Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel
Hallgrímur Friðrik matreiðslumeistari og sjónvarpsmaður á N4 opnar þrjá nýja veitingastaði við Ráðhústorgið á Akureyri
Veitingageirinn náði tali af Halla þar sem hann var staddur í Þýskalandi á leið til Danmerkur í vettvangsrannsókn sinni fyrir opnun nýju veitingastaðanna.
Hvað heita staðirnir og hver er staðsetning þeirra?
Við erum búin að flytja og breyta Kung Fu. Á nýjum stað við Ráðhústorg 3 eru nokkuð breyttar áherslur þó að sushi verði áfram í fyrsta sæti ásamt öðrum skyndibita með skemmtilegum asískum áhrifum. Við nefnum því nýja staðinn Kung Fu Express í takt við stemningu staðarins þar sem þú getur gripið með þér sushi, öðruvísi samlokur, smáeftirrétti, kaffi o.fl. o.fl.
Í eldra húsnæði Kung Fu við Brekkugötu 3 ætlum við að opna alvöru steikhús sem hefur fengið nafnið T Bone – Steikhús. Þar förum við alla leið með kolagrilli og alvöru steikum í hæðsta gæðaflokki ásamt metnaðarfullum vínseðli. Okkur hefur þótt vanta gott steikhús í bæinn og var því ekkert annað að gera en opna eitt slíkt.
Þriðji staðurinn er einnig við Ráðhústorgið eins og hinir tveir en þar langar okkur að búa til alvöru ölhús – vínbar, og liggjum við eigendurnir nú undir feld með nafngiftina, en hún er alveg að detta inn. Ráðhústorg 5 er við hliðina á Kung Fu Express og horfum við því yfir miðbæjartorg Akureyrar inn um glugga T Bone – Steikhúss hinum megin þannig að ekki er loku fyrir það skotið að einhver samvinna verði í eldhúsum og starfsfólk okkar að stórum hluta að vinna á öllum þrem stöðum þó að fastir rekstarstjórar verði á þeim öllum. Á Ölhúsinu langar okkur að bjóða uppá mikið úrval af gæðaöli ásamt stóru viskísafni.
Samhliða breytingum á húsnæði er verið að vinna heimasíður okkar og munu þær detta inn bráðlega, en við finnum þetta auðvitað allt á Facebook líka.
Hverjir eru eigendurnir?
Við erum tvenn pör sem stöndum að þessu, ég, Hallgrímur Friðrik Sigurðarson, konan mín Þóra Hlynsdóttir, Ómar Valur Steindórsson og konan hans Sæbjörg Rut Guðmundsdóttir matreiðslumeistari.
Hvenær opnar?
Við opnuðum Kung Fu Express á þjóðhátíðardaginn 17. júní og ráðgerum svo 2-3 vikur á milli opnun hinna staðanna eftir það. Ljóst er að við erum 2 vikum á eftir okkar fyrstu áætlunum, en þetta verður tekið með trompi næstu vikurnar til að ná góða veðrinu í sumar.
Hvað tekur hver staður marga í sæti?
Kung Fu Express er “Taktu með” staður með sjálfsafgreiðslu að hluta en tekur um 20 gesti í sæti. T Bone – Steikhús mun taka um 50 manns í sæti á hlýlegum stað með gott útsýni yfir miðbæjartorgið og mannlífið. Ölhúsið – Vínbar mun taka um 70 manns í sæti á besta stað bæjarins þar sem Strandgata, Skipagata, Hafnarstræti og Ráðhústorg mætast og þar sem allt iðar af lífi.
Hver er yfirkokkur á hverjum stað fyrir sig?
Við erum menntaðir matreiðslumeistarar ég og Sæbjörg Rut og hefur maður hennar Ómar Valur unnið mjög lengi í bransanum og staðið sushivaktina í nokkur ár. Auk okkar þriggja erum við búin að ráða til okkar frábært lykilstarfsfólk sem mun taka mikla ábyrgð og hefur allt unnið í bransanum til fjölda ára, faglært sem ófaglært.
Opnunartími?
- Kung Fu Express opnar kl. 11.30 alla daga og er opið til kl. 21 öll kvöld.
- T Bone Steikhús opnar líka 11.30 alla daga og opið fram eftir öll kvöld, eða þangað til að allir eru orðnir saddir og sælir.
- Ölhúsið opnar seinni part dags og opið fram á nótt, eða þar til að allir hafa eitthvað fallegt og gott í glösin sín í hæfilegu magni.
Hefur þú sagt skilið við 1862 í Hofi?
Nei alls ekki, þar er ég upphafsmaður og yfirmatreiðslumeistari allt fram að alvarlegu slysi sem ég lenti í fyrir rétt rúmum tveim árum. Það er búið að vera sársaukafullt ferli að geta ekki sinnt mínu starfi þar af fjölmörgum ástæðum, en ég er enn þriðjungs hluthafi og því bráðlega tengdur rekstri fjögurra veitingastaða á Akureyri. Meðeigendur mínir hafa tekið yfir allan daglegan rekstur 1862 og kem ég því lítið við sögu þar annað en stór hluthafi.
Þessi nýju verkefni nú eru nokkurskonar afleiðing þessa slyss og aðskilnaðar við 1862 þar sem ég er að búa mér til atvinnu sem snýr meira að rekstri og framkvæmdastjórn, nýtingu á menntun minni og þeirri 20 ára reynslu sem ég bý að úr þessum skrítna bransa.
Er von á fleiri sjónvarpsþáttum frá þér?
Já, ég vona það svo sannarlega. Það var afar skemmtilegt að komast á lappir eftir hjólastólarall margra mánaða og reyna þáttagerð fyrir sjónvarp. Viðbrögð áhorfenda og áhorfsmælingar við þessum 35-40 þáttum af Mat og menningu voru alveg frábær og er ég afar stoltur af þessari frumraun minni á N4.
Við höfum verið að ræða saman um að gera aðra seríu í sumar og sýna í haust á N4. Eins og allt annað að þá er það háð fjármögnun verkefnisins, sem er í fullum gangi, og förum við vonandi af stað sem fyrst.
Nú hefur Akureyri verið kosið sem áhugaverðasti viðkomustaðurinn á Lonely planet telur þú að slík viðurkenning skipti máli?
Já svo sannarlega. Akureyringar eru afar stoltir af sínu – og mega vera það. Á Akureyri og nágrenni er allt til alls og veitingastaðaflóran ótrúlega fjölbreytt. Fjölmargir frábærir veitingastaðir sem hafa stimplað sig inn sem kennileiti bæjarins halda áfram að eflast með ferðaþjónustunni þar sem allt er á fullu þessa stundina.
Mér finnst landsbyggðin oft hreinlega gleymast þegar er verið að ræða um þjónustu við ferðamenn og áhugaverða staði. Gullfoss og Geysir er vissulega fínir viðkomustaðir en við þurfum líka að leiða gesti okkar og ferðamenn út fyrir suðvestur hluta landsins og jafna þar með álagið í greininni, auka umræðuna og upplifun gesta og ferðamanna. Ég er einmitt að renna af þýsku autobönunum inná dönsku sveitavegina til að upplifa ekta kráarstemningu eftir aðeins of margar steikarveislur í Germannska lýðveldinu.
Verið velkomin norður – sjáumst,
sagði Hallgrímur að lokum og að sjálfsögðu munum við á veitingageirinn.is kotil með að fylgjast með þessu frábæra og athafnasömu fólki og færa ykkur fréttir bæði í máli og myndum.
Myndir: aðsendar
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Iðunn Mathöll á Akureyri opnar í dag
-
Frétt3 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Frétt7 klukkustundir síðan
Atvinnurekanda skylt að greiða matreiðslumanni 1,4 milljónir króna vegna vangreiddra launa
-
Frétt2 dagar síðan
Innköllun á sviðasultu frá Kjarnafæði
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Fallegur og girnilegur jólakrans bar sigur úr býtum