Vertu memm

Pistlar

Jólahald fyrri tíma

Birting:

þann

María mey móðir Jesú

Þar sem ég var beðinn um að segja frá jólahaldi fyrri tíma, vil ég biðja ykkur um að hverfa með mér aftur í tímann. Látum ártalið liggja milli hluta, en segjum að við heimsækjum íslenskan sveitabæ aldamótaárið 1900. Það var áður en gildi jólagjafanna fór að felast í verðmæti þeirra.

Torfbær

Bærinn má svo vera úr torfi ef þið viljið, en við skulum ganga innfyrir.

Það eru að koma jól og að sjálfsögðu er búið að þrífa bæinn hátt og lágt. Trégólfin eru skjannahvít, enda skrúbbuð uppúr sápu og sandi og moldargólfið í búrinu er vandlega sópað. Húsbóndinn er búinn að smíða forláta jólatré, mála það grænt og skreyta með lyngi og 12 kertum, eins mörgum og armarnir á trénu. Svo trjónar heimalöguð jólastjarna á toppnum. Einnig er búið að slátra lambi svona til hátíðarbrigða en þess ber að geta að slíkur munaður er ekki viðhafður um hver jól.

Jólatré

Húsbóndinn er búinn að smíða forláta jólatré, mála það grænt og skreyta með lyngi og 12 kertum…

Engin jól eru án laufabrauðs á þessu heimili og það er löngu búið að baka fulla kistu af því. Húsfreyjan er fús til að gefa okkur uppskriftina en í brauðið fer 1 kíló af hveiti, 7-8 desilítrar af mjólk, 2 teskeiðar af lyftidufti og örlítið af salti. Lyftidufti er jafnað saman við hveitið og vökvað með snarpheitri mjólkinni. Þetta er svo hnoðað þar til deigið er orðið sprungulaust, þá er það breitt þunnt út og skornir úr því kringlóttar kökur, mótaðar með diski. Kökurnar eru svo látnar standa á köldum stað, síðan skornar út á hefðbundinn hátt og steiktar í tólg. Oft var líka rúgmjöl haft í laufabrauðið til helminga við hveitið.

Einnig er til nýbakað flatbrauð, gert úr 1 kílói af rúgmjöli og 5-6 desilítrum af vatni. Þetta er hnoðað saman og skipt í parta sem eru svo hnoðaðir og á milli handanna og breittir fremur þunnt út. Þetta er svo geymt til næsta dags, þá eru lófarnir makaðir í tólg sem síðan er nuddað yfir kökurnar áður en þær eru pikkaðar með gaffli og bakaðar á glóðareldi.

Kerti

Okkur er boðið upp á brauð ásamt rjúkandi kúmenkaffi. Sem viðbit fáum við svo hangikjöt og reyktan magál sem er svo feitur að hann bráðnar upp í manni. Magállinn er líka tekinn af feitustu sauðunum. Kviðurinn er hringskorinn úr, saumað í sárið og hleypt upp á honum. Nú er hann saltaður undir og ofaná og látinn kólna undir fargi. Síðan er saumað utanum hann dula og hann hengdur upp yfir hlóðunum ásamt hangikjötinu.

Það þykir til hæfis að byrja ekki að neyta þessa lostætis fyrr en á jólunum, þegar þetta er búið að hanga uppi í svona 3 mánuði, en um hátíðarnar fylgir líka hverjum skammti mágálssneið, svona til sælgætis.

Við fáum að heyra meira um jólamatinn. Hér er höfð skata á þorláksmessu. Á aðfangadag er spaðsúpa úr nýja kjötinu, en sum árin er líka rjúpa á boðstólum. Á efiir lambinu er búðingur gerður úr hrærðum bláberjum og rjóma. Á jóladag er svo hangikjöt, en þetta fáum kanski að vita nánar um síðar, því nú er kominn tími til að þakka fyrir sig og kveðja.

Prjónavel

Prjónastofa húsfreyjunnar

Við spyrjum að lokum , hvað sé nú vinsælast til jólagjafa á þessari nýju öld. Jú, því er auðsvarað. Fyrst er að nefna mjúkar gjafir sem eiga rætur sínar að rekja til „prjónastofu“ húsfreyju. Síðan koma einstaka harðar, hannaðar í smíðastofu bónda.

Þá eru þessar aðkeyptu eins og kerti og spil. Í þá daga var nefnilaga ekki búið að finna upp plastiksamfélagið, gjöfin gladdi jafnmikið hvort sem hún var dýr eða ódýr, heimalöguð eða aðkeypt. Gefi að svo mætti vera enn í dag.

Með þökk fyrir samfylgdina.

Hef oft langað til að birta gamla pistla eftir mig hér á veitingageirinn.is og meðfylgjandi pistill var birtur í helgarblaði Þjóðviljans 16. desember 1988.

Sigurvin Gunnarsson

Sigurvin Gunnarsson

Um höfund:

Sigurvin Gunnarsson matreiðslumeistari hefur lengi haft áhuga á íslenskum matarhefðum. Það byrjaði fyrir 25 -30 árum þegar hann ásamt Hallgerði Gísladóttur sagnfræðingi og Steinunni Ingimundardóttur skólastjóra unnu frumkvöðlastarf á sviði varðveislu íslenskra matarhefða. Á þeim tíma var þjóðin hinsvegar ekki búin að taka þessar hefðir í sátt, þetta þótti “púkó”.

Fyrir um 10 árum fór íslenski maturinn og gamlar hefðir aftur að komast í tísku. Nú vill fólk kynna sér matarhefðir úr sínu héraði og byggðarlagi og er það mikið gleðiefni.

Í dag nýtur Sigurvin þess nú á efri árum að fara um landið og heimsækja hina margbreytilegu veitingastaði sem bjóða upp á þjóðlegan mat, oftast úr eigin héraði.

† 1945 - 2019 | Sigurvin Gunnarsson er matreiðslumeistari að mennt og hefur starfað við fagið til tugi ára. Í dag nýtur Sigurvin þess nú á efri árum að fara um landið og heimsækja hina margbreytilegu veitingastaði sem bjóða upp á þjóðlegan mat, oftast úr eigin héraði. Hægt er að hafa samband við Sigurvin á netfangið [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið