Vertu memm

Freisting

Nýtt kaffihús í Búðardal

Birting:

þann


Leifsbúð

Í byrjun júlí hóf nýtt kaffihús starfsemi sína í Búðardal.  Það er staðsett í fallegu og sögufrægu húsi við höfnina sem þekkt er sem gamla kaupfélagshúsið á meðal dalamanna en ber þó formlega heitið Leifsbúð.  Húsið var reist í byrjun síðustu aldar en það hefur nú verið endurbyggt af miklum myndugleika og hýsir auk kaffihúss, upplýsingamiðstöð ferðamanna og sýningu á sögu landnáms Íslands.

Boðið verður upp á matarmiklar súpur með hollu og góðu brauði, einn heitan rétt dagsins auk þess sem hægt verður að panta spennandi smárétti og ljúffengt sætabrauð.  Lagt verður áhersla á að vera með fyrsta flokks kaffi, te og kakó auk ýmissa svaladrykkja en á kvöldin verður síðan hægt að fá íslenskan bjór og léttvín.

Rekstraraðili er Örlygur Ólafsson en hann rak áður Súpubarinn í Borgartúni en starfaði nú síðast á veitingahúsinu Gló í Listhúsinu í Laugardal.

“Ég rakst af rælni á tilkynningu frá Dalabyggð þar sem fram kom að ekki hefði fengist rekstraraðili að Kaffihúsinu í Leifsbúð.  Fyrir forvitnissakir hringdi ég vestur og í kjölfarið fór ég til að skoða aðstæður.  Ef Búðardalur hefði verið nokkrum kílómetrum vestar þá hefði örugglega látið þetta kjurt liggja en þar sem aðeins er um 2 klukkustunda akstur var að ræða ákvað ég að slá til. 

Það er síðan skemmst frá því að segja að ég kolféll fyrir húsinu og því umhverfi sem það stendur í.  Ekki skemmdi heldur fyrir að allir þeir sem ég hitti í Búðardal voru einstaklega jákvæðir og skemmtilegir og því er ég nú hér fullur bjartsýni á þetta nýuppgerða og glæsilega hús og sú starfsemi sem í því er muni laða að sér bæði matgæðinga og menningarvita.  Sérstaklega bind ég vonir við að heimamenn muni nýta sér þá þjónustu sem við ætlum að bjóða upp á.  Hér verður hægt að labba inn og fá sér léttar veitingar og skola þeim niður með ljúffengum veigum. 

Við munum reyna að leggja ákveðna áherslu á matarhefð héraðsins og munum meðal annars bjóða upp á ljúffenga ostabakka með rauðvíninu á kvöldin en dalamenn eru þekktir fyrir ostagerð og má í sambandi nefna að mjólkurbú Búðardals sér um framleiðslu á öllum desert ostum sem seldir eru undir vörumerkjum MS.  Að sjálfsögðu mun ég síðan leggja sérstakan metnað í súpugerð og bjóða gestum okkar daglega upp á súpur sem unnar eru af mikilli alúð”, sagði Örlygur Ólafsson.

Kaffihúsið Leifsbúð verður opið í sumar frá 11 – 22 alla daga nema mánudag og þriðjudaga en þá verður lokað.  Áhugasamir geta fengið frekari upplýsingar í gegnum [email protected] og hjá Örlygi í síma 843 0439.

Auglýsingapláss

Myndir: Helga Ágústsdóttir | [email protected]

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið