Vertu memm

Viðtöl, örfréttir & frumraun

Pepsi og Coca-Cola stíga inn í „dirty soda“ ævintýrið – Tækifæri fyrir veitingageirann

Birting:

þann

National Restaurant Association

Frá National Restaurant Association sýningunni 2025. Sýningin laðar árlega að sér yfir 60.000 gesti frá 110 löndum, þar sem sýningarsvæðið spannaði um 717.931 fermetra – eða svæði á við 100 fótboltavelli – og rúmaði yfir 2.300 sýnendur.

Á nýafstöðnu einni stærstu matvæla- og veitingasýningu heims, National Restaurant Association í Chicago, kynntu drykkjarisarnir PepsiCo og Coca-Cola nýjungar sem sækja innblástur í vaxandi „dirty soda“ bylgjuna. Þetta nýja fyrirbæri á uppruna sinn í Utah í Bandaríkjunum og hefur á síðustu árum náð gríðarlegum vinsældum meðal neytenda sem sækjast eftir áfengislausum en spennandi drykkjum.

National Restaurant Association

Kokkur frá Halperns’ Seafood eldar girnilega sjávarréttapaellu fyrir gesti á National Restaurant Association sýningunni í Chicago.

Hvað er „dirty soda“?

„Dirty soda“ er blanda af hefðbundnum gosdrykkjum, rjóma eða rjómalíki og bragðbættum sýrópum eða ávaxtasafa. Hugmyndin á rætur sínar að rekja til Utah á árunum eftir 2010. Þar býr stór hluti íbúa sem aðhyllist lífsstíl sem forðast áfengi og heita koffíndrykki. Fyrsta fyrirtækið sem sérhæfði sig í þessum nýstárlegu drykkjum var Swig, stofnað af Nicole Tanner árið 2010. Swig hefur síðan þá vaxið hratt og rekur nú yfir 100 staði um öll Bandaríkin.

Vinsældir „dirty soda“ hafa einnig notið góðs af samfélagsmiðlum, einkum TikTok, þar sem notendur deila ótal útgáfum og uppskriftum af drykkjunum. Áhrifavaldar og frægir einstaklingar hafa einnig stuðlað að útbreiðslu trendins og gert það að alþjóðlegu fyrirbæri.

National Restaurant Association

Kokkur kynnir nýjustu tæknilausnir Rational iCombi Pro ofnsins á National Restaurant Association sýningunni í Chicago. Ofninn sameinar snjalla stýringu og fjölbreytta möguleika til að einfalda matreiðslu í stóru magni.

Viðbrögð stórfyrirtækja

PepsiCo og Coca-Cola hafa nú ákveðið að fylgja þessari þróun eftir. Á sýningunni í Chicago kynntu þau nýjar línur drykkja sem byggja á hugmyndafræði „dirty soda“. PepsiCo hefur kynnt til sögunnar Pepsi Wild Cherry & Cream – drykk sem sameinar kirsuberjabragð og rjómakenndan vanillukeim. Coca-Cola hefur á sama tíma verið að þróa sínar eigin nýjungar sem höfða til þessa ört vaxandi markaðar.

Gosdrykkur

Tækifæri fyrir veitingageirann

„Dirty soda“ býður upp á spennandi tækifæri fyrir veitingastaði, kaffihús og bari. Með lágan hráefniskostnað, en mikla sérstöðu og vinsældir, er þetta kjörið tækifæri til að auka veltu og bjóða upp á einstaka upplifun fyrir viðskiptavini. Á sama tíma endurspeglar þessi þróun breytingar í neysluhegðun – þar sem sífellt fleiri kjósa áfengislausa valkosti sem eru engu að síður óvenjulegir og bragðmiklir.

Með þátttöku stórfyrirtækja á borð við PepsiCo og Coca-Cola má gera ráð fyrir að „dirty soda“ verði fastur liður á drykkjaseðlum víða um heim á næstu árum. Þetta er skýr vísbending um hvernig nýjar hugmyndir og áhrifaöfl samfélagsmiðla geta fært sérhæfðar drykkjategundir á næsta stig – og gert þær að alþjóðlegri stefnu.

Fleiri myndir og vídeó frá sýningunni er hægt að skoða á facebook síðu sýningarinnar hér.

Myndir: facebook / National Restaurant Association

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss

Vínkjallarinn

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið