Markaðurinn
Sjálfbærni og gagnsæi í forgrunni, Himbrimi gengur í B Corp samfélagið
Himbrimi Gin, sem framleitt er af Brunnur Distillery ehf., hefur hlotið hina alþjóðlegu B Corp vottun og gengur þar með til liðs við ört stækkandi hóp fyrirtækja sem leggja jafn mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og arðsemi. Með vottuninni staðfestir fyrirtækið skuldbindingu sína um að starfa á ábyrgan hátt gagnvart samfélagi og umhverfi.
Hvað er B Corp?
B Corp stendur fyrir benefit for all – ávinning fyrir alla. Hreyfingin byggir á hugmyndinni um að fyrirtæki geti verið afl til góðs og hafi skuldbindingu við alla hagsmunaaðila, ekki aðeins hluthafa. Til að öðlast vottun þurfa fyrirtæki að standast ítarlegt matsferli þar sem metin eru áhrif þeirra á fimm sviðum: stjórnarhættir, starfsfólk, samfélag, umhverfi og viðskiptavinir.
Ferlið felur í sér yfir tvö hundruð ítarlegar spurningar og strangt mat á starfsháttum og gagnsæi. Aðeins þau fyrirtæki sem ná yfir 80 stig í heildarmati hljóta vottunina. Vottunin markar ekki endapunkt heldur upphaf. Fyrirtækið skuldbindur sig til stöðugra umbóta og til að nota viðskiptalífið sem afl til jákvæðra breytinga.
Fyrir neytendur felur B Corp merkið í sér trúverðugleika og gagnsæi. Það gerir þeim kleift að taka upplýstar ákvarðanir og styðja fyrirtæki sem sýna raunverulega samfélagslega og umhverfislega ábyrgð.
Himbrimi styrkir stöðu Íslands meðal ábyrgra framleiðenda
Vottun Himbrima Gin er merkilegur áfangi fyrir íslenska framleiðslu og drykkjageirann sérstaklega, þar sem sívaxandi krafa er um sjálfbærni og gagnsæi í framleiðslu. Með því að innleiða skuldbindingu um tilgang umfram hagnað í samþykktum félagsins, undirstrikar Brunnur Distillery vilja sinn til að reka fyrirtækið á vönduðum og ábyrgum grunni.
Í dag tilheyra yfir níu þúsund fyrirtæki B Corp samfélagsinu á heimsvísu, þar á meðal 181 fyrirtæki á Norðurlöndum. Meðal þeirra eru þekkt vörumerki á borð við Ganni, 66° North, Icebug og Rudolph Care.
Gitte Rosholm, verkefnastjóri hjá B Lab Nordics, segir í yfirlýsingu að Himbrimi verði kærkomin viðbót við samfélagið.
„Þetta eru samtök fyrirtækja sem trúa því að viðskipti geti verið afl til góðs. Við vitum að Himbrimi mun verða frábær fulltrúi þessarar hugsjónar og halda áfram að efla umræðuna um ábyrgan rekstur,“
segir hún.
-
Markaðurinn2 dagar síðanÓJ&K–ÍSAM og Sjöstrand hefja öflugt samstarf
-
Keppni3 dagar síðanOpið fyrir innsendingar í ítalskri kokteilkeppni Tipsý
-
Markaðurinn2 dagar síðanFLOTIÐ snýr aftur á Múlaberg, þjónar og kokkar skipta um hlutverk
-
Starfsmannavelta4 dagar síðanÓvænt brottför á Michelin staðnum Auro, Pico’s BBQ lokar og Lulu einfaldar reksturinn
-
Markaðurinn3 dagar síðanYfirmatreiðslumaður óskast til Marinar ehf. í fullt starf
-
Markaðurinn2 dagar síðanÍslendingar pöntuðu hamborgara, franskar og helling af kokteilsósu
-
Markaðurinn1 dagur síðanGrænmetiseldhúsið með Peter De Wandel í Garra
-
Frétt1 dagur síðanMatfugl innkallar ferskan kjúkling vegna gruns um salmonellu










