Viðtöl, örfréttir & frumraun
Eru munnlegir samningar með handsali einskis virði í dag?
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt K6 veitingar ehf. til að greiða fyrrverandi starfsmanni 704 þúsund krónur í vangoldin laun og orlof auk dráttarvaxta og 700 þúsund króna í málskostnað.
Málið var höfðað af starfsmanni sem gegndi starfi yfirmanns eldhúsa hjá K6 veitingum á Akureyri, en laut að ágreiningi um laun, vinnutíma og rétt til launahækkunar samkvæmt kjarasamningi.
Einar Geirsson, matreiðslumaður og eigandi K6 veitinga, sem rekur veitingastaðina RUB23, Bautann og Pizzu smiðjuna á Akureyri, segir niðurstöðuna vekja upp mikilvægar spurningar um gildi munnlegra samninga í dag.
„Við réðum matreiðslumann í lok september 2022 sem yfirmann eldhúsa hjá K6 veitingum. Þetta var nýtt starf í mótun og hugmyndin var að hann tæki þátt í því ferli með okkur. Við sömdum munnlega um föst laun og vöruúttekt á okkar stöðum fyrir hvern mánuð.
Samningurinn gilti til eins árs. Vinnutíminn var virkir dagar og veislur um helgar, en annars frjáls vinnutími þar sem tekið var frí á móti yfirvinnu,“
segir Einar.
Hann segir að eftir nokkra mánuði hafi starfsmaðurinn orðið ósáttur, meðal annars vegna meintrar uppsafnaðrar yfirvinnu og ágreinings um vinnutíma.
„Það endaði með því að honum var sagt upp störfum. Hann fékk greiddan uppsagnarfrest auk eins mánaðar án vinnuframlags. Við töldum okkur hafa staðið rétt að málum. En hann fór fram á leiðréttingu launa afturvirkt vegna 6,5% launahækkunar sem tók gildi á almennum markaði einum mánuði eftir að hann hóf störf.“
Einar segir kröfurnar hafa verið óraunhæfar.
„Samningurinn var til eins árs, ekki til eins mánaðar, og launin voru langt yfir kjarabundnum töxtum. Það er ekki venjan að sérsamningar fylgi almennum markaðshækkunum.“
Segir Einar.
„Matvís stóð með honum í málinu og að lokum vann hann það. Við erum nú að skoða hvort við áfrýjum,“
bætir Einar við og bendir á að dómurinn sýni hversu erfitt sé að treysta á munnlega samninga í dag, jafnvel þegar báðir aðilar hafa verið sammála í upphafi.
K6 veitingar hafa staðið í ströngu
Þetta er annað málið á skömmum tíma sem K6 veitingar hafa þurft að verja fyrir dómi. Nú á dögunum var fyrirtækið sýknað í máli sem Matvís höfðaði fyrir hönd matreiðslunema, þar sem deilt var um hvort greiða ætti nema laun samkvæmt taxta matreiðslusveins. Héraðsdómur sýknaði K6 veitingar í því máli og komst að þeirri niðurstöðu að laun hefðu verið greidd í samræmi við gildandi kjarasamninga.
Sjá einnig: K6 veitingar sýknað af kröfu Matvís: „Við greiddum matreiðslunema samkvæmt réttum taxta“
„Við höfum staðið í ströngu að undanförnu. Í báðum tilvikum teljum við okkur hafa sýnt sanngirni og farið að réttum leikreglum. Það er þó ljóst að dómstólar leggja æ meiri áherslu á formlegheit, skjalfesta samninga og skýra línu gagnvart kjarasamningum,“
segir Einar.
Hann segir að fyrirtækið muni áfram leggja áherslu á gagnsæi og góð samskipti við starfsfólk, en að lærdómurinn sé augljós.
„Munnlegir samningar virðast ekki lengur hafa nein lagaleg gildi, sama hversu traustur grundvöllur þeir eru taldir hafa í upphafi,“
segir hann að lokum.
-
Bocuse d´Or1 dagur síðanSnædís keppir í Bocuse d´Or í stað Hinriks
-
Keppni1 dagur síðanÍslenskir og hollenskir veitingastaðir í úrslitum á National Fish & Chip Awards 2026
-
Markaðurinn3 dagar síðanFerskt og litríkt sætkartöflusalat sem hentar við öll tilefni
-
Keppni4 dagar síðanKeppni í jólapúns í Jólaportinu: Veitingahús etja kappi til styrktar Sorgarmiðstöðinni
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðanSkandinavískt jólahlaðborð á Síldarkaffi vekur mikla athygli – Myndir
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðanSykurverk opnar smáköku- og kaffihúsa pop up í Iðunn mathöll fyrir jólin
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 klukkustundir síðanBrasa tekur á móti fyrstu gestum í Smáratorgi. Sjáðu stemninguna frá opnunarpartýinu
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðanTom Kerridge stígur til hliðar frá Pub in the Park







