Greinasafn
Varðandi skrif Jónasar Kristjánssonar í DV um veitingahúsagagnrýni
Jónas Kristjánsson er bara að skrifa greinar sem fólk vill lesa, ef Jónas Kristjánsson myndi skrifa grein um veitingastað sem eldaði ágætan mat og á köflum góðan og væri með sæmilegar innréttingar og þetta fína kaffi þá myndi enginn nenna að lesa neitt sem maðurinn skrifaði.
Ég er ekki að réttlæta það að hann Jónas Kristjánsson sé að rakka niður hvern veitingastaðinn á fætur öðrum heldur bara að benda mönnum á að Jónas er ekki bara að skrifa skemmtilegar greinar með skemmtilegum lýsingarorðum heldur vill hann líka fá svör, hann vill að veitingahúsaeigendur svari sér þannig að hann geti skrifað aðra grein, ennþá skemmtilegri og með ennþá skemmtilegri lýsingarorðum og má þar benda á greinina sem hann skrifaði um Ítalíu, „Ítalía í þrefaldri fýlu“
Við skulum öll átta okkur á því að Jónas er mjög fróður maður, hann er ritstjóri DV og hefur heimsótt fleirri veitingastaði en flestir aðrir og hefur sjálfsagt gríðarlegt vit á mat, eða ætti ég kannski að segja hann veit hvernig á að borða mat, og auðvitað veit hann hvað honum finnst gott og vill auðvitað að öllum finnist það sama og honum. Það sem er verst við þetta allt saman er að Jónas kann að nota pennann og hann kann að svara fyrir sig og með því að nýta sér aðstöðu sína sem ritstjóri DV kemur hann sínum skoðunum á framfæri. Það er svo lesandans að meta hvort taka beri mark á orðum Jónasar.
Hvað er þá til ráða?
Voðalega fátt, skrifum Jónasar mætti líkja við einhverskonar sjúkdóm eða veiru sem er ólæknandi, sem sagt við verðum bara að gjöra svo vel og aðlaga okkur að þessari vá sem steðjar að okkur og læra að lifa með þessu, það er erfitt, en með réttri fræðslu og forvörnum er hægt að halda skrifum Jónasar í skefjum.
Til þeirra er lesa greinarnar hans Jónasar.
Hér er ágætis ráð til að lesa greinarnar hans Jónasar. Fjárfestið í svörtum olíutúss og fáið einhvern sem þið treystið til að ritskoða greinarnar hans Jónasar, felið lýsingarorðin (þessi grófustu) og lesið svo yfir greinina og hugsið um eitthvað fallegt á meðan.
Það er svo staðreynd lífsins að veitingahúsagagnrýni að því tagi sem Jónas skrifar er ekki mjög áræðanleg, ekki það að Jónas hafi ekki vit á því sem hann er að gera, því hann gerir það, heldur vegna þess að Jónas skrifar út frá sinni persónulegri skoðun, reyndar hefur hann ávallt með sér einhverja matargesti og stundum hefur hann spurt aðra gesti veitingahússins en það er bara ekki nóg. Til að sanngjörn veitingahúsagagnrýni geti átt sér stað verður að vera hópur fólks sem fer á sama staðinn á mismunandi tíma og má þessi hópur ekkert þekkjast eða vita af hinum í sama hópi, dreifa þarf þessum heimsóknum yfir árið, þjálfa þarf þetta fólk sérstaklega upp með það að leiðarljósi að dæma matinn á sanngjarnan og fagmannlegan hátt en ekki eftir eigin skoðunum um hvernig hlutirnir eiga að vera. Meðaltal allra í hópnum þarf síðan að taka saman og þannig fæst viðunandi niðurstaða. En þá erum við aftur komin að því sem rætt er um í „málsgrein 1“ þannig að málið fellur um sjálft sig. Jónas skrifar bara sínar greinar og skrifar þær með skemmtilegum og hörðum lýsingarorðum þannig að fólk lesi nú greinarnar hans.
Jónas að skjóta yfir markið?
En er hann Jónas að skjóta yfir markið? Í grein sinni um Grillið „Grillið er langdýrast“ minnist Jónas á þann kost að Grillið notist við milda og góða kryddnotkun að frönskum hætti, „andstæða tízkufyrirbærisins „Fusion“ sem skellir æpandi kryddi í milda rétti til að þjóna kynslóð sem hefur eyðilagt bragðlaukana með tómatsósum og sinnepi“. Allt í lagi, þetta er sjálfsagt rétt. „Fusion“ er tískufyrirbæri en hvers vegna segir Jónas að Grillið sé síðri staður en Sommelier en eins og allir vita er Sommelier þekkt fyrir það að skella æpandi kryddi í milda rétti……þannig að þessi samanburður getur ekki talist réttur. Það er að segja ef Jónasi finnst það ekki gott að skella æpandi kryddi í milda rétti til að ………..
Jónas skrifaði svo fyrir ári að „[Sommelier]…hefur strax í upphafi ferils skotizt uppá tind íslenzkrar matargerðarlistar. Metnaðarfullur staðurinn sameinar þrennt í senn, einn allra bezta matinn, mesta úrval góðs borðvíns og lærðustu ráðgjöf af hálfu starfsliðs. Það er unun að koma hér, -aftur og aftur.“ Jónas Kristjánsson, DV, 18. maí. 2000
En það er bara verst hvað „tízkufyrirbærið ,,fusion“, sem skellir æpandi kryddi í milda rétti til að þjóna kynslóð, sem hefur eyðilagt bragðlaukana með tómatsósum og sinnepi“ hér eru menn ekki alveg samkvæmir sjálfum sér og kannski er sjálfur Jónas búinn að eyðileggja bragðlaukana sína með tómatsósum og sinnepi.
Jónas notast kannski einum of mikið við efsta stig þegar hann lýsir stöðum t.d. „Þetta er þáttur aðdráttarafls Perlunnar, dýrasta og fínasta og sérstæðasta veitingahúss landsins“ en svo nokkru síðar skellir Jónas fram nýrri grein og þá um Grillið „Grillið er langdýrast“
Varðandi grein Jónasar um Ítalíu „Ítalía í þrefaldri fílu“.
Eigendur Ítalíu kvarta yfir skrifum Jónasar en Jónas telur eftirréttin Tíramisu vera upprunninn í Bologna en eigendur Ítalíu segja hann upprunninn í Feneyjum. Hið sanna er að í raun veit enginn nákvæmlega hvar þessi ágæti eftirréttur er upprunninn en þó segir „New Professional Chef“ að þessi ágæti réttur er líklega upprunninn í Feneyjum. Einnig eru aðrir sem segja að Tiramisu hafi komið fyrst fram í Trevisio en svo segir í Matarást og Italian Cusine en þar á bæ nefna menn bæði Feneyjar og Trevisio til sögunnar. Jónas Kristjánsson minnist á Bologna sem fæðingarstað Tiramisu og hann kveðst standa við það.
Í þessu tilfelli nýtir Jónas Kristjánsson sér aðstöðu sína til að svara til baka og notar rök sér í hag að hann standi við þessa skoðun sína. Máttur Ítalíu er enginn.
Þegar svona misræmi sést í skrifum þá efast maður um þau orð Jónasar að hann hafi ekki áhuga á að snæða hjá hinum virta og „snjalla auglýsingamanni í dulargerfi kokks“, sjálfum. Paul Bocuse aftur en hann segist hafa snætt þar í tvígang og hreinlega nenni því nú ekki aftur. Ef að Jónas veit það ekki þá var Paul Bocuse sæmdur orðunni matreiðslumaður Frakklands 1961 og alla tíð síðan verið talinn með betri matreiðslumönnum heims, hann á og rekur stjörnu staði sem kenndir eru við Michelin stjörnur en það er jú sú stjörnugjöf sem dæmir staði á sem fagmannlegastann og sanngjarnastann hátt.
Þó svo að Jónas hafi þokkalegt vit á því hvað það er sem honum langar til að snæða þá skulum við ekki taka greinarnar hans of bókstaflega. Jónas er ekki alltaf samkvæmur sjálfum sér frekar en við hin…..
Elvar Örn Reynisson – apríl 2001
Kokkaskelfirinn Jónas.
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Iðunn Mathöll á Akureyri opnar í dag
-
Frétt4 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi
-
Frétt17 klukkustundir síðan
Atvinnurekanda skylt að greiða matreiðslumanni 1,4 milljónir króna vegna vangreiddra launa
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Frétt3 dagar síðan
Innköllun á sviðasultu frá Kjarnafæði
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Fallegur og girnilegur jólakrans bar sigur úr býtum