Viðtöl, örfréttir & frumraun
Ein planta sem uppfyllir allar þarfir mannkyns? Myndir og vídeó
Iðnaðarhampur er afar fjölhæf planta sem hefur oft verið umdeild. Algengt er að fólk hafi illan bifur á henni vegna þess að henni er oft ruglað saman við hamp sem ræktaður í þeim tilgangi að framleiða vímuefni. Báðar þessar hampplöntur tilheyra sömu fjölskyldu en iðnaðarhampinn er ekki hægt að nota til vímuefnaframleiðslu af neinu tagi.
Iðnaðarhampur var hagnýttur um aldaraðir í ýmsum tilgangi en féll í ónáð sökum þessarar tengingar. Nú er fólk að enduruppgötva þessa fjölhæfu plöntu og fyrstu skref gefa væntingar um spennandi framhald.
Í verkefninu FutureKitchen sem leitt er af Matís með styrk frá evrópska samkeppnissjóðnum EIT Food eru notkunarmöguleikar iðnaðarhampsins skoðaðir og þeim miðlað áfram á myndbandsformi. Gömul kínversk goðsögn ku segja af því að í árdaga hafi Guðirnir gefið mannkyni eina plöntu sem uppfyllt gæti allar þeirra þarfir, þá plöntu sem nú er kölluð iðnaðarhampur.
Plantan er líka merkileg fyrir margra hluta sakir. Mögulegt er að nýta svo til alla hluta plöntunnar svo ekkert fer til spillis. Hún vex hratt, hefur góð áhrif á umhverfi sitt, er harðgerð og hægt er að nýta hana til að búa til fjölbreytta hluti á borð við plast, pappír, rafhlöður, byggingarefni, eldsneyti, snyrtivörur og fatnað.
Einnig má nýta hana í margvíslega matvælaframleiðslu þar sem hún er bæði bragðgóð og næringarrík. Stilkinn og ræturnar má nota sem hráefni í iðnaði, en fræin, blómin og laufin eru æt. Hamplauf eru rík af járni, sinki, kalíum, magnesíum og fosfór, en hampfræ eru frábær uppspretta af fjölómettaðri fitu, próteini, E-vítamíni og ýmsum nauðsynlegum steinefnum.
Mögulegt er að rækta iðnaðarhamp á Íslandi og hefur það færst töluvert í aukana á undanförnum árum. Pálmi Einarsson og Oddný Anna Björnsdóttir í Gautavík í Berufirði eru meðal þeirra bænda sem telja mætti til frumkvöðla í hamprækt og sjá mikla möguleika í ræktun plöntunnar.
Þau hafa prófað sig áfram með alls kyns framleiðslu úr flestum hlutum plöntunnar og telja að í þessu felist miklir möguleikar til aukinnar sjálfbærni hér á landi.
Í Hallormsstaðaskóla stunda nemendur nám í sjálfbærni, ýmist með áherslu á sköpun og matarfræði eða textílvinnslu. Þar hafa möguleikar hampsins verið kannaðir en nemendur hafa til dæmis galdrað fram nýstárlega rétti á borð við hamp pasta, hamp tahini (hampini) og hamp latté. Einnig hafa nemendurnir þróað alls kyns snyrtivörur, smyrsl, fataliti og efni til textílhönnunar sem unnið er frá grunni úr plötunni svo eitthvað sé nefnt.
Myndband
Myndbandið er á íslensku og má skoða hér:
Fylgist nánar með á FoodUnfolded.com eða á Matis.is
Nánari upplýsingar:
Myndbandið er hluti af verkefninu FutureKitchen sem styrkt er af EIT Food og unnið í samstarfi við FoodUnfolded. Það miðar að því að fá ungt fólk með í umræðuna um mat og tækni, vekja forvitni þess og fá það til að velta vöngum yfir matvælaheiminum og störfum innan geirans.
Verkefnið mun halda áfram út árið 2020 og á næstu dögum er stefnt að útgáfu nokkurra myndbanda í viðbót. Þar verður meðal annars fjallað um nýtingu þrívíddar matarprentarans Foodini fyrir fólk sem glímir við Dysphagia sjúkdóminn (sem gerir fólki ómögulegt að kyngja mat á föstu formi) og zero-waste sveppaprótein.
Um EIT Food
EIT Food er stórt leiðandi evrópskt þekkingar- og nýsköpunarsamfélag um matvæli, undir Evrópusambandinu, sem vinnur að því að gera hagkerfi matvæla sjálfbærara, heilnæmt og traust.
Framtakið er byggt af nýsköpunarsamfélagi með lykilaðilum iðnaðarins yfir alla Evrópu, sem samanstendur af yfir 90 samstarfsaðilum og yfir 50 sprotafyrirtækjum frá 16 aðildarríkjum ESB. Það er eitt af þekkingar- og nýsköpunarsamfélögunum (KIC) sem voru stofnuð af stofnun Evrópu fyrir nýsköpun og tækni [European Institute for Innovation & Technology] (EIT), sem er sjálfstæð stofnun ESB sett á fót 2008 til að efla nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi víðsvegar um Evrópu.
Þú getur fylgst með EIT Food í gegnum www.eitfood.eu eða í gegnum samfélagsmiðlana: Twitter, Facebook, LinkedIn, Youtube eða Instagram.
Myndir: aðsendar / Matís
-
Uppskriftir3 dagar síðan
Meðlæti með jólamatnum
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Veitingastaðurinn Brixton opnar formlega
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Opnunartími Ekrunnar yfir jól og áramót 2024
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel1 dagur síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Ekta rjómaís með hvítu súkkulaði og piparkökum – Fullkominn á veisluborðið yfir hátíðarnar
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Hátíðar opnun Hafsins
-
Markaðurinn9 klukkustundir síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa