Frétt
Selshreifar, blóðpönnukökur og súr hænuegg, gjörið svo vel
Spyrja má. Hvað eiga eftirtaldir sælkeraréttir sameiginlegt: Selshreifar, hrefnukjötsbollur, grásleppuhrognabollur, grafið sauðakjöt, súr hænuegg, hettumávsegg, blóðpönnukökur; og síðan í eftirrétt, ábrystir úr kindum og kúm, að eigin vali.
Svarið við spurningunni er: Þetta er sýnishorn úr hinu stórglæsilega fjöruhlaðborði sem húsfreyjurnar á Vatnsnesi í Húnaþingi, efna til árlega um Jónsmessuna í Hamarsbúð, skammt frá hinni frægu Hamarsrétt á Vatnsnesi. Þangað lögðum við hjónin leið okkar um helgina og nutum góðgerðanna og krásanna.
Þetta er í rauninni algjörlega einstæð máltíð og matseðillinn fjölbreyttur. Ekki er ofmælt sem segir í kynningu: „Fjölbreytni, glæsileiki og gæði matfanga eru löngu þekkt vítt um land. Ekkert mun skorta hvað matinn varðar fremur en endranær.“
Þetta reyndi ég á sjálfum mér og vandinn fólst eingöngu í því að sjá til þess að sem flest af þessu góðgæti kæmist fyrir maganum. Það reyndi ég að tryggja með því að vera vandfýsinn; velja fyrst og fremst mat sem ekki bæri fyrir augu og vit manns að öðru jöfnu. En jafnvel sú þrönga skilgreining dugði ekki til þess að tryggja að ég næði að innbyrða það sem hugurinn girntist. Þá er huggun gegn þeim harmi að vita, að slík veisla verður í boði að ári og má þá bæta úr og eta það sem út af stóð, ef aðstæður leyfa !
Góður félagi minn og vinur, Karl Sigurgeirsson á Hvammstanga tók meðfylgjandi myndir. Annars vegar af mér með hraukaðan disk af krásum ( úr fyrstu ferð að veisluborðinu) og hins vegar þar sem gestir gæða sér af hinu ríkulega hlaðborði.
Það er ástæða til þess að óska húsfreyjunum á Vatnsnesi og þeim öðrum sem að þessu skemmtilega framtaki standa, til hamingju. Þetta er til hreinnar fyrirmyndar. Aðsókn þeirra hundruða, sem ýmsir komu um langan veg, sannar réttmæti þessa forvitnilega og frumlega fjöruhlaðborðs. Þarna er á ferðinni næsta einstakt verk sem verðskuldar aðsókn og athygli.
© Einar Kristinn Guðfinnsson, Sjávarútvegsráðherra.
-
Veitingarýni4 dagar síðan
Dýrindis jólahlaðborð á veitingastaðnum Sunnu á Sigló – Veitingarýni
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Myndir: Krónan á Bíldshöfða opnar á ný eftir gagngerar endurbætur – Ný tæknilausn tekin í notkun
-
Markaðurinn6 klukkustundir síðan
Nýr samningur markar tímamót hjá Matvís – Samningur undirritaður við Reykjavíkurborg
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Heimalagaður hátíðarís með hvítu súkkulaði og piparkökum
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Jólamarkaður í Hafnarhúsinu í dag
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Síldarveisla á Siglufirði
-
Nýtt á matseðli1 dagur síðan
Grillaður lax að hætti Sumac
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Matvís jólaballið verður 8. desember