Markaðurinn
Vernduð afurðaheiti auka tekjur
Fjöldi evrópskra afurðaheita eru vernduð á íslenskum markaði og njóta vaxandi vinsælda neytenda, milliríkjasamningur um verndina hefur gilt í nokkur ár. Tækifæri til þess að nýta verndina á íslenskar vörur liggja í augum uppi að mati undirritaðs.
En verndin og kostir hennar fyrir íslenska hagsmuni hafa nánast enga kynningu fengið né opinbera umræðu. Í greininni og í næstu blöðum er gerð tilraun til að bæta úr og setja fram á einfaldan hátt, hvað um ræðir og hvernig megi hagnýta verndina fyrir íslenskar afurðir.
Hvers vegna verndun?
Verndin snýst fyrst og síðast um viðskipti, aukið virði afurða og gagnsæi. Var komið á innan Evrópusambandsins fyrir 30 árum til að stuðla að verndun einstakra afurða, hefða, hráefna, landfræðilegrar stöðu og líffræðilegrar fjölbreytni. Verndin skilar merktum vörum að jafnaði 15-20% hærra útsöluverði. Hjálpar neytendum við val á merktum gæða vörum og er verkfæri framleiðenda til aðgreiningar við markaðssetningu afurða sinna.
Eitt yfirlýstra markmiða verndarinnar er að dreifbýl svæði njóti áhrifa hennar með beinum fjárhagslegum hætti. Verndin er einnig talin til hugverka, sem hefur gríðarlega þyngd í baráttu gegn matvælasvindli. ESB styður sinn landbúnað með öflugum verkfærum og langtímahugsun eins dæmin sanna, upprunaverndin nýtist evrópskum hagaðilum vel.
En kerfið býðst einnig til afnota öllum þjóðum sem þess óska og nota m.a. allir nágrannar okkar kerfið til að draga fram sérstöðu og auka tekjur.
Íslensk lög um upprunavernd
Lög um vernd afurða voru staðfest 2014 og gagnkvæmur samningur við ESB er hér í gildi. Má því enginn íslenskur framleiðandi stæla eða „stela“ skráðum afurðaheitum. Af þeim sökum hafa íslensk fyrirtæki þurft að breyta nöfnum á sínum vörum til að fylgja lögunum.
Hins vegar eru ekki dæmi um notkun íslenskra framleiðenda með skráningum enn sem komið er. Það er áhugavert að skoða hvers vegna jákvæðu þættir verndunarinnar hafa ekki verið nýttir af Íslendingum. M.ö.o. íslensk fyrirtæki vinna eftir þeim hluta upprunaverndar sem getur skert þeirra tekjur og bannar notkun þekktra erlendra heita. En hafa ekki hagnýtt kerfið til að auka tekjur og virði sinna afurða, hefða og hráefna.
Undirritaður telur að það megi helst rekja til þess að verndin hefur afar takmarkað verið kynnt hér, einföld vefleit á íslensku styður þá skoðun. Textar um verndina á aðgengilegu mannamáli eru í mýflugumynd, en áhugamenn um reglugerðir og lögfræðitexta geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Þá er enn ríkt í okkur Íslendingum í öllum atvinnugreinum, og því miður of mörgum bændum að horfa á okkar matvælaframleiðslu sem framleiðslu og sölu hráefna. En ekki hampa því sem sannarlega hefur sérstöðu og getur aukið virði einstakra hrávöruflokka og afurða.
Frönsk og forn fyrirmynd upprunaverndar
Fyrirmynd evrópskrar upprunaverndar er elsta verndarkerfi heims „appellation d’origine contrôlée (AOC)“ sem sett var á fót í Frakklandi til aðgreiningar og verndunar á víni. AOC verndar í dag mörg þekktustu vín og matvörur heims, eins og Kampavín, Roquefort og Comté osta. Vernd á frönskum matvörum nær allt aftur til 1411, þegar stjórnvöld hlutuðust til um vernd Roquefort. AOC var þróað fyrir vín, og í meginatriðum eins frá lokum fyrri heimstyrjaldar til 1990.
Þá var kerfið opnað að fullu fyrir franskar matvörur og í framhaldi tekið upp af ESB. Framleiðendur í öllum heimsálfum hafa nýtt tækifæri innan evrópsku verndarinnar og yfir 5000 skráningar eru nú í kerfinu, sem hefur löngu sannað sig sem sterkasta verndin fyrir vörur með sannarlega sérstöðu.
Einföld útskýring á vernduðum afurðaheitum:
PDO (e. Protected Designation of Origin) er efsta stig verndar sem vísar til þess landsvæðis sem varan er upprunnin á og framleidd, íslenska heitið er: Uppruna tilvísun, til þessa hafa einungis íslenskt lambakjöt og íslensk lopapeysa sótt íslenska hluta verndarinnar.
PGI (e. Protected Geographical Indication) er næst efsta stig verndar, á íslensku: Landfræðileg tilvísun.
TSG (e. Traditional speciality guaranteed) er lægsta stig verndar, á íslensku: Hefðbundin sérstaða
GI (e. Geographical indication of spirit drinks) undirrituðum er ekki fullljóst hvor þessi hluti sem nær yfir brennda drykki hefur hlotið vernd hérlendis, en veit af áhuga íslenskra fyrirtækja á slíkri skráningu. A.m.k. er ekki neitt slíkt að finna á vef MAST sem annast móttöku umsókna.
Heimildir:
MAST.
ESB.
Höfundur er Hafliði Halldórsson verkefnastjóri á markaðssviði BÍ.
Grein þessi var birt í Bændablaðinu 5. janúar 2022 um upprunamerkingar.
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Ný vefbók fyrir matvælakennslu og áhugafólk um matreiðslu – Þér er boðið í útgáfupartý
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Koffmann er loksins fáanlegt á Íslandi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Matargestir ferðast aftur í tímann til villta vestursins – Myndir og vídeó
-
Vín, drykkir og keppni4 dagar síðan
Fyrsti viðburður ársins hjá Kampavínsfjelaginu – 6 rétta matseðill með kampavíns pörun
-
Keppni18 klukkustundir síðan
Ertu lærður matreiðslumaður eða matreiðslunemi og langar til að komast í ungkokkalandsliðið?
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Poke skál með kjúklingi og salatosti
-
Keppni4 dagar síðan
Graham’s Blend Series Kokteil keppni 2025
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Bóndadagurinn nálgast