Viðtöl, örfréttir & frumraun
108 Matur – Baldur: „með þessu áframhaldi er bara sól í heiði og framtíðin björt“
Það er draumur margra að opna eigin veitingastað en þeir einir vita það sem hafa prufað að það er oftar en ekki botnalaus vinna og áhyggjur. Sem betur fer þá erum við misjöfn að upplagi og ekki allir sem láta slíkt smotterí halda aftur af sér.
Ekki fyrir svo löngu síðan heyrði ég í gömlum vinnufélaga mínum honum Baldri Guðbjörnssyni sem bauð mér að kíkja í heimsókn á nýjan stað sem hann var að opna með Gunnari Davíð Chan í Fákafeni 9.
Ég læt ekki bjóða mér slíkt tvisvar enda mikill áhugamaður um veitingastaði, svo fyrir stuttu renndi ég við hjá þeim félögunum og bankaði upp á. Staðurinn hefur fengið nafnið 108 matur sem er bein tenging við staðsetninguna.
Mikið að gera
Mig bar að garði stuttu fyrir hádegið og strákarnir voru þá á fullu að koma matnum fram á metnaðarfullan hátt. Ég sá að þeir höfðu varla tíma til að spjalla enda röð farin að myndast þó að klukkan væri ekki enn orðin hádegi.
Baldur sagði mér að í byrjun apríl hafi þeir opnað og væru ákaflega sáttir við móttökurnar og varla hægt að hugsa sér betra upphaf á nýjum veitingastað.
Þegar ég spurði hann hvað hefði fengið hann til að rjúka úr fína starfinu og fara út í þetta basl, þá sagði hann mér að þeir félagar hefðu fengið veður af því að þetta húsnæðið væri að losna og gamli draumurinn um að opna sitt eigið hafði tekið sig upp á nýju og þeir ákváðu að láta bara slag standa.
Góðar móttökur
„Móttökurnar hafa verið miklu betri en við höfðum látið okkur dreyma um og með þessu áframhaldi er bara sól í heiði og framtíðin björt“ sagði Baldur og hló. „Nei grínlaust“ hélt hann áfram, „þá erum við að fara okkar eigin leiðir hérna. Við elskum að elda góðan mat og okkur langar að bjóða upp á góðan og spennandi heimilismat ef það má kalla réttina það“.
Núna í morgun vorum við að klára að gera kjötbollur enn eina ferðina, en þær hafa slegið rækilega í gegn og það er varla að við höfum undan að steikja. Þetta á eiginlega við flesta af okkar réttum“ hélt hann áfram. „Núna um daginn vorum til dæmis að prufa okkur áfram með grísarifin okkar en gátum ómögulega komist að niðurstöðu um hvaða sósa væri best svo við blönduðum bara saman báðum leynisósunum og fengum alveg frábæra útkomu“ hélt hann áfram og hló.
Ég sá að hann var farinn að verða aðeins órólegur út af þessu kjaftæði enda röðin farin að lengjast svo ég smellti af nokkrum myndum og þakkaði fyrir mig.
108 matur er í Fákafeni 9 og er opið alla virka daga frá klukkan 11:30 fyrir hádegismat og síðan er opið frameftir degi og eru þá heimabakaðar hnallþórur í boði ásamt öðru meðlæti. Einnig er boðið upp á mat til nærliggjandi fyrirtækja.
![](https://veitingageirinn.is/wp-content/uploads/2018/02/veitingageirinn.png)
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Saga barónanna lifir – Veitingahúsið Hornið heldur upp á 46 ára afmæli
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Viðskiptavinir okkar eiga skilið að hafa valkost: Segir Sigurður um ákvörðun MooGoo að vera opinn allt árið
-
Keppni14 klukkustundir síðan
Björt framtíð í íslenskri matargerð – Matreiðsla, framreiðsla, kjötiðn og bakaraiðn í brennidepli á Íslandsmótinu um helgina
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Ný bylgja í vínheiminum – Fyrsta áfengislausa vínverslunin opnar í hjarta vínborgarinnar Bordeaux
-
Vín, drykkir og keppni4 dagar síðan
Hvað er Heitast á BWW 2025? Sóley Björk og fremstu vínsérfræðingar heims afhjúpa leyndardóma Spænskra vína
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Súkkulaðið sem fór á flug á TikTok – Hvað er svona sérstakt við PortaNOIR?
-
Frétt2 dagar síðan
Fuglaflensa veldur eggjaskorti: Veitingastaðir og bakarí í vanda
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Rósasalat – Salatið sem fær diskinn til að blómstra – Uppskriftir með rósasalati