Vertu memm

Neminn

Frábær árangur MK-Nema í Evrópukeppni Hótel og Ferðamálaskóla

Birting:

þann

Í dag [þrið. 14 nóv] var formleg athöfn í Menntaskólanum í Kópavogi til að heiðra keppendurna sem tóku þátt í Evrópukeppni Hótel og Ferðamálaskóla fyrir stórkostlegan árangur í keppninni sem haldin var í Killarney á Írlandi. Þess ber að geta að MK hefur fengið 9 sinnum verðlaun í þessari keppni að undanförnum 10 árum.

Nemendur úr Menntaskólanum í Kópavogi sýndu frábæran árangur í árlegri nemakeppni AEHT (Evrópusamtaka hótel og ferðamálaskóla) sem haldin var í Killarney á Írlandi dagana 7.-12. nóvember síðastliðinn og komu heim með tvenn gullverðlaun. Nemakeppnin er liðakeppni þar sem dregnir eru saman þátttakendur frá ólíkum löndum sem síðan spreyta sig á verkefnum tengdum áherslusviðum þeirra í námi.

Að þessu sinni var keppt í kökugerð, gestamóttöku, framreiðslu, barþjónustu, ferðakynningum, matreiðslu, stjórnun, herbergisþjónustu og að auki voru veitt sérstök verðlaun fyrir hreinlæti í umgengi við matvæli.

 
T.v. Margrét Friðriksdóttir skólameistari, Ragnar Th. Atlason bakaranemi, Íris Jóhannsdóttir nemi á ferðabraut MK

Íris Jóhannsdóttir, nemi á ferðabraut MK, tók þátt í keppni í ferðakynningum ásamt Danny van der Weel frá Hollandi. Verkefnið að þessu sinni var að fjalla um neikvæð og jákvæð áhrif ferðamennsku á umhverfið í Killarney og koma með tillögur til úrbóta. Farið var með nemendur í kynnisferð um nágrennið og þau fengu síðan einn dag til að undirbúa 20 mínútna kynningu sem flutt var fyrir áhorfendur og dómnefnd. Hlutu þau gullverðlaun fyrir kynninguna sína og silfurverðlaun fyrir að vera eitt af þeim sex liðum sem sýndu besta samvinnu og fagmennsku. Íris fékk einnig gullverðlaun fyrir að vera stigahæsti keppandinn frá sínu landi.

 

Ragnar Th. Atlason, bakaranemi, keppti í kökugerð ásamt James Dunn frá Írlandi. Verkefni þeirra var að útbúa fjórar tegundir af bakkelsi fyrir síðdegiste, blanda heilsudrykk (“smoothie”) í tvö glös og svara nokkrum fagtengdum spurningum. Þeir höfðu hálfan dag til að ráða ráðum sínum og ákveða hvað yrði á boðstólum og síðan 3½ klst. til að ljúka verkinu í sérstöku keppniseldhúsi. Fengu þeir gullverðlaun fyrir sitt framlag, sem meðal annars er metið með tilliti til bragðs og útlits, fagmennsku í vinnubrögðum og samvinnu keppenda.

 
Margrét Friðriksdóttir skólameistari MK fer hér með fögrum orðum um frammistöðu keppenda

Evrópusamtök hótel og ferðamálaskóla voru stofnuð árið 1988 og voru aðilar þá samtals 24 skólar í 16 Evrópulöndum. Samtökin hafa vaxið jafnt og þétt og nú eru um 320 skólar frá vel yfir 30 löndum í samtökunum. Stór ráðstefna og nemakeppni er haldin í október-nóvember ár hvert og skiptast aðildarlöndin á um að vera gestgjafar.

Frændur okkar Írar stóðu sig frábærlega í allri skipulagninu og bar þátttakendum saman um að sjaldan hefði gætt jafn mikillar fagmennsku við framkvæmd hinna ýmsu keppnisþátta og einmitt nú í ár. Ráðstefnugestir voru 650 talsins – þar af 280 nemendur frá 138 skólum í 33 þátttökulöndum.

 

 

MK hefur sent nemendur í AEHT keppnina frá því árið 1998 með einstökum árangri sem tekinn er saman í eftirfarandi töflu:

 1998  Faro, Portúgal  1. sæti fyrir eftirrétt
 1999  Diekirch, Lúxemborg   2. sæti í ferðamálakeppni
 2000  Berlín, Þýskalandi   
 2001  Linz, Austurríki   1. sæti fyrir eftirrétt
 2002  San Remo, Ítalíu   
 2003  Kaupmannahöfn  1. sæti fyrir eftirrétt
 2004  Bled, Slóveníu  1. sæti í ferðamálakeppni
     2. sæti fyrir eftirrétt
 2005  Antalya, Tyrklandi   1. sæti í ferðamálakeppni
 2006  Killarney, Írlandi   1. sæti í ferðamálakeppni
     1. sæti í kökugerðarkeppni
     

Ingólfur Sigurðsson, fagstjóri í bakstri og Ásdís Ó. Vatnsdal, enskukennari hafa lengst af séð um að þjálfa og undirbúa nemendurna fyrir AEHT keppnirnar. Þeim hefur báðum nokkrum sinnum verið boðið sæti í dómnefndum í bakstri/eftirréttagerð og ferðakynningum og var Ingólfur til að mynda yfirdómari í kökugerðarkeppninni nú í Killarney.

Ásdís á einnig sæti í sérstakri nefnd sem hefur það hlutverk að semja og viðhalda keppnisreglum AEHT og sjá um að þeim sé fylgt eftir. Helene H. Pedersen, fagstjóri ferðagreina í MK, er fulltrúi Íslands í framkvæmdaráði AEHT og situr alla fundi þess sem og aðalfund samtakanna.

Verkefni af þessu tagi eru viðamikil og kostnaðarasöm og vart gerleg nema vegna rausnarlegs stuðnings styrktaraðila. Fyrir hönd Menntaskólans í Kópavogi óskar AEHT hópurinn að koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem greiddu götu hópsins við ferðina til Írlands.

 

 

Fréttatilkynning

[email protected]

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss
Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið