Freisting
Kaffistofu Samhjálpar lokað
Kaffistofu Samhjálpar verðu lokað frá og með morgundeginum en rífa á húsið við Hverfisgötu, sem kaffistofan hefur haft til umráða undanfarinn áratug. 60-70 manns hafa reitt sig daglega á máltíðir í kaffistofunni, en þar hefur utangarðsfólk og aðrið aðstöðulausir getað fengið veitingar án endurgjalds.
Þórir Haraldsson, dagskrárstjóri Samhjálpar, segir að ekki hafi fundist nýtt húsnæði. Samhjálp gerði kauptilboð í húsnæði á svipuðum slóðum, sem hentaði starfseminni fullkomlega, en í gær var ljóst að ekkert yrði af kaupunum vegna óánægju annarra eigenda hússins.
Skjólstæðingum sem leituðu til kaffistofunnar, fjölgaði mikið milli áranna 2005 og 2006 eða um 22%. Sú þróun hefur haldið áfram í ár. Útlendingar eru stækkandi hópur sem þarfnast þjónustunnar og sömuleiðis fjölgaði konum sem þangað leitaði um 138% á umræddu tímabili.
Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu á morgun.
Saga Kaffistofu Samhjálpar
Kaffistofa Samhjálpar að Hverfisgötu 42 var opnuð árið 1982 og var fyrsta starfsemi Samhjálpar á þessum stað. Eftir að Samhjálp keypti húseignina við Hverfisgötu 44 árið 1997 var kaffistofan færð í bakhúsið. Sú ráðstöfun bætti úr brýnni þörf þar sem húsnæði kaffistofunnar var orðið allt of lítið.
Kaffistofa Samhjálpar er fyrir utangarðsfólk og aðra aðstöðulausa. Að jafnaði eru heimsóknir um 70 hvern dag sem kaffistofan er opin. Afgreiðslutími hennar er á milli kl. 10 og 16 alla virka daga. Frá 1. nóvember 2001 hefur kaffistofan einnig verið opin um helgar en áður hafði einnig verið opið á stórhátíðum. Þá er opið á milli klukkan 11 og 16. Flestir hafa komið 110 manns á kaffistofuna á einum degi. Fá þeir kaffisopa að vild og meðlæti, í viðbót við félagsskap og hlýju í kroppinn. Dagblöð og ýmis rit liggja frammi á kaffistofunni. Gera má ráð fyrir því að yfir 100.000 kaffibollar séu bornir þar fram á ári hverju.
Á hverjum eftirmiðdegi tekur einstaklinga að drífa að kaffistofunni, innan frá Hlemmi og neðan af Lækjartorgi. Þeir eru svangir og eiga von á heitri súpu að vild og smurðu brauði án endurgjalds, eða heitum málsverði ef því er að skipta. Klukkan þrjú þegar heit súpa eða matur er borinn fram, er oftast komin biðröð við afgreiðsluborðið í kaffistofunni, einföld röð sem stundum endar með því að yfir 60 manns hafa þegið heita máltíð. 20 lítrar af súpu og 100 samlokur fara á dögum þegar mest er að gera. Samkvæmt meðaltali eru bornir fram 2500 lítrar af súpu á ári og 12500 samlokur. Hver maður fær að vild sinni.
Nokkur fyrirtæki hafa orðið til þess að gefa matvöru í kaffistofu Samhjálpar reglulega og eða styrkt starfið með öðrum hætti. Hefir framlag þeirra verið til mikillar hjálpar, jafnvel skipt sköpum að hægt væri að halda úti starfseminni. Þó erfitt sé að nefna eitt fyrirtæki umfram önnur þá hafa eftirfarandi fyrirtæki verið afar virk í stuðningi við starfsemina: Aðföng, Bananar ehf., Björnsbakarí við Skúlagötu, Bónus, Danól, Hagkaup Kringlunni, H.S. kleinur, Íslensk Ameríska, Kaffi Kosý, Sölufélag Garðyrkjumanna, Ora, VR, o.fl., sjá nánar hér. Þá hafa fjölmargir einstaklingar styrkt starf kaffistofunnar með fjárframlögum. Velferðarsvið Reykjavíkur stendur undir 53% af kostnaði við rekstur kaffistofunnar og Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands hefur árlega veitt 500 þúsund til rekstursins. Þrátt fyrir mikinn velvilja, m.a. Leiguíbúða ehf., sem hafa ekki krafið okkur um leigu fyrir húsnæðið var hallinn á árinu 2005 rétt um 5 milljónir og ljóst að samtök eins og Samhjálp geta ekki borið slíkan halla til lengdar.
Bjargar mannslífum!
Síðustu árin hafa heimsóknir á kaffistofuna verið allt að 25 þúsund á ári og hefur heimsóknum fjölgað jafnt og þétt en þessar heimsóknir voru á árinu 2000 rúmlega 20 þúsund. Heldur dró úr fjölda heimsókna á milli áranna 2004 og 2005. Hins vegar fjölgaði heimsóknum lítillega á milli árann 2005 og 2006. Þó sóttu mun fleiri einstaklingar kaffistofuna á árinu 2006 og nam fjölgunin 22%. Á árinu 2005 voru 1019 einstaklingar á bakvið heimsóknirnar, 932 karlar og 87 konur. hins vegar brá svo við að á árinu 2006 voru karlar 1036 og konur 207 eða samtals 1243 einstaklingar. Það er því ljóst að starfsemin er afar mikilvæg, enda hafa margir talað um að kaffistofan hafi bjargað lífi þeirra.
Texti og frétt: Samhjálp.is | Morgunblaðið
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun5 dagar síðan
100 myndir frá hátíðarkvöldverði KM
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Spennandi tækifæri
-
Frétt2 dagar síðan
Myllan innkallar heimilisbrauð
-
Markaðurinn4 dagar síðan
World Class barþjónakeppnin – Skráning 2025
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Bóndadagsgjöf ástríðukokksins
-
Pistlar23 klukkustundir síðan
Gæðakerfi: Lykillinn að skilvirkum rekstri, minni sóun og ánægðari viðskiptavinir
-
Frétt23 klukkustundir síðan
Menntun í matvælaiðnaði ekki metin til launa í leikskólum – Kallað eftir endurskoðun
-
Vín, drykkir og keppni2 dagar síðan
Útlit hins sígilda íslenska Brennivíns hefur verið uppfært – Ákveðin framþróun í bragði Brennivínsins m.a. með tærari kúmenkeim en áður var