Vertu memm

Viðtöl, örfréttir & frumraun

Vinningshafar Fish & Chips-verðlaunanna fá draumaferð til Íslands

Birting:

þann

Vinningshafar Fish & Chips-verðlaunanna fá draumaferð til Íslands

Í lok maí stóð Íslandsstofa, fyrir hönd markaðsverkefnins Seafood from Iceland fyrir fjögurra daga heimsókn til Íslands fyrir vinningshafa úr National Fish & Chip Awards 2025, hagaðila og valda fjölmiðla. Tilgangur ferðarinnar var að sýna gestunum mikilvægi sjávarútvegs á Íslandi og að leyfa þeim að upplifa sjómannadaginn í íslensku sjávarþorpi.

Ferðin var hluti af markaðsverkefninu Seafood from Iceland sem Íslandsstofa vinnur að í samstarfi við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og sjávarútvegsfyrirtæki um land allt.

Vinningshafar Fish & Chips-verðlaunanna fá draumaferð til Íslands

Á Siglufirði heimsótti hópurinn lykilframleiðanda á sjófrystum flökum fyrir breska markaðinn, Ísfélagið/Ramma, og fékk jafnframt skoðunarferð um eitt glæsilegasta skip landsins, frystiskipið Sólberg ÓF-1.

Vinningshafar Fish & Chips-verðlaunanna fá draumaferð til Íslands

Að loknum viðburðarríkum degi á Norðurlandi – þar á meðal bjórsmakk hjá Segli 67, heimsókn í vinnslu Samherja á Dalvík og slökun í pottum á Hauganesi – var haldið austur á land. Á leiðinni voru gerð tvö verðmæt stopp til að fylla á orkuforðann: hjá Fish & Chips við Mývatn og í Fjallakaffi á Möðrudal á Fjöllum.

Á Austurlandi hélt veislan áfram með fjölbreyttri dagskrá sjómannadagsins á Neskaupsstað. Heimamenn tóku afar vel á móti hópnum og á laugardeginum var haldið í hátíðarsiglingu þar sem veðrið lék við gesti. Siglt var út fyrir Norðfjarðarhorn og sögðu erlendu gestirnir upplifunina einstaka.

Að lokinni siglingu var komið við í Beitiskúrnum þar sem hópurinn naut ljúffengrar fiskipönnu og fylgdist með spennandi róðrarkeppni sjómannadagsins. Kvöldið endaði með myndalegum hátíðarkvöldverði sjómanna og sjómannadagsballi í boði Síldarvinnslunnar. Að auki átti hópurinn notalegar stundir á: Mjóeyri, í Randulffssjóhúsi á Eskifirði og í hreindýragarðinum í Fellabæ, áður en ferðin endaði með slökun í VÖK, glæsilegum baðstað rétt fyrir utan Egilsstaði.

Hvar sem hópurinn kom var honum tekið fagnandi, og höfðu gestirnir orð á því. Einn þeirra var Graeme William Burrell, eigandi veitingastaðarins Yarm Road Fish and Chips sem hlaut 1.sæti í flokki fish & chips veitingastaða í Bretlandi á National Fish & Chip Awards 2025. Þetta var í fyrsta sinn sem Graeme heimsótti Íslands, og hafði hann þetta að segja um ferðalagið:

„Móttökurnar hér á Íslandi hafa verið einstakar. Allir hafa verið sérlega vingjarnlegir og gestrisnir. Heimsóknirnar hafa verið afar upplýsandi og nú skiljum við miklu betur fyrir hvað íslenski fiskurinn stendur“.

Upplifun Greame á Neskaupsstað var sérlega eftirminnileg, en hann hefur verið að kaupa sjófrystan fisk frá frystitogaranum Blængi NK 125 sem er í eigu Síldarvinnslunnar. Það var einmitt á því skipi sem hópurinn fór í hátíðarsiglingu á sjómannadaginn.

Josette Foster tók einnig þátt í ferðinni. Hún rekur veitingastaðinnn Fish&Chip Weston Grove í Chester og situr í stjórn National Federation of Fish Friers, sem meðal annars stendur að baki National Fish & Chips Awards í Bretlandi.

Josette hafði þetta að segja um ferðina:

„Það verður erfitt að meta þessa ferð til fjár. Við höfum séð ótrúlega margt spennandi og dagskráin verið sérlega fjölbreytt. Ég get nefnt náttúruna, frábæran félagsskap, framúrskarandi mat og þá var gestrisni okkar íslensku gesta alveg einstök. Það er greinilega verið að vinna frábært starf í íslenskum sjávarútvegi“.

Íslenskur sjávarútvegur er sterk atvinnugrein og íslenski fiskurinn ber af í gæðum og þetta fengu gestirnir frá Bretlandi að upplifa á eigin skinni. Nú eru Graeme og Josette komin aftur heim Bretlands, þar sem þau munu segja frá sjómannadeginum á Neskaupsstað, frá íslenska fiskinum og öllu áhugaverða fólkinu sem þau kynntust á leið sinni um landið.

Með fylgja myndir frá heimsókninni.

Myndir: islandsstofa.is

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið