Smári Valtýr Sæbjörnsson
Einn besti Fiskidagurinn mikli frá upphafi – Myndir
Vegagerðin gaf út tilkynningu um að þrjá dagana um s.l. helgi hafi yfir 30.000 manns heimsótt Dalvíkurbyggð, þá er ótalinn allur sá fjöldi sem var kominn fyrir þann tíma, en þar var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur. Umferð og öll samskipti fólks gengu mjög vel, engar líkamsárásir, engin fíkniefnamál og enginn tekinn ölvaður við akstur.
Vináttukeðjan – Fjöldaknús
Föstudaginn 7. ágúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Vináttukeðjan er hlý og notaleg stund þar sem að staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Þar er tónlistarflutningur og vinátturæðuna flutti heimakonan Helga Mattína Björnsdóttir, heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, vináttufána, knúskort og í lokin var innilegt fjöldaknús til að leggja línurnar fyrir helgina og það má með sanni segja það það hafi enst út helgina.
Fiskisúpukvöldið mikla
Á föstudagskvöldinu buðu um 120 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Um 19.000 manns voru á röltinu þetta kvöld og nutu gestrisni heimamanna. Eisntaklega gott og ljúft kvöld í yndislegu veðri
Fiskidagurinn mikli
Laugardaginn 8. ágúst milli kl 11.00 og 17.00 var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur í fjórtánda sinn á hafnarsvæðinu á Dalvík og einn eitt skiptið í mildu og góðu veðri. Yfir 110.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla. Að vanda var matseðillinn fjölbreyttur. Mjög fjölbreytt dagskrá var á sviði og hátíðarsvæðinu allan daginn. Um 140 manns komu fram í frábærri og vel heppnaðri dagskrá á sviðinu. Fiskasýningin var á sínum stað þar sem að um 200 tegundir af ferskum fiski eru sýndir og gestir gátu séð einstakan og mjög sjaldgæfan fisk eða Kragaháf með eigin augum.
Fiskidagurinn mikli færir Samhjálp mat
Fiskidagurinn mikli hefur nú þegar fært Samhjálp myndarlega matarskammta eftir Fiskidaginn mikla í ár. Gestir kaffistofu Samhjálpar sem eru á bilinu 100 – 200 á hverjum degi að njóta frábæra fiskrétta úr úrvals hráefni. Landflutningar Samskip flytja matinn frítt til Reykjavíkur.
Stórkostlegt kvöld
Hátíðinni lauk síðan með Fiskidagstónleikum og flugeldasýningu af stærri gerðinni í boði Samherja. Boðið var uppá einstakan tónlistarviðburð á heimsmælikvarða. Meðal þess sem var boðið uppá var Deep Purple, Tina Turner, Billy Joel, Elton John, AC/DC, Tom Jones, U2 og margt fleira. Í farabroddi voru heimamennirnir Friðrik Ómar, Matti Matt, Eyþór Ingi. Flugeldasýning Björgunarsveitarinnar á Dalvík var stórkostleg. Lögreglan telur að aldrei hafi jafn mikill fjöldi verið saman kominn á Dalvík og erfitt að nefna einhverjar tölur í því sambandi en ljóst er að mannhafið var gríðarlegt. Fólk á öllum aldri skemmti sér saman og allt fór afar vel fram og umgengni til mikillar fyrirmyndar.
Fiskidagurinn mikli 2015 heiðrar sjómann
Frá upphafi hefur fiskidagurinn mikli heiðrað einstaklinga, starfsemi eða fyrirtæki sem hafa skipt sérstöku máli varðandi sjávarútveg á Dalvík, og jafnvel víðar.
Í ár heiðrar Fiskidagurinn mikli sjómann sem hefur munað um fyrir samfélagið á Dalvík, fyrir þá félaga sína sem hafa verið með honum til sjós, fyrir rekstur skipsins sem hann hefur lengi helgað þekkingu sína og krafta, og ekki síst fyrir þá sem þurftu að taka á með honum við einstaklega erfiðar aðstæður.
Þessi sjómaður er Halldór Gunnarsson, vélstjóri á Björgúlfi EA 312 frá Dalvík.
Halldór Gunnarsson hefur verið farsæll sjómaður og vélstjóri, lengst af á togaranum Björgúlfi. Hann hóf ungur störf til sjós og menntaði sig sem vélstjóri. Hann hefur reynst samviskusamur og traustur sjómaður og vélstjóri. Það er ekki á nokkurn hallað þó fullyrt sé að Halldór, sem vélstjóri Björgúlfs, eigi stóran þátt í því hve farsæll rekstur þessa aldna skips hefur verið á síðari árum. Ungur lenti Halldór í sjóslysi þegar Suðurlandið fórst um jólin 1986. Hann komst af ásamt fjórum öðrum félögum sínum og líklegt er að þessi mikla reynsla eigi þátt í því hve traustur, útsjónasamur og farsæll sjómaður hann hefur verið æ síðan. Af þessu tilefni fær Halldór afhent heiðursskjal og einnig verðlaunagrip sem hannaður er og smíðaður af Jóhannesi Hafsteinssyni.
Meðfylgjandi myndir eru frá Fiskideginum mikla 2015 sem að ljósmyndarinn Bjarni Eiríksson tók og eru birtar hér með góðfúslegu leyfi hans.
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Áætla um 100 matreiðslumenn og 50 framreiðslumenn að störfum í hátíðarkvöldverði KM
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun7 dagar síðan
Þessi réttir stóðu upp úr hjá Michelin eftirlitsmönnum á árinu 2024
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Frétt6 dagar síðan
Mest lesnu fréttir ársins 2024 á Veitingageirinn.is
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Starfsmannavelta1 dagur síðan
Michelin veitingastaðnum Locanda Locatelli lokað eftir 23 ára starfsemi
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Við leitum að öflugum hótelstjóra á Fosshótel Vestfirði
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Fagfélögin taka í notkun nýjar Mínar síður