautt. Við fengum því tvær flöskur af Suður-Afríkana, Robertson Winery – Sauvignon Blanc 2004. Það var frekar ferskt, en í þurrari kantinum. Það hentaði reyndar vel því, sem beið okkar. Stuttu síðar kom Friðrik fram og tilkynnti okkur ferðalagið, við ættum fyrir höndum heimreisu og skyldum byrja í Japan. Meðan Friðrik stóð og fór yfir réttina og útskýrði hráefnið, var borið fyrir okkur þetta dýrindis sushi. Friðrik V byggir á Slow-food hugmyndinni og reynir eftir fremsta megni að nýta það hráefni, sem er til í héraðinu, en Eyfirðingar eiga mjög svo mikið af góðu hráefni, m.a. benti Friðrik á, að Norðlenska væri með eina sláturhúsið, sem uppfyllti þá staðla og kröfur, sem gerðar eru í Ameríku, til að koma kjöti þangað á markað. Í sushi-inu var m.a. reyktur lax, saltfiskur, grilluð paprika, skötuselur, reyktur silungur og bleikja, ef ég man rétt, og svo þang með sesamfræjum, sem frá Brúnastöðum í Eyjafirði. Skemmtileg útfærsla. Sushi-ið var afskaplega gott og ferskt og skemmtileg byrjun á heimsreisunni. Fiskurinn var afar góður og paprikan fannst mér hitta beint í mark. Þetta var borið fram á litlum bakka, alls 5 bitar, svo var soya sósa, engifer og wasabi á öðrum endanum og á hinum, sakhe, sem við áttum að enda á – vel volgt og mjög bragðgott. Bitarnir voru smáir, en mjög vel útfærðir og hnýttir saman af mikilli natni. Maturinn var greinilega gerður af mikilli nákvæmni, fagmennsku og umhyggju. Þangið kom skemmtilega vel út, fiskurinn var mjög ferskur og paprikan fannst mér vera ómótstæðileg.
Saltfisksuggi: „..þarna leynist góður biti undir ugganum“
Því næst fórum við til Pórtúgal. Saltfisksuggi var borinn á borð í djúpum diski. Friðrik minntist á, að þetta væri e.t.v. ekki sá hluti þorsksins, sem við nýttum sem skyldi, en þarna leynist góður biti undir ugganum. Framsetningin var stórskemmtileg, ugginn stóð upp úr disknum eins og mastrið á skipinu, sem maraði þarna í ólívuolíu innan um ólívúr og þurrkaða íslenska tómata. Hann sagði að þau þurrkuðu þá reyndar sjálf. Þrátt fyrir kynni mín af íslenskum tómötum, almennt séð, – og það, sem ég gæti nú sagt um gæði þeirra, – þá voru þessir frekar góðir, og geta vel staðið jafnfætis þeim erlendu – alla vega þeim, sem hingað eru fluttir inn. Saltfiskurinn var svo velt upp úr ítölsku hveiti (semolino duro) og steiktur. Sumir höfðu á orði, að þetta væri besti saltfiskur, sem þau höfðu smakkað. Minn var hins vegar soðinn og hafði Friðrik haft mínar þarfir sérstaklega í huga, þegar hann hefur útbúið þennan rétt. Ég veit reyndar ekki, hvort ólívurnar hafi verið steinaðar á staðnum, en það er fátt, sem toppar þá tómata, sem saltfiskurinn hvíldi á. Þrátt fyrir að hafa ekki getað bragðað á þeim steikta, þá hugsa ég, að þessi útfærsla hafi ekki verið síðri.
Það mátti vel skilja, að þúsundbragðasúpan stæði undir nafni
Frá Portúgal flugum við yfir til Tælands í súpu. Súpa hinna þúsund bragða ilmaði á ferköntuðum disknum fyrir framan okkur, og Friðrik kom og sagði okkur betur til. Gulleit skelfiskssúpa með þeyttri kókosmjólk beið okkar. Það hljómaði eins og öllu hafi verið tjaldað til í kryddum í súpuna, engifer, karrý, kóríander, túrmerik, sítrónugras, mangó o.s.frv. o.s.frv. . . . allt sem nöfnum tjáði að nefna! Það mátti vel skilja, að þúsundbragðasúpan stæði undir nafni. Hún virkaði fyrst örlítið sterk, en hafði svona milt og kannski sætt eftirbragð. Hún var örlítið rjómakennd í fyrstu, en þá kom þessi sterki keimur en svo þetta milda eftirbragð. Sætan settist á tunguna, en sterka kryddið tók aðeins í aftari efri góminn og svo aftan í hálsinn – mann grunaði einna helst engiferið, jafnvel karrýið um þessa leikfimi, nema þarna hafi verið einhver rauður pipar? Svo var hún með ýmsu góðgæti, sérstaklega má minnast á hríseyjarkræklinginn góða, en hann er alltaf afar ljúffengur. Súpan kom skemmtilega á óvart og var einmitt góður endir á sjávarréttaferðalaginu, og undirbjó okkur vel undir kjötið, sem við áttum í vændum.
Rabarabarasorbet, var ofnotað – á Food & Fun
Þá var tími til kominn að líta á rauðvínið, sem Mike hafði valið, en þar tók hann okkur til Chile – Morandé – Vitisterra – Syrah – 2002, frá Maipo-dalnum. Það létu allir vel yfir víninu, og Ítalinn, sem sat með okkur, Pierluigi, sem við kölluðum vínsérfræðinginn á svæðinu, var afar ánægður með valið. Mike er nú svo sem enginn aukvisi þegar kemur að víninu heldur, það má alltaf treysta því, að hann velji það, sem betur bragðast . . . Á sama tíma og vínsmakkið fór fram, fengum við „munnskol“ – rabarabarasorbet í hvítvínsglasi með grænu „popprocks,“ sem var skemmtileg viðbót. Því var reyndar haldið í skefjum, en síðast þegar ég rakst á það, var það ofnotað – á Food & Fun núna síðast. Sorbetinn hreinsaði bragðlaukana og kom okkur í stellingar fyrir næsta rétt, aðalréttinn.
Þá var komið að leynigesti kvöldsins, kjötréttinum. Friðrik V býr svo vel að hafa eins og eitt stykki Roner inni í eldhúsi, og er ófeiminn við að nota hann. Það mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar. Á borðið kom þetta ilmandi nautakjöt, tenderloin, frá Hilmari á Leyningi í Eyjafirði, og Friðrik hafði vafið það inn í eyfirska hráskinku (prosciutto), pakkað í lofttæmdar umbúðir og lét liggja í Ronernum við 62°C í fjóra tíma. Þannig varð kjötið eldað í gegn, en tapaði engum eiginleikum sínum. Það var eins meyrt og það getur orðið. Salt- og skinkubragðið skilaði svo líka skemmtilegum keim í kjötið. Það var virkilega gómsætt og lék við bragðlaukana. Með þessu bar hann fram gulrætur og aspars, og svo litla skál með kartöflusoufflé með ferskum kryddjurtum og kartöflum, sem komu frá pabba hennar Öddu. Sósan var svo ekta, Barolo rauðvín soðið niður með soðinu af kjötinu og örlitlu salti, – Friðrik sagðist ekki geta gert sósuna nema með ýmist Barolo, Barbera eða Barbaresco! Ef það kallast ekki hin fullkomna sósa, þá veit ég ekki hvað, – að staður noti ekki bara næsta beljuvín, heyrir, held ég, bara til undantekninga. Menn létu vel af kartöflunum og sérstaklega sósunni. Mér þótti svo sósan og kjötið ná að mynda þarna hið fullkomna hjónaband. – Friðrik tók svo tillit til þess, að einn úr hópnum borðar ekki kjöt og kom með bleikju, ef ég man rétt, sem féll vel í kramið – og besti réttur, sem viðkomandi hafði smakkað. (Þrátt fyrir að hafa fengið örlítinn bita, þá var hugurinn annars staðar, þ.e. við kjötið.)
Ég hélt hreinlega, að það væri ekki hægt að gera betur en þetta – ég komst fljótt að því, að ég hafði rangt fyrir mér
Næst brugðum við okkur til Evrópu – Créme Broulet þekkja nú flestir, en hér notaði Friðrik íslenskt skyr í stað rjóma, stjörnuanís, mjólkursoðið fjallagras og örlítinn sykur. Svo unnið með hefðbundnum hætti, að teknu tilliti til hitastigsins upp á skyrið; sykur og svo flamberað til að fá sykurinn til að karamellast ofan á öllu saman. Það, sem gerði réttinn svo skemmtilegan, er að hann var matreiddur og framreiddur í eggjaskurn – Frábær hugmynd! Útlendingarnir voru ekki alveg með á hreinu hvað íslenskt fjallagras væri, svo þeir fengu örlítinn „mosa“ í skál til að skoða. Ég verð að viðurkenna, að hugtakið „Skyr-Broulet“ greyptist í hugann í þessari ferð, og var á allra vörum næstu daga. Ég verð að segja, að ég geti hreinlega ekki beðið eftir því að smakka aftur.
„Skyr-Broulet“ er besti eftirréttur, sem ég hef nokkurn tímann bragðað!
Því næst kíktum við til Ítalíu, nánar tiltekið til Brá á Norður-Ítalíu. Við fengum súkkulaðibúðing, sem þó virkaði eins og hann hefði verið bakaður með hveiti, en svo var þó ekki, egg, smjör, rjómi, mjólk, sykur og svo íslenskt 70% súkkulaði. (Friðrik benti svo á, að uppskriftina væri að finna á heimasíðunni, þó svo að fjöldatalan væri e.t.v. vitlaus. – Miðað við bragðið og af samanburði við uppskriftina, þá mætti segja, að þetta væri svona hæfileg uppskrift fyrir einn!) Með þessu var svo þessi fíni eyfirski mjólkurís, stunginn með súkkulaði merktu staðnum.
Í heildina litið var þetta stórkostlegt ferðalag. Allir voru vel sáttir og mettir. Eftir matinn brugðum við okkur í koníaksstofuna, þar sem okkur var boðið að bragða á brandý frá Torres, hvítvíni og hinum eyfirska „kalda,“ auk þess, sem Friðrik á gott safn af Grappa, sem hann leyfði mér að bragða á. Hluti hópsins var orðinn þreyttur eftir ferðalagið – enda höfðum við setið að í u.þ.b. fjóra tíma, en aðrir urðu eftir til að spjalla við húsráðendurnda. Friðrik og Adda gáfu sér tíma til að setjast niður með okkur og á endanum vélaði ég Friðrik til að sýna mér eldhúsið, þar sem hann treysti mér fyrir nokkrum „leyndarmálum.“ Hann fræddi okkur heilmikið um íslenska matargerð og erlenda, en hann hefur ferðast víða, m.a. um Ítalíu, þar sem hann heillaðist af Slow-food. Svo hefur hann kynnst og starfað með Ferran Adriá á Costa Brava. Friðrik og Adda eru heill hafsjór af fróðleik og afskaplega skemmtilegt og gott fólk að sækja heim. Við litum í bækur og sáum nokkur myndaalbúm af ferðalögum þeirra, þar sem þau hafa kynnt sér matarmenningu og matargerð framandi staða, en ég hugsa að maður verði að gefa sér betri tíma til að fá að kynnast því. Klukkan var líka orðin margt, við sátum og spjölluðum í um klukkutíma frá því stóðum upp frá borðum, og þegar klukkan var orðin tvö, var kominn tími til að rölta heim á leið.
Það eru fáir staðir, sem eru jafn persónulegir og jafnframt metnaðargjarnir og fjölskyldustaðurinn Friðrik V. Metnaðurinn og fagmennskan ná langt út yfir þau mörk og kröfur, sem maður gerir vanalega til íslenskra veitingastaða. Ég er afskaplega þakklátur fyrir kvöldið – og ég veit að það markar upphafið að löngu vináttusambandi við Friðrik V.
– Takk fyrir mig!
Verðinu er vægast sagt stillt í hóf
Verðinu er vægast sagt stillt í hóf – og það er hvergi held ég, þar sem verð og gæði er í svo miklu ósamræmi á Íslandi! Staðurinn er meira en þess virði að gera sér ferð norður til að upplifa kvöldstund á Friðriki V – og þá mætti alveg eins taka tillit til flugmiðans! Reykingar eru leyfðar í koníkaksstofunni/vindlaherberginu, þar sem staðurinn býður upp á gott úrval af koníaki, brandy og annarra digestíva, auk þess að vera með vindlana í sérstökum hitakassa, sem temprar rakastigið. Aðgengið er upp stiga, svo það þarf að líta til þess, en geta má, að staðurinn flytur á annan stað nú í sumar, þar sem aðgengið verður e.t.v. betra. Ég tók ekki eftir börnum á staðnum þetta kvöld, en staðurinn er jafnan aðeins opinn á kvöldin. Þótt gera megi ráð fyrir, að gestirnir séu kannski ekki hinar hefðbundnu barnafjölskyldur, sé ég ekkert því til fyrirstöðu.
Friðrik V er á Strandgötu 7 á Akureyri, s. 461 5775. Frekari upplýsingar, uppskriftir og fréttir má finna á www.fridrikv.is , en þar er einnig hægt að skrá sig á póstlista til að heyra nýjustu fréttir og vita hvað er á döfinni. Staðurinn mun svo flytjast í sumar í Grófargilið, Kaupvangsstræti 6.
Verði ykkur að mjög, mjög góðu!
Heimild; Blogg síða Hrannars
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Áætla um 100 matreiðslumenn og 50 framreiðslumenn að störfum í hátíðarkvöldverði KM
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Starfsmannavelta2 dagar síðan
Michelin veitingastaðnum Locanda Locatelli lokað eftir 23 ára starfsemi
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Við leitum að öflugum hótelstjóra á Fosshótel Vestfirði
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Allt fyrir Þorrablótin
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Fagfélögin taka í notkun nýjar Mínar síður
-
Markaðurinn12 klukkustundir síðan
Nýtt útlit á Tanqueray nr.10