Vertu memm

Uppskriftir

Hvað er Þorrablót?

Birting:

þann

Þorraseðillinn - Matur og Drykkur 1 árs - Veitingarrýni

Aðferðirnar á þorramat eru bæði hefðbundnar og nýstárlegar.
Mynd: Björn Ágúst Hansson

Á Íslandi er siður að halda þorrablót í febrúar. Þorrablót er veisla, þar sem Íslendingar borða hefðbundinn íslenskan mat, drekka brennivín, syngja íslensk lög, kveða vísur og dansa gömlu dansana. Fyrstu þorrablótin voru haldin í kaupstöðum á Íslandi á nítjándu öld. Það var fólk, sem hafði flutt úr sveitunum í kaupstaðina á Íslandi, sem hélt þau. Líklega vildi fólkið fá að bragða matinn, sem það borðaði heima í sveitinni og hitta ættingjanna úr sveitinni. Þorrablótin voru síðan haldin af átthagafélögum, sem vildu minnast heimabyggðarinnar og sveitunganna. Íslendingar erlendis nota þorrablótin til að halda upp á íslenska menningu og borða íslenskan mat.

Þegar Ísland var dönsk nýlenda, var Íslendingum bannað að nota salt. (Annars hefðu þeir getað saltað fisk og selt til annarra landa. Þá hefðu þeir getað grætt eigin peninga og orðið sjálfstæðir.) En Íslendingar notuðu aðrar aðferðir við að geyma mat. Maturinn var reyktur, þurrkaður, súrsaður eða kæstur. Flestir þorramatsréttir eru gerðir með þessum aðferðum.

Áður voru engir skorsteinar á eldhúsunum á Íslandi. Maturinn var eldaður á hlóðum. Reykurinn fyllti eldhúsið og fór út um gat á þakinu en var ekki leiddur upp gegnum stromp. Eldhúsið var fullt af reyk. Margar konur urðu blindar um miðjan aldur
af reyknum. Lambakjöt, bjúgu, rauðmagar og annar matur var hengdur upp í þaksperrurnar og reyktur þar. Hangikjöt er enn talið besti veislumatur á Íslandi. Nú á tímum framleiða Íslendingar reyktan lax í reykhúsum til útflutnings.

Þorraseðillinn - Matur og Drykkur 1 árs - Veitingarrýni

Nýstárlegur harðfiskur með brenndu smjöri og söl.
Mynd: Björn Ágúst Hansson

Harðfiskur er þurrkuð fiskflök
af þorski, ýsu eða steinbít. Harðfiskurinn er rifinn og borðaður þurr, án þess að vera matreiddur á nokkurn hátt. Oft er borðað smjör með honum eins og með brauði. Unga fólkið á Íslandi borðar líka harðfisk. Hann er seldur í sjoppum og kvikmyndahúsum í plastpokum eins og poppkorn eða sælgæti. Hann er vinsæll þorramatur. Hann er léttur og næringarríkur og er oft notaður sem nesti í ferðalögum á sumrin.

Súrmeti
Súrmeti var búið til á þann hátt, að matur var geymdur í tunnu með mjólkursýru. Á þorrablótum eru borðaðir súrir hrútspungar, lundabaggar, blóðmör, lifrarpylsa og annað súrt. Súrhvalur er sérstaklega góður. Það er súrsað hvalspik. Súrmetið var áður geymt í tunnu á bæjunum og borðað í öll mál. Margir íslendingar borða ennþá hafragraut með súru slátri (blóðmör eða lifrarpylsu) á hverjum morgni.

Hákarl
Hákarl er venjulega óætur. En ef hann er grafinn niður í fjörusand í nokkra mánuði yfir veturinn, rotnar hann á sérstakan hátt og fær sterkt bragð, sem minnir á sterkan ost. Það er kallað kæstur eða verkaður hákarl. Íslendingum finnst hákarl góður með brennivíni. Sumir hafa reynt að selja hákarl í Evrópu og kalla hann fiskost (fromage de poisson). Skata er líka kæst. Á Vestfjörðum var siður að borða kæsta skötu á Þorláksmessu (23. desember).

Það er mjög sterk lykt af kæstri skötu og hákarli. Íslenskir stúdentar erlendis hengja stundum plastpoka út um gluggana sína. Í þeim er þorramaturinn og jólamaturinn. Það er ekki hægt að hafa hann innanhúss eða í kæliskápum í húsum, þar sem annað fólk en Íslendingar býr.

Íslendingar borðuðu áður næstum því allt af sauðkindinni. Vélindu voru fyllt með kjöti og soðin og borðuð í sláturtíðinni eða súrsuð og barkinn var líka borðaður soðinn eða súrsaður. Íslendingum finnast svið góð.

Mýrin Mathús - BSÍ í Vatnsmýrinni - Sviðakjammar - Svið

Sviðakjammar eru alltaf vinsælir
Mynd: facebook / Mýrin Mathús

Svið
Svið eru lambahöfuð, sem eru sviðin yfir eldi eða með logsuðutæki til þess að brenna burt ullina, og síðan soðin með salti. Mörgum finnast augun best, en mestur matur er í kjömmunum og tungunni. Í tungunni er lítið bein, sem heitir málbein. Ef ómálga barn er á heimilinu á að brjóta það í þrjá hluta. Annars verður barnið mállaust.

Meðlæti
Með þorramatnum er borin fram rófustappa, kartöflujafningur og flatrúgbrauð með smjöri. Það er ekkert grænmeti borið fram með þorramat, það er ekki íslenskur matur. Íslendingafélagið í Amsterdam hélt einu sinni þorrablót og fékk hollenskan kokk til að framreiða matinn. Hann setti fram grænmeti með þorramatnum, og Íslendingunum þótti það hneyksli. Eina grænmetið ða þorrablótum er grænar baunir.

Þorrablótinn
Á þorrablótum eru haldnar ræður og færð fram skemmtiatriði og leikþættir. Það er sungið mikið af íslenskum þjóðlögum. Margir kunna lögin utanbókar, en það eru líka oft lagðar fram söngbækur á borðin.
Þorri er kaldasti mánuður ársins. Eftir þorrann var oft maturinn búinn og líka heyið handa dýrunum. Síðan gat komið hungursneyð. Mörgum finnst það ef til vill skrýtið, að Íslendingarnir átu allan besta matinn á þorrablótinu og sultu síðan. En þetta getur verið dæmigert íslenskt viðbragð; að éta sig vel saddan áður en hungrið kom. Með því gat maður storkað örlögunum.

Á eftir dansa Íslendingarnir gömlu dansana með harmoníkuundirleik. Það er drukkinn bjór með matnum og brennivín. Þorrablótið stendur oft alla nóttina.

Á Íslandi eru stundum notuð gömul nöfn á mánuðum: 

  • Gormánuður hefst á laugardag tuttugasta og fyrsta til tuttugasta og sjöunda október
  • Ýlir hefst á mánudag tuttugasta til tuttugasta og sjötta nóvember
  • Mörsugur (hrútmánuður) hefst á miðvikudag tuttugasta til tuttugasta og sjötta desember
  • Þorri hefst á föstudegi í þrettándu viku vetrar, nítjánda til  tuttugasta og fimmta janúar
  • Góa hefst á sunnudegi í átjándu viku vetrar, átjánda til tuttugasta og fjórða febrúar
  • Einmánuður hefst á þriðjudag í tuttugustu og annarri viku vetrar tuttugasta til tuttugasta og sjötta mars
  • Harpa er fyrsti mánuður sumars, hefst fyrsta fimmtudag  eftir átjánda apríl sumardaginn fyrsta
  • Skerpla hefst laugardag í fimmtu viku sumars, nítjánda til tuttugasta og fimmta maí
  • Sólmánuður hefst næsta mánudag eftir sautjánda júní
  • Heyannir (hundadagar) hefjast á sunnudag tuttugasta og þriðja til tuttugasta og níunda júlí
  • Tvímánuður hefst á þriðjudag tuttugasta og annan til tuttugasta og áttunda ágúst
  • Haustmánuður (garðlagsmánuður) hefst á fimmtudag eftir tuttugasta september

Uppskriftirnar á veitingageirinn.is eru frá fagmönnum og áhugafólki á matargerð sem skilar fjölbreyttar og bragðgóðar uppskriftir til þín. Ef þú lumar á uppskrift sem þú vilt birta á veitingageirinn.is sendu okkur þá uppskriftina ásamt nafni á [email protected]

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið