Freisting
Kötturinn hjá Fastus reddar málunum
Sverrir Halldórsson, matreiðslumeistari og meðlimur hjá Klúbbi matreiðslumeistara kemur hér með ferðasögu frá Lyon og er þetta kafli II.
Skemmtileg saga og mælum við með góðum kaffibolla við lesturinn
Þriðjudagur.
Mætti í morgunmat og nærði mig og fór að velta fyrir mér af hverju enginn staður sem býður upp á morgunmat geymir áleggið inn í litlum ísskáp eins og þeir gera á hótelinu, áleggið alltaf ferskt, velútlítandi og rýrnun í lágmarki. Fyrir þá sem hafa áhuga þá getur kötturinn hjá Fastus reddað svona skápum. Hélt að loknu morgunverði niður á lestarstöð til að taka lestina til Genfar en þar ætlaði ég að fá mér lunch. Ferðin tók 2 tíma og var gaman að fylgjast með lestinni hlykkjast upp frönsku alpana og enda í Swiss, nánar tiltekið í Genf.
Var kominn þangað um hálf eitt og eftir að hafa tekið áttir tók ég leigubíl á veitingastaðinn sem ég hafði fyrirfram ákveðið að visitera en hann heitir Le Parc des Eaux-Vives ( www.parcdeseauxvives.ch ). 2 Michelin stjörnu staður og cheffinn heitir Olivier Samson og get ég ekki sagt annað en að ég hafi notið þess út í ystu æsar, því fyrir mig var lagt 7 rétta hádegisverður og ef menn vita hvernig er að svífa þá vita þeir hvernig mér leið með flott útsýni yfir Genfarvatn úr hálfgerðri höll og í lokin kom Olivier inn í ressann og heilsaði upp á kauða og get ég nú montað mig á því að þekkja stjörnukokka í hverri höfn eins og Siggi Hall.
Eftir málsverðinn var kíkt aðeins í miðbæinn, en þá byrjaði að snjóa og eftir 10 mínútur var alhvít jörð og skítkalt þannig að ég fór niður á lestarstöð og tók lestina til baka 16:20 og var kominn niður á hótel rétt fyrir 19:00. Hafði hugsað mér að fá mér kvöldmat á Le Bec ( www.nicolaslebec.com ) á móti hótelinu, þar sem ég hafði frétt að Nicolas Le Bec eigandi og chef hafði fengið sína 2 stjörnu, en þegar ég las matseðilinn þá sagði maginn nei það er komið nóg í dag, ( það hefur ekkert með matseðil staðarins að gera ) og endaði ég upp á hótelherbergi borðandi ávexti og sofnaði sæll og ánægður með daginn.
Miðvikudagur.
Mætti í brekkarann og hélt áfram að borða ávexti, frétti að rútan færi kl 12:00 út á sýningu. Fór aftur upp á herbergi og slakaði á til hádegis, kom niður rétt fyrir tólf rakst á Þráinn í De Code og heimtaði hann að ég færi í bíl með honum og hjónunum í Heitt og Kalt og samþykkti ég það, en hlutirnir á eftir að breytast því á endanum sátum við 7 saman út á pöbbnum út á horni að njóta stærstu brauðsneið og jafnframt bestu sem ég hef smakkað hún var þverhandarþykk og ca 21 cm í þvermál með alvöruskinku og osti framborin með káli, gulrótum og tómötum og voru allir sælir og klárir að fara út á sýningu sem og við gerðum.
Fór ég beint upp í stúku að fylgjast með, en komst að því að stúkan var flatari en síðast, þannig að ef þú vildir sjá eitthvað þurfti þú að standa upp á stólnum. Þegar allir voru búnir að skila ákvað ég að fara upp á hótel til að skipta um föt fyrir kvöldið og lendi aftur í bíl með Þránni, en nú ásamt Lárusi Loftsyni og Ib Wessman og voru skemmtilegar umræður í bílnum meðan hann liðaðist um götur Lyon og kom okkur að lokum á hótelið. Gerði mig kláran og var mættur kl. 20:30 en Galadinnerinn var haldinn í á la Cité / Centre de Congrés / Lyon og var þema kvöldsins ljósanótt ( The Night of Light), vonandi með samþykki Suðurnesjamanna, salurinn var í kjallara þannig að ekki setja þeir það fyrir sig.
Þetta var eins og Nordica stækkað 5 sinnum. Fordrykkur og pinnamatur í löngu fordyri fullt af reyk og lélegu ljósashowi. Pinnamaturinn var best líst með orðum Philippe; plastbakkamatur. Svo mörg voru þau orð.
Svo var boðið til sætis ca 1600 manns á 10 manna hringjum og i gang fór 5 rétta matseðill og er skemmst frá því að segja að það minnti mann helst á Sunnudagshádegi í múlakaffi, stórir skammtar, einfaldur matur og mismunandi diskum á sömu réttum. Tekno tónlist með laser og ljósashow og þetta kalla Frakka galadinner. Bjargvættur minn þetta kvöld var sessunautur minn Lea Linster sem vann keppnina 1989, því bæði hún og Mathias Dalgren, en hann vann sömu keppni 1997 voru í fantastuði og held ég að við höfum verið eitt af eða eina borðið þar sem hlátur dunaði og allir í fantaformi á annars litlausu kvöldi. Lea var í því að finna önnur nöfn á flesta í og við borðið og var tildæmis Guðmundur Ragnarsson uppnefndur Pútin, Þorvarður Óskarsson var CIA njósnari og svo var einn sem hún kallaði Fred Astire og þegar ég var að rita þetta komu upp í huga mínum fleyg orð Ragnars Ómarssonar Fattaru sko fattaru og reynið nú að geta.
Þegar haldið var heim á hótel kynntust menn því illþyrmilega hvernig leigubílamenning er í Lyon, löng bið og óvissa. Svo mætti Sturla Birgisson eins og riddari á hvítum hesti og reddaði okkur þremur bílum á sinn látlausa máta. Við fjórir sem lentum í fremsta bílnum urðum fljótt varir við að bílstjórinn lét Benzrokkinn vinna vel fyrir kaupinu sínu og hafði maður á tilfinningunni, rétt eitt augnablik, að sjálfur Micheal Schumacher væri við stýrið. Komust við fljótt upp á hótel og var það í fyrsta sinn í ferðinni sem ég gaf einhverjum frakka tips með glöðu geði og fór sæll í koju.
Fimmtudagur.
Svaf út og kom niður um hádegi, setti töskurnar í geymslu og tékkaði út. Skellti mér út á göngugötu inn á einn veitingastað sem við Sigurvin Gunnarsson borðum á fyrir 2 árum og hitti fyrir 3 félaga. Fengum við okkur léttan lunch og hafði standardinn ekki minkað frá því fyrir 2 árum. Haldið upp á hótel, því þaðan skyldi haldið út á flugvöll kl. 15:00 og var áætlun að fara í loftið kl. 18:00 og stóðst það og gekk flugferðin vel til Keflavíkur og lent um 9 leytið að staðartíma.
Farið í gegnum þetta hefðbundna og út í rútu. Þá segir bilstjórinn að það sé klukkutími í brottför, þar sem þeir höfðu engar upplýsingar um vélina, svo líða nokkrar mínútur þá kemur bílstjórinn tilbaka og segir okkur að það sé að fara kálfur í bæinn og skyldu við drífa okkur yfir í hann og kunnum við honum bestu þakkir fyrir þjónustulundina.
Í lokin smá hugleiðing fyrir Hip Hop kokkana í Reykjavík; ég hef farið viða undanfarin 2 ár og borðað á mjög mörgum stöðum og eitt eiga þeir sameiginlegt það er matur á disknum og ekkert annað. Í Reykjavik þarf maður yfirleitt að byrja að tína trjágreinar og annað rusl ofan af matnum til þess að geta borðað hann, ef þið þurfið að fela matinn sem þið lagið þá verðið þið að endurskoða vinnubrögð ykkar, en ekki velta vandanum yfir á kúnnan.
Fine.
/Sverrir Halldórsson
Birt á heimasíðu KM manna
[email protected]
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Slippurinn í Vestmannaeyjum tekur sitt síðasta tímabil 2025 – Gísli Matt: ástæða lokunarinnar er sú að við trúum því að allt gott taki enda
-
Frétt4 dagar síðan
Nýr miðlægur listi yfir sveina með starfsréttindi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Flottir ekta ítalskir réttir og pizzur af betri gerðinni – Fagnaðu gamlárskvöldinu með stæl á Piccolo – Myndir
-
Food & fun2 dagar síðan
Tveir íslenskir gestakokkar verða á Food and Fun hátíðinni í Stavanger
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðan
Gleðileg jól, kæru lesendur – Veitingageirinn.is þakkar fyrir sig
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 klukkustundir síðan
La Barceloneta er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlýtur ICEX viðurkenningu
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Árið 2024 var stórt ár fyrir matgæðinga á KEF