Vertu memm

Freisting

Fiskmarkaðurinn annar af tveimur beztu veitingastöðum landsins

Birting:

þann

Hrefna Rósa Jóhannsdóttir Sætran, yfirmatreiðslumaður Fiskmarkaðsins

Jónas Kristjánsson ættu margir í veitingageiranum að kannast við, en hann hefur nú ekki sparað stóru orðin þegar kemur að hans áliti á veitingastöðum bæjarins.  Að þessu sinni er það Fiskimarkaðurinn sem fer í úrbeiningu hjá kallinum, en hann er greinilega ánægður með Hrefnu Rósu J. Sætran yfirmatreiðslumann og eiganda Fiskmarkaðarins og hennar keppnislið.

Jónas talar um að Fiskmarkaðurinn sé annar af tveimur beztu veitingastöðum landsins, en grennslast var fyrir um hver væri besti veitingastaður að hans mati, þá er það Holtið sem heldur titlinum bezti veitingastaðurinn.

Eftirfarandi er álit Jónasar á Fiskmarkaðnum:

Japanskt ævintýri
Fiskmarkaðurinn er japanskt matarævintýri Ísafoldarhússins við Aðalstræti. Hann er annar af tveimur beztu veitingastöðum landsins, öðruvísi en aðrir öndvegisstaðir. Innréttingar eru þrauthannaðar með speglaverki í japönskum skógarstíl með þungum tréborðum á trégólfi. Þarna prófaði ég 3.900 króna smakk-matseðil í hádeginu og var í hálfan annan tíma að komast gegnum hann. Smakkseðillinn kostar 6.900 krónur á kvöldin. Tvírétta af matseðli í hádegi kostar 3.350 krónur að meðaltali og þríréttað að kvöldi kostar 8.000 krónur að meðaltali. Fiskmarkaðurinn er kjörinn miðbæjarstaður til hádegisverðar.

Röð af réttum
Á Fiskmarkaðinum í Aðalstræti byrjaði hádegisveizlan með krónhirti og okra á stökku rækjubrauði austrænu. Síðan kom rauður linkrabbi, djúpsteiktur í tempura, og smokkfiskur í jalapeno-piparsósu. Þriðji réttur var furðulega fagurt klettasalat með mangó og klementínum. Næst kom hrár fiskur, maki-rúlla með laxahrognum, smálúða sashimi, svo og barri og smokkfiskur á sushi. Í aðalrétt fékk ég viðargrillaðan lax í koparlaufi með risotto-pylsu, sveppum og jarðarberjum. Seinni aðalrétturinn fólst í tvenns konar skötusel. Að lokum birtist brenndur búðingur og súkkulaðiís. Ég stundi.

Menningarmiðstöðin
Helzti kostur Fiskmarkaðarins er, að maturinn er ekki nýklassískt franskur. Allir toppstaðir og flestir miðjustaðir landsins eru nýklassískt franskir. Hótelskólinn kennir slíka matreiðslu og allur þorri kokka vill elda upp á þau býti. Hér er ruðst út úr boxinu, horft til þess lands, sem gengur næst Frakklandi í heiminum að matargerðarlist. Japan er hér á landi einkum þekkt fyrir sushi, sashimi og maki, hráan fisk á ýmsa vísu. Að baki er aldagömul og þróuð matargerðarlist, sem alltaf hefur lagt ofuráherzlu á gæði umfram magn. Þessi fulltrúi hennar er núna ein mesta menningarmiðstöð landsins.

Auglýsingapláss

Segðu þitt álit

Greint frá á Jonas.is

Mynd: fiskmarkadurinn.is | [email protected]

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið