Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel
Fiskbúð með íslensku sniði opnuð í Ameríku
Lykillinn að árangri hjá okkur er tvímælalaust ferskleiki og gæði og íslenskur uppruni. Við erum eiginlega að kenna fólki upp á nýtt að matreiða fisk og borða hann. Við bjóðum upp á hádegismat í búðinni. Þá eldum við einn rétt á dag, bara heimilislegan íslenskan mat, ýsu í raspi eða hjúpaða pönnusteikta ýsu með kartöflum.
Við erum með bleikjuna líka , bakaða upp úr smjöri. Fólk er alveg að missa sig yfir því hvað þetta er góður matur. Við vitum því að við erum á réttri leið,
segir Baldur Ólafsson í viðtali við kvotinn.is, en hann hefur ásamt fjölskyldu sinni opnað fiskbúð að íslenskri fyrirmynd í Ameríku sem heitir The Fish Dock. Fiskbúðin opnaði fyrir rúmri viku og er staðsett í litlum 9.000 manna bæ í Closter, 25 til 30 mínútna fjarlægð frá New York borg.
Þetta hefur bara gengið mjög vel þótt við séum ekki búin að auglýsa neitt mikið. Við erum búin að fá jafnan straum inn í búðina, meira segja hafa þó nokkrir komið fljótt aftur himinlifandi með kaupin og keypt meira. Margir aðrir eru að koma svona bara til að kíkja á hvað við bjóðum upp á. Margir hér gera sér ekki grein fyrir því hvernig alvöru fiskbúð er. Þetta er í raun dæmigerð íslensk fiskbúð.
Fiskbúðirnar eru með öðrum hætti hér. Það hefur verið mjög lítil þróun hér hjá fiskbúðunum, allar fiskbúðir lykta frekar mikið þegar stigið er inn og það er til að mynda ekki neinn marineraður fiskur til.
, sagði Baldur aðspurður um hvernig fer þetta af stað og er fólk sólgið í íslenska fiskinn.
Við byggjum söluna hjá okkur upp á hentug- fersk- og hreinleika en okkar slagorð er “Pure – Fresh – Fish”. Fishland ehf. hafa verið okkur innan handar í þessu ævintýri frá upphafi og senda okkur allan þann fisk sem við þurfum frá Íslandi. Fiskurinn kemur allur út með flugi í gegnum Icelandair cargo. Þetta gengur mjög hratt fyrir sig en við fáum fiskinn hingað 48 tímum eftir að hann er veiddur og ferskara verður fiskurinn varla. Fólkið hérna finnur vel hversu ferskur fiskurinn er, því það finnst engin fiskilykt hér og það finnst fólki einkennilegt. Í því felst stimpillinn á gæðum sem við erum að bjóða upp á hér. Ég veit að þetta á eftir að fara um eins og eldur í sinu, að hér sé komin alvöru fiskbúið í bæinn. Bærinn er lítill en tengist vel öðrum svæðum í kring og sýslan sem hann tilheyrir telur um eina milljón manna. Markaðurinn er því mjög stór.
Við leggjum áherslu á Closter og um 10 mílna radíus út frá bænum. Það hefur reyndar komið fólk sem keyrði í 30 mílur til að ná sér í ferskan og góðan fisk. Við erum ekkert sérstaklega að stíla upp á viðskipti við Íslendinga, en það er alltaf gaman að fá Íslendinga inn í búðina. Við höfum fengið nokkra inn og eru þeir allir afskaplega glaðir að fá gæðafisk frá Fróni. Hinsvegar erum við aðallega að stíla viðskiptin upp á heimamenn og kenna þeim hvað ferskur og góður fiskur er góður matur.
Neysla á fiski fer vaxandi á þessum slóðum og hér eru mjög margir sem hugsa um hollustu. Fólk hér um kring hefur það nokkuð gott og getur veitt sér að kaupa hollan mat. Sumir hafa kannski vanist því að borða bara kjúkling og nautakjöt í öll mál árum saman, en svo nú þegar því gefst kostur á því að fá ferskan úrvals fisk, þá fer það aðeins út í fiskinn sem tilbreytingu frá hinu.
Hægt að panta fulleldaðan fisk í kvöldmatinn til að taka með sér heim
Við erum með stórt eldhús á bakvið og getum því annað ansi mörgum í hádegismatnum. Það hefur svo komið í ljós að margir vilja fá fisk í kvöldmatinn. Við erum þá að benda fólki á að það geti tekið með sér fisk í maríneringu og skellt í ofninn heima hjá sér í 15 mínútur eða svo og sé þá komið með ljúffengan rétt. Fólk vill samt frekar að við eldum fiskinn. Þess vegna erum við að hugsa um að lengja afgreiðslutímann hjá okkur og hafa opið til sjö á kvöldin. Fólk gæti þá hringt inn til okkar og pantað fulleldaðan fisk í kvöldmatinn til að taka með sér heim.
Selja Klausturbleikjuna | Veitingastaðir mjög áhugasamir um bleikjuna
Bleikjan er alveg einstaklega góður fiskur og að okkar mati betri en laxinn. Holdið er fínna og þéttara og hún er í raun einstakt lostæti. Hún er eiginlega okkar einkennisfiskur. Við erum ein af örfáum, sem fá að selja Klausturbleikjuna hérna á austurströnd Bandaríkjanna, en hún er alveg einstök. Þá erum við líka að hugsa um sölu inn á veitingastaði hérna. Þeir hafa verið að fá hjá okkur prufur áður en við opnuðum búðina og einnig keypt hjá okkur en eigendur veitingastaðanna eru mjög áhugasamir um bleikjuna sem er mjög vinsæl á þessu svæði.
Við sækjum fiskinn á flugvöllinn í Newark á kælibíl og keyrum í 40 mínútur með hann að búðinni. Þar fer hann beint í kæli og í fiskborðið morguninn eftir. Þetta er í raun nýveiddur línufiskur, nema Klaustursbleikjan og laxinn sem er úr eldi. Við erum með rekjanleikavottorð, upprunavottorð og getum í raun sagt kaupandanum af hvaða bát fiskurinn er, hvar og hvenær hann var veiddur. Okkur langar til að setja upp myndir af bátunum til að geta sýnt þetta enn betur.
Við erum með allar helstu íslensku fisktegundirnar, þorsk, ýsu, blálöngu, steinbít, rauðsprettu, humar og fáum stundum lúðu. Fólk hér er vant því að borða þorsk og ýsan er að koma mjög sterk inn, enda er íslensk ýsa seld mjög víða hér. Fólki finnst alveg magnað að fá íslenska humarinn hér, því mjög erfitt er yfirleitt að fá hann. Hér er meira framboð af ameríska stóra humrinum en okkar sæti og góði humar sem gengur undir nafninu langoustine er nánast ófáanlegur nema hjá okkur, en mjög eftirsóttur.“
En hvernig lá leið Baldurs í rekstur fiskbúðar í Ameríku?
Ég hafði satt að segja litla sem enga þekkingu á rekstri fiskbúðar þegar ég byrjaði að vinna í þessum möguleika fyrir um sex mánuðum síðan. Faðir minn og konan hans ákváðu að leigja þetta rými í Closter og breyta því í fiskbúð. Hér var áður kóreskur veitingastaður, sem hafði fært sig um set í stærra húsnæði fyrir fimm árum. Þau ákváðu að fara út í þetta. Þau unnu að breytingunum öllum sjálf og ég kom inn í dæmið aðeins seinna og á fullu fyrir um þremur mánuðum. Ég er með menntun í markaðs-og alþjóðaviðskiptum og sé því um kynningarmálin auk daglegs reksturs. Reynsla okkar og þekking féll því mjög vel saman.
Ég með þennan markaðsfræðilega bakgrunn, pabbi, Ólafur Gísli Baldursson, er komin af sjómönnum og fiskverkafólki á Akranesi eins og konan hans, María Baldursson Finnbogadóttir, en auk þess er hann menntaður rafvirki og rafeindavirki. María hefur búið á svæðinu í 30 ár, verið löggiltur fasteignasali í 15 ár og þekkir því svæðið mjög vel. Einnig er hún rosalega góður kokkur og eldar hér í hádeginu. Við myndum því nokkuð gott teymi öll saman.
Mér fannst þetta mjög spennandi tækifæri og ákvað því að henda mér á fullu út í þetta og sé ekki eftir því. Ég hef gaman af því að takast á við nýjar áskoranir en ég var búinn að vera í ferðabransanum í fjögur ár og þetta er því ágætis tilbreyting. Að sama skapi er þetta jú svipað, sala og markaðssetning á ákveðinni vöru og þjónustu, en samt rosalega spennandi. Maður hefur lært alveg helling á þessum fáum dögum síðan við opnuðum og eigum við vafalaust eftir að læra mikið til viðbótar,
segir Baldur Ólafsson að lokum.
Skoðaðu umhverfið hjá The Fish Dock
Skoðaðu umhverfið hjá The Fish Dock með því að smella á myndina og draga hana til. Fiskbúðin er við hliðina á „The empty vase“ þar sem Rainbow food var áður til húsa.
Viðtal þetta birtist á heimasíðunni kvotinn.is.
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Saga barónanna lifir – Veitingahúsið Hornið heldur upp á 46 ára afmæli
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Viðskiptavinir okkar eiga skilið að hafa valkost: Segir Sigurður um ákvörðun MooGoo að vera opinn allt árið
-
Frétt4 dagar síðan
Jamie Oliver rífur þögnina um erfitt samband sitt við Marco Pierre White
-
Frétt4 dagar síðan
Launahækkun í næsta launaumslagi – Allir eiga að fá hækkun, hvort sem þeir eru á taxtalaunum eða umsömdum launum
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Fróðlegt námskeið á Tipsý með viskísérfræðingnum Toffa frá Dillon
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Ný bylgja í vínheiminum – Fyrsta áfengislausa vínverslunin opnar í hjarta vínborgarinnar Bordeaux
-
Vín, drykkir og keppni2 dagar síðan
Hvað er Heitast á BWW 2025? Sóley Björk og fremstu vínsérfræðingar heims afhjúpa leyndardóma Spænskra vína
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Kaffipressan kaupir Kaffistofuna – styrkir sérkaffimenningu á Íslandi