Viðtöl, örfréttir & frumraun
Jakob Magnússon í nærmynd
Jakob Magnússon eða Kobbi á Horninu eins og margir þekkja hann, hefur verið matreiðslumeistari til tugi ára. Kobbi er meðal annars í Sveinsprófsnefnd í matreiðslu og það eru ófáir matreiðslunemar hér á Íslandi sem hafa svitnað í sveinsprófinu þegar þeir sáu Kobba koma gangandi með möppuna sína, en það getur undirritaður staðfest. Kobbi var í sveinsprófsnefndinni þegar ég útskrifaðist, ekki það að ég hafi verið hræddur við hann, heldur var mikill metnaður í manni að fá hrós frá Kobba og ef það náðist, þá var maður á grænni grein.
Talandi um hræðslu, þá var nú aðal nema skelfirinn í Sveinsprófsnefndinni hann Þórarinn Guðlaugsson, matreiðslumeistari, en síðan hafa liðið mörg ár frá útskriftum mínum og ég hef hitt Þórarinn mörgum sinnum og enn þann dag í dag get ég ekki skilið hvers vegna það stóð svona mikil ógn af honum, því að Þórarinn er þvílíkur ljúflingur að hálfa væri nóg.
En þetta viðtal snýst ekki um mig, heldur stórmeistarann Jakob Magnússon.
Fyrsta spurningin liggur alveg ljóst fyrir að spyrja þig, hvers vegna fórstu að læra kokkinn?
Fór 15 ára sem messagutti á Hekluna sem var farþegaskip sem sigldi á ströndina einsog sagt var og á norðurlöndin á sumrin og þar fékk ég hvatninguna til að fara að læra kokkinn.
Hvar lærðir þú kokkinn?
Á Hótel Sögu.
Hvar var kokkaskólinn þá til húsa?
Ég var í fyrsta og öðrum bekk í Sjómannaskólanum þar sem kokkaskólinn var þá, en í þriðja bekk á Hótel Esju.
Hver er meistarinn þinn?
Bragi Ingason heiðursfélagi í Klúbbi Matreiðslumeistara
Á hvaða vinnustöðum hefur þú unnið á?
Hótel Sögu, og í aukavinnu í Leikhúskjallaranum, Sælkeranum, Hvolsvelli, Gourmetstaðnum Óðali, Skrínunni og síðan á Horninu frá 1979.
Eitthverjir erlendir?
Baghuset i Gothersgade, Radisson Sas Hotel Scandinavia, Restaurant Lido Vesterbrogade, Lurblæseren Ráðhústorginu, Restaurant Italiano no 1 á Strikinu.
Hvenær og hvers vegna keyptirðu Hornið?
Bjó Hornið til sjálfur og það var árið 1979 þegar ég kom heim frá Danmörku.
Margir kokkar unnið hjá þér?
Ekki margir, hef verið nokkuð heppinn með kokka og annað starfsfólk.
Áttu ekki eitthverja létta sögu um hrakfarir hjá kokkunum sem hafa unnið hjá þér?
Einu sinni var Hornið með veislu útí Skerjafirði og fór ég og Óskar kokkur með matinn í veisluna. Óskar var að bera tómatlagaða Ítalska fiskisúpu inni í húsið þegar haldið á fötunni gaf sig og öll súpan fór í götuna og rann ofaní ræsið. Við þurftum að fá lánaða garðslönguna hjá húsráðendum til að þrífa og skola restina af súpunni af gangstéttinni!
Hvenær byrjarðu í Sveinsprófsnefndinni?
Hmmm… Ætli það hafi ekki verið í kringum 1986..
Manstu eftir mér í sveinsprófinu?
Já ég man eftir þér og þú varst hress og sprækur strákur.
Var það útaf öllum mistökunum hjá mér? 🙂
Ég man ekki eftir að þú hafir gert mörg mistök.
Giftur?
Já minni kæru Valgerði Jóhannsdóttur
Mörg börn?
Ég á þrjú góð börn.
Laun?
Góð
Eldar þú heima eða konan þín?
Við bæði, og mér finnst gaman að elda heima fyrir fjölskylduna.
Hver er þinn áhrifavaldur í kokkastarfi?
Erfitt að segja, þeir eru svo margir, en þeir sem hafa mest áhrif á mig núna eru ungu kokkarnir sem mér finnst ótrúlega áhugasamir, duglegir og óhræddir við að prófa sig áfram í faginu.
Sáttur með Íslenska matargerð í dag?
Já, Íslensk matargerð hefur tekið risastökk framávið.
Á að selja Hornið og setjast í helgan stein?
Það kemur að því einn góðan veðurdag. Kannski ekki alveg strax.
Eitthvað að lokum til matreiðslunema?
Matreiðslufagið er ótrúlega flott fag, skemmtilegt, fjölbreytt og gefandi. Berið virðingu fyrir þvi og setjið sálina í pottinn.
Heimasíða Hornsins: www.hornid.is
Viðtalið tók Smári V. Sæbjörnsson, matreiðslumaður og vefstjóri Freisting.is
Mynd fengin á heimasíðu KM
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Áætla um 100 matreiðslumenn og 50 framreiðslumenn að störfum í hátíðarkvöldverði KM
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Starfsmannavelta2 dagar síðan
Michelin veitingastaðnum Locanda Locatelli lokað eftir 23 ára starfsemi
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Við leitum að öflugum hótelstjóra á Fosshótel Vestfirði
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Fagfélögin taka í notkun nýjar Mínar síður
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Allt fyrir Þorrablótin
-
Markaðurinn11 klukkustundir síðan
Nýtt útlit á Tanqueray nr.10