Frétt
Breyttar reglur um takmörkun á samkomum taka gildi 14. ágúst – Fjöldatakmörk miðast áfram við 100 manns
Samkvæmt nýrri auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem tekur gildi 14. ágúst verða reglur um nálægðartakmörk í framhalds- og háskólum rýmkaðar og sömuleiðis í íþróttum. Að öðru leyti gildir áfram meginreglan um 2 metra nálægðarmörk. Við aðstæður þar sem eðli starfsemi krefst meiri nálægðar milli einstaklinga en tveggja 2 metra og í almenningssamgöngum þar sem ferð varir í 30 mínútur eða lengur skal nota andlitsgrímu. Hjúkrunarheimilum, öðrum heilbrigðisstofnunum og sambærilegum stofnunum er gert skylt að setja reglur um starfsemi sína, svo sem um heimsóknir utanaðkomandi að heimilum og stofnunum.
Fjöldatakmörk miðast áfram við 100 manns að hámarki. Eins og fram kemur í auglýsingu ráðherra er rík áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir og almennar smitvarnir með tíðum og reglubundnum þrifum þar sem fólk kemur saman.
Þær breytingar sem verða með nýrri auglýsingu um takmörkun á samkomum eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem fram koma í minnisblaði hans til ráðherra frá 11. ágúst síðastliðnum.
Nálægðartakmörkun í framhalds- og háskólum
Í framhalds- og háskólum verður heimilt að hafa 1 metra á milli einstaklinga án þess að andlitsgrímur séu notaðar. Þar skal sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti minnst einu sinni á dag og áhersla skal lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir.
Nálægðartakmörkun í íþróttum
Þrátt fyrir meginregluna um 2 metra nálægðartakmörkun verða snertingar heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu ávallt virða 2 metra regluna. Íþrótta- og ólympíusamband Íslands skal setja sérsamböndum sínum nánari reglur í samráði við sóttvarnalækni, meðal annars um einstaklingsbundnar sóttvarnir, sótthreinsun búnaðar, framkvæmd æfinga og keppna.
Andlitsgrímur
Við aðstæður þar sem skylt er að nota andlitsgrímur líkt og skilgreint er í auglýsingunni skal aðeins nota grímur sem uppfylla kröfur evrópsku staðlasamtakanna (CEN) og hefur sóttvarnalæknir jafnframt sett nánari leiðbeiningar þar að lútandi.
Börn
Börn fædd árið 2005 eða síðar eru áfram undanskilin ákvæðum 3. gr. auglýsingarinnar sem snúa að fjöldatakmörkun og 4. gr. um almenna nálægðartakmörkun.
Breytingarnar sem hér um ræðir snúa einungis að takmörkunum á samkomum vegna farsóttar innanlands, en gildandi auglýsing fellur úr gildi 14. ágúst. Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra er einnig fjallað um mögulegar breytingar á fyrirkomulagi vegna skimana á landamærum. Gildandi reglugerð hvað það varðar gildir til 15. september.
-
Vín, drykkir og keppni2 dagar síðan
Opnuðu 18 L kampavínsflösku í fyrsta sinn á Íslandi – Nýir eigendur Kampavínsfjelagsins
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Gulli bakari heiðraður sem kaupmaður ársins 2024
-
Keppni1 dagur síðan
Myndir og vídeó frá matreiðslukeppni stjórnmálaflokkana – Sjáið úrslitin hér
-
Frétt5 dagar síðan
Upplýsingar til rekstraraðila í kringum Austurvöllinn
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Beittir hnífar: Svartur föstudagur – Viku tilboð
-
Veitingarýni7 klukkustundir síðan
Dýrindis jólahlaðborð á veitingastaðnum Sunnu á Sigló – Veitingarýni
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Áramótabomba Churchill
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Svartir dagar í Progastro