Kristinn Frímann Jakobsson
Myndir frá Fiskideginum mikla – Vel heppnuð hátíð.
Talið er að um 26.000 manns hafi sótt Dalvíkurbyggð heim um helgina í mildu og góðu veðri að venju en þar var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur. Það er mál manna að þetta hafi verið einn sá allra besti Fiskidagurinn mikli frá upphafi. Umferð og öll samskipti fólks gengu mjög vel.
Vináttukeðjan
Föstudaginn 9. ágústúst var dagskrá í kirkjubrekkunni sem er nokkurskonar setningarathöfn fyrir Fiskidaginn mikla. Vináttukeðjan er hlý og notaleg stund þar sem að staldrað er við og hugað að vináttunni og náungakærleikanum. Tónlistarflutningur og vinátturæðuna flutti Séra Agnes M Sigurðardóttir, heimamenn færðu gestum fléttuð vináttuarmbönd, friðadúfublöðrum dreift og var mikið og innilegt fjöldaknús til að leggja línurnar fyrir helgina..
Fiskisúpukvöldið mikla
Á föstudagskvöldinu buðu um 130 fjölskyldur í Dalvíkurbyggð uppá fiskisúpu og vinalegheit. Hver sá sem bauð uppá súpu var með sína uppskrift. Um 19.000 manns voru á röltinu þetta kvöld og nutu gestrisni heimamanna. Fjöldinn var þægilegur og gott að ganga um og stemmningin var einstök og ljúf í veðurblíðunni.
– Ljúft súpukvöld þar sem að um 19.000 manns röltu um bæinn.
– Ógleymanleg kvöldstund í boði Samherja.
– Björgunarsvetin Dalvík heiðruð.
– Samhjálp styrkt eftir Fiskidaginn mikla.
– Kristjánsbúrið vígt.
16 x 120 tommu pítsur bakaðar
Laugardaginn 10. ágúst milli kl 11.00 og 17.00 var Fiskidagurinn mikli haldinn hátíðlegur í þrettánda sinn á hafnarsvæðinu á Dalvík og enn eitt skiptið í mildu og góðu veðri. Um eða yfir 100.000 matarskammtar runnu ljúflega ofan í gesti Fiskidagsins mikla. Í boði var fjölbreyttur matseðill m.a gráðostarækjusalat, bleikja í ananaskarrýsósu, þorskur í sinnepshvítlaukssósu, fiskborgarar ,síld og rúgbrauð, sasimi bleikja, sasimi hrefna, austurlensk súpa, bakaður þorskur í humarsoði, plokkfiskur ,humarsoðsúpa , harðfiskur, saltfiskpítsur, brauð, drykkir, íspinnar, kaffi og súkkulaði. Þess má geta að met var slegið þegar náðist að baka 16 stk 120 tommu saltfiskpitsur. Skipulag á matarstöðvunum gekk mjög vel og nóg var til. Mjög fjölbreytt dagskrá var á sviði og hátíðarsvæðinu allan daginn. Um 130 manns komu fram í frábærri og vel heppnaðri dagskrá á sviðinu. Á hátíðarsvæðinu bar margt á góma, fornbílasýning, kajakasiglingar, skemmtisiglingar, bátar til sýnis, andlitsmálun, fiskifléttur, teikniverkefni fyrir börnin, myndasýningar, þjóðdansar, söng og leikhópar sungu og léku og fleira. Fiskasýningin var á sínum stað þar sem að um 200 tegundir af ferskum fiski eru sýndir.
Kristjánsbúrið vígt
Á Fiskidaginn mikla var Kristjánsbúrið vígt og afhent Valeska ehf. á Dalvík. Búrið er fyrsta vottaða löndunarbúrið og er til notkunar við löndun fiskafla. „Búrið“ er grind sem hangir í kranavír. Í grindina eru sett fiskikör og þau þannig hífð upp úr fiskilestinni. Öryggisgrind er utan um fiskikörin til þess að koma í veg fyrir að þau getið losnað og fallið niður við löndun. Valeska ehf. sér m.a. um löndun úr skipum Samherja í Eyjafirði. Kristjánsbúrið er nefnt í höfuðið á Dalvíkingnum Kristjáni Guðmundssyni. Hann slasaðist mjög alvarlega þegar hann varð undir þungum fiskikörum við löndun á Dalvík fyrir tveimur árum. Kristján hefur náð ótrúlegum bata. Vélsmiðjan Hamar ehf. hefur í samvinnu við Valeska og Samherja þróað og smíðað búrið og hefur sótt um einkaleyfi á hugmyndinni. Um helgina gengu Hamar og Promens Dalvík frá samningi um að síðarnefndi aðilinn myndi sjá um sölumál um allan heim.
Fiskidagurinn mikli færir Samhjálp mat
Fiskidagurinn mikli hefur nú þegar fært Samhjálp myndarlega matarskammta eftir Fiskidaginn mikla í ár. Gestir kaffistofu Samhjálpar sem eru á bilinu 100 – 200 á hverjum degi að njóta frábæra fiskrétta úr úrvals hráefni. Landflutningar Samskip flytja matinn frítt til Reykjavíkur.
Ógleymanleg kvöldstund sem fer í sögubækurnar
Hátíðinni lauk síðan með kvölddagskrá í boði Samherja í tilefni af 30 ára afmæli þeirra. Boðið var uppá Freddi Mercury Showið með heimamennina Friðrik Ómar, Matta Matt og Eyþór Inga í fararbroddi og stórglæsilega flugeldasýningu í umsjón Björgunarsveitarinnar á Dalvík. Talið er að að hið minnsta hafi 25.000 manns verið á tónleikunum og aldrei í sögu Dalvíkur hafa jafnmargir verið samankomnir á einum og sama staðnum. Þetta var einstaklega flott dagskrá og ánægjan gestanna mikil. Fólk á öllum aldri skemmti sér saman og allt fór afar vel fram og umgengni til mikillar fyrirmyndar.
Úr fréttatilkynningu Vegagerðarinnar – Margir á Fiskideginum mikla
“Vegagerðin reiknar með að um 26 þúsund manns hafi sótt Dalvík heim á Fiskidaginn mikla sem er sami fjöldi og í fyrra. Flestir komu árin 2009 og 2010.
Þrátt fyrir verri veðurspá nú í ár, áætlar Vegagerðin að sami fjöldi einstaklinga hafi sótt Dalvíkinga heim á Fiskidaginn mikla um nýliðna helgi borið saman við sömu helgi árið 2012. Alls fóru tæplega 15 þúsund bifreiðar um teljara á Hámundastaðahálsi (sunnan við Dalvík) og rúmlega 5 þúsund bifreiðar um veðurstöð í Múla (norðan við Dalvík) í báðar áttir þessa daga.
Sé þessum bílafjölda umbreytt í fjölda persóna í aðra áttina þá fæst sami fjöldi einstaklinga og í fyrra, í þúsundum talið, eða um 26 þúsund manns.
Frá því að talningar Vegagerðarinnar hófust á Hámundastaðahálsi er áætlað að flestar heimsóknir hafi átt sér stað árin 2009 og 2010, eða um og yfir 30 þúsund manns, hvort ár. Hingað til hafa þessar tölur verið í takt við tölur Dalvíkinga sjálfra. “ Nánar á heimasíðu Vegagerðarinnar hér.
Ræða Svanfríðar Jónasdóttur við heiðrun á Fiskidaginn mikla 2013
Fiskidagurinn mikli 2013 heiðrar Björgunarsveitina Dalvík
Saga slysavarna á Íslandi er saga af fólki hefur dregið lærdóm af slysum sem orðið hafa og leitað leiða til að fyrirbyggja að slíkt kæmi aftur fyrir. Björgunarsveitir eru hluti af þeirri viðleitni.
Upphaflega var slysavörnum og björgunarstörfum einkum beint að sjónum. Ástæður þess voru tíð sjóslys og mannskaðar. Þegar Slysavarnafélag Íslands var stofnað 1928 og var félaginu ætlað það hlutverk að draga úr slysum á sjó og koma upp búnaði til björgunar Á þeim tíma var ekki óalgengt að tugir sjómanna létu lífið í sjóslysum á ári hverju. Alls er talið að vel á þriðja þúsund íslenskir og erlendir sjómenn eigi íslenskum slysavarnadeildum og björgunarsveitum líf sitt að launa.
Allt í kringum landið hafa lengi verið gerð út björgunarskip og minni björgunarbátar. Reknar eru björgunarþyrlur og Slysavarnaskóli sjómanna sem heldur úti kennslu í öryggismálum sjómanna. Alltaf er horft til þess hvernig ný tækni og þekking getur nýst til björgunarstarfa og slysavarna. Slysavarnafélagið Landsbjörg, heldur utanum slysavarna- og björgunarstörf í landinu og undir merkjum þess starfa þúsundir sjálfboðaliða, í 99 björgunarsveitum, í 33 slysavarna- og kvennadeildum og í 54 unglingadeildum. Deildirnar mynda þéttriðið öryggisnet um land allt og eru tilbúnar að bregðast við þegar áföll dynja yfir og óhöppin verða. Björgunarsveitir eru afar dýrmætar fyrir öll samfélög og ekki síst sjávarútvegssamfélögin þar sem þær njóta mikils stuðnings og þátttöku íbúa og eiga farsæla sögu. Björgunarsveitin Dalvík er ein þeirra sveitar sem mynda hið þéttriðna net. Árið 2013 heiðrar Fiskidagurinn mikli Björgunarsveitina Dalvík og þakkar um leið öflugt starf í þágu lands og heimabyggðar.
Myndir frá hátíðinni: ljósmyndari Helgi Steinar Halldórsson
Myndir frá flugeldasýningunni: Snæþór Vernharðsson
Instagram myndir af Fiskisúpukvöldinu mikla: Kristinn Frímann Jakobsson fréttamaður veitingageirans á Akureyri og nágrennis
Fréttatilkynning.
/Smári
Twitter og Instagram: #veitingageirinn
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
100 myndir frá hátíðarkvöldverði KM
-
Keppni4 dagar síðan
Þessir veitingastaðir og Íslendingar eru tilnefndir til BCA 2025 – Myndaveisla
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Fyrsta heildstæða kennsluefnið í matreiðslu gefið út eftir 70 ára kennslusögu – Myndir frá útgáfuteitinu
-
Keppni4 dagar síðan
Ertu lærður matreiðslumaður eða matreiðslunemi og langar til að komast í ungkokkalandsliðið?
-
Nemendur & nemakeppni2 dagar síðan
Reynir Grétarsson matreiðslumeistari með áhugavert fræðsluerindi um súkkulaðigerð – Myndir
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Uppskrift – Rjómalöguð tómatsúpa og grillað ostabrauð
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Uppskrift – Mozzarella fiskréttur
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Hótel og heilsulind Bláa Lónsins á meðal 10 bestu hótelum heims – Michelin