Frétt
Vegna fréttaflutnings um Tjöruhúsið á Ísafirði
Vegna fréttaflutnings um Tjöruhúsið, þá vilja eigendur Tjöruhússins koma eftirfarandi á framfæri:
Sæl kæru vinir og velunnarar Tjöruhússins (og fólk sem lækar okkur á feis bara af því bara), nú hafa einhver ykkar líklegast orðið þess vör að rekstur Tjöruhússins var innsiglaður sl. föstudag að ósk skattayfirvalda.
Fréttaflutningur af lokuninni hefur verið óljós og ekki margt komið fram um aðstæður eða tilurð þessarar lokunar – eðlilega – enda upplýsingar af skornum skammti þegar yfirvöld mega ekki tjá sig um einstök mál og Magnús Hauksson upptekinn að stunda villimennsku á ströndum í félagi við frændur og vini, án farsíma.
Sjá einnig:
Innsiglunarkrafan er gerð af hálfu skattayfirvalda vegna vanskila á margvíslegum gögnum, bæði gögnum sem þau telja sig eiga rétt á og hafa ekki fengið, og eins gögnum sem okkur ber lögum samkvæmt að standa skil á og höfum vanrækt af ýmsum ástæðum. Taka ber fram að ekki er um að ræða vangreiðslur á opinberum gjöldum eða skil á virðisaukaskatti eða öðrum rekstrargjöldum, í versta falli seingreiðslur. Þau gögn sem komin eru yfir skilafrest – og yfirleitt hafa skilafrest – teljast um einum og hálfum mánuði of sein.
Þeim gögnum, sem okkur bar að skila, hefur nú verið skilað. Aldrei stóð annað til.
Til þess að enginn misskilningur leiki um eðli málsins, kröfur yfirvalda og ástæður innsiglunarinnar má lesa þær hér.
Krafist var:
- Afrita af ráðningarsamningum við starfsmenn.
- Afrita af launaseðlum fyrir júnímánuð, auk afrita af vinnuskýrslum og vaktaplönum.
- „Endurbættra skilagreina“ fyrir júnímánuð, vegna meintra ágalla, auk skilagreina júlímánaðar.
- Að laun eins starfsmanns úr fjölskyldunni séu hækkuð í samræmi við viðmiðunarmörk (sem fela m.a. í sér að starfsmaður sé á fullum launum árið um kring, þrátt fyrir að starfsemin liggi niðri stóran hluta árs)
Kröfu um að rafrænt kassakerfi verði keypt og tekið í notkun, sem málinu fylgdi, hafði þegar verið svarað nær mánuði fyrir lokunina.
Nú megum við vissulega skammast okkar fyrir að hafa ekki verið fljótari að bregðast við kröfum skattsins, sem fram voru settar þann 10. júlí sl., og við mótmælum því ekki að yfirvöldum er að því er virðist frjálst að fylgja þeim eftir af slíkri hörku. Þrátt fyrir að okkur kunni að þykja aðgerðir sem þessar yfirdrifnar – og að því er virðist tímasettar til að hafa sem mest áhrif á starfsemina – þá vitum við upp á okkur seinlætið og hörmum það innilega.
Við viljum ekki afsaka okkur. Þetta er léleg frammistaða og við viljum gera betur. Þó er vert að nefna, að í veitingageiranum, líkt og víðar, hafa síðustu mánuðir markast af miklu álagi og óvissu sökum veiruvár þeirrar er herjar á landið. Allar forsendur – rekstrarumhverfi, starfsmannahald og skipulag – hafa breyst í einni hendingu og eru enn í lausu lofti, með oft á tíðum skelfilegum afleiðingum fyrir rekstraraðila og starfsmenn. Þetta má sannreyna með gönguferð um miðbæ Reykjavíkur, t.d.
Sjá einnig:
Tjöruhúsið var innsiglað vegna vanskila á staðgreiðslu launa
Sem betur fer höfum við, sem lítið og sveigjanlegt fjölskyldufyrirtæki, sloppið betur en flestir úr þessari raun og erum við ákaflega þakklát fyrir það. Við hefðum þó líklega átt auðveldara með að sinna skrifræðinu sem fylgdi kröfum yfirvalda ef við hefðum ekki á sama tíma þurft að standa í ströngu við að útfæra starfsemi okkar svo hún félli að nýjum kröfum um tveggja metra reglu og aðrar sóttvarnir.
Eins og áður sagði afsakar ofangreint ekki skrifræðisseinlæti okkar. Okkur finnst glatað að hafa klúðrað þessu og biðjumst afsökunar, sérstaklega þá sem áttu hjá okkur borð á síðastliðinni helgi.
Þegar þetta er skrifað eru umbeðin gögn í skoðun. Væntanlega getum við farið að afgreiða mat aftur á næstu dögum, en nánari fregnir að því munu birtast á þessum vettvangi. Við munum hér eftir leggja alla áherslu á að koma í veg fyrir skjalatafir af öllu tagi.
Eðlilegt er, að fólk spái og spekúleri þegar aðstæður sem þessar koma upp og við sýtum engum að nota ímyndunaraflið til að skemmta sér og öðrum. Þeir sem hafa áhuga á því að ræða málið af alvöru ættu nú að hafa upplýsingar í fórum sér, sem auðvelda þeim að gera það á sem veraldlegustum grundvelli.
Takk fyrir gott sumar og alla krakkana hlakkar til að sjá ykkur aftur!
Undir þetta skrifar Tjörugengið.
Mynd: facebook / Tjöruhúsið
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Mesta úrval Japanskra hnífa á Íslandi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel4 dagar síðan
Nýr veitingastaður á Laugarvatni – Sunneva og Sæþór: Við viljum að allir sem koma líði eins og þeir séu heima hjá sér
-
Keppni4 dagar síðan
Grétar Matthíasson er Meistari meistaranna
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Kristinn Frímann bauð upp á glæsilegt jólahlaðborð á togaranum Kaldbak – Myndir
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Mijita er fyrsti 100% glútenfríi veitingastaðurinn í Wolt appinu
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun1 dagur síðan
Gulli bakari heiðraður sem kaupmaður ársins 2024
-
Vín, drykkir og keppni2 dagar síðan
Mikil aukning á fölsuðu áfengi – IBA biðlar til allra barþjóna og veitingamenn að vera vel á verði
-
Uppskriftir2 dagar síðan
Ljúffengar og góðar fiskibollur