Greinasafn
Hvaða vín hæfir hverju tilefni?
Það er alveg einstaklega skemmtileg iðja að velja rétta vínið til þess að nota við ákveðið tilefni. Það er sérstaklega skemmtilegt að upplifa ánægju gestanna þegar valið hefur verið rétt vín með tilliti til allra aðstæðna. Sem betur fer eru til gífurlega mörg vín sem við getum valið úr hér á landi, en það er aðstaða sem við vorum ekki í fyrir um fimm árum síðan.
þessi list að finna akkúrat rétta vínið fyrir hvert og eitt tilefni er sérstaklega skemmtileg og verður að einskonar listgrein, þegar maður er búinn að smakka margar tegundir í gegnum árin. Það er margt, sem hefur áhrif á valið hverju, t.d. hvar á að drekka vínið, hvaða fólk á að drekka vínið, á hvaða tíma dags á að neyta vínsins og ef borða á mat með víninu, þá hverskonar mat verður boðið upp á.
Rétt vín getur gert góða stund, enn betri. Þessar leiðbeiningar geta einnig hjálpað til þess að kostnaður fari ekki úr böndunum. Það er engan veginn algilt að þess meiru sem eytt sé í vín, því betri verði samkoman. Mikilvægara er að finna vín, sem hentar hverju tilefni.
Algeng mistök
Einhver algengustu mistök sem við gerum, er að kaupa einhver rándýr, flott vín í sérbúð ÁTVR, Heiðrúnu. þetta á sérstaklega við um rauðvínin þar, vegna þess að dýrustu vínin eru yfirleitt dýrgripir vínkeranna sem þeir kaupa til þess að leggja á lager til geymslu í einhver ár, eða jafnvel áratugi. Ef við kaupum þessháttar vín fyrir einhverja veislu sem halda á næstu dagana á eftir, þá er nær öruggt að peningunum sé því sem næst kastað út um gluggann. þetta má ekki taka sem gagnrýni á þessi einstöku vín, heldur er meiningin sú að benda á að bestu vín sem hver og einn smakkar eru þau, sem tengjast góðum félagsskap, afslöppuðu andrúmslofti og góðri giftingu matar eða tilefnis og víns.
Þeir, sem eru byrjendur í víndrykkju hafa hreinlega ekki skilning á því hvaða gæði þeir eru með í höndunum þegar fyrir þá er borið eitthvert eðal borðvín. það er einfaldlega vegna þess að viðkomandi hafa ekki enn þroskað smekk sinn á borðvínum það lengi að þeir kunni að meta þessi vín. það er því eins og að kasta perlum fyrir svín að bera slíka drykki fram fyrir þá sem ekki hafa þroska til þess að drekka þá.
Hvernig velja skal vín með mat
Auðvitað vill maður alltaf gera vel við sína bestu vini, með boði í góðan mat og gott vín. þá er að setjast niður og hugsa um það hvert tilefnið virkilega er og hvað á að fara fram. Verður borinn fram dýrindis matur eða á bara að hittast til þess að spjalla og fá sér eilítið í glas. það hefur helling að segja um valið á víni hvort þessara áðurnefndu tilefna stendur til.
Regla númer eitt er að reyna að velja rétt saman:
gæði vínsins
tegund vínsins
bragð vínsins
upprunastað vínsins
Á móti:
þeim sem eiga að drekka vínið
Hverskonar vín líka þessu fólki best?
Hvaða vín þolir þetta fólk alls ekki?
Hvaða fordóma hefur þetta fólk gagnvart borðvínum?
Hversu mikið áfengi þolir þetta fólk?
Einnig verður að taka tillit til annara hluta, svo sem:
Hver er tilefnið
Er það hversdagsleg samverustund fjölskyldu eða vina?
Er það einhvert stórafmæli?
Hvað á að halda upp á?
Veðrið
Hverskonar veður er daginn sem drekka á vínið?
Er vetur eða sumar?
Er rigning eða þurrt úti við?
Tími dags
Á að hittast í hádeginu yfir mat?
Verður þetta fordrykkur fyrir mat?
Er þetta drykkur til þess að hafa með kvöldmatnum?
Á að nota vínið sem eftirrétt?
Er þetta vín til þess að hafa með miðnætursnakkinu?
Staðsetning
Hvar á að hittast?
Verður þetta heima hjá þér?
Verður þetta einhversstaðar úti í bæ?
Er þetta haldið utandyra?
Matur
Hverskonar mat verður boðið upp á?
Hvernig er maturinn kryddaður?
Hversu margir verða réttirnir?
Magnið:
Hversu mikið magn þola gestirnir?
þessari spuningu getur verið erfitt að svara. En enginn getur áfellst gestgjafa, sem yfir eina máltíð veitir gestum sínum samtals um eina flösku léttvíns á mann, fyrir nísku. Að sama skapi er sérstaklega glæsilegt að veita eina glæsilega kampavínsflösku eða flösku af úrvals hvítu Búrgundar víni, með léttum hádegisverði fyrir sex manns, sem felur í sér að hver og einn gestur fær eitt gott glas af gæðavíni. það tryggir líka það að enginn stendur upp frá málsverðinum drukkinn eða undir áberandi áhrifum frá víninu.
Grundvallar reglan er að bjóða uppá allt frá hálfri léttvínsflösku upp í heila á mann, yfir málsverði sem tekur nokkrar klukkustundir, veitir öllum sem þátt taka mesta ánægju.
Ef neyta á víns, án þess að borða mat á sama tíma, er fyllilega nóg að gera ráð fyrir 1/4 úr flösku á mann ef vínið á að drekka sem fordrykk á tóman maga. Ef vínið á að drekka með einhverju léttu snakki eða svokölluðu fingurfæði við einhverskonar móttöku fjölda manns verður þó að gera ráð fyrir um hálfri flösku á manninn. Ef þetta er hins vegar standandi matarveisla með allskonar smáréttum sem stendur heilt kvöld, þá er vissara að gera ráð fyrir heilli flösku á hvern gest.
Ekki má gleyma þeim sem ekki neyta víns, þegar hópur fólks er kallaður saman. þá er rétt að eiga við hendina kælt ölkelduvatn, með eða án bragðefna eins og til dæmis Perrier.
það er einnig góð og gild regla allra góðra gestgjafa að hafa ávallt á borðinu nóg vatn fyrir hvern gest, jafnvel þótt verið sé að veita yfirdrifið magn gæða vína með máltíðinni. Sú góða regla að drekka vel af vatni með matnum ásamt vínunum, dregur úr áhrifum áfengisins í borðvíninu.
Þessar ráðleggingar var hægt að finna á heimasíðu Lindar
Elvar Örn
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
Áætla um 100 matreiðslumenn og 50 framreiðslumenn að störfum í hátíðarkvöldverði KM
-
Markaðurinn7 dagar síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Er þorrablót í vændum ?
-
Starfsmannavelta5 dagar síðan
Michelin veitingastaðnum Locanda Locatelli lokað eftir 23 ára starfsemi
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Monkeys PopUp á Hótel Vesturlandi – Ekki missa af þessum viðburði
-
Markaðurinn6 dagar síðan
Við leitum að öflugum hótelstjóra á Fosshótel Vestfirði
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Nýtt útlit á Tanqueray nr.10
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Allt fyrir Þorrablótin