Smári Valtýr Sæbjörnsson
Útflutningur matvæla – hvað er í kortunum?
Íslandsstofa boðar til fundar á mánudaginn 28.september, kl. 14 á Grand Hótel Reykjavík með framleiðendum og útflytjendum matvæla og öðrum þeim sem áhuga hafa á málefninu. Þar verður kynnt kortlagning á íslenskum matvælafyrirtækjum sem Íslandsstofa lét gera í samstarfi við hagsmunafélög í framleiðslu matvæla.
Tilgangur kortlagningarinnar var að kanna stöðu útflutnings, helstu útflutningsmarkaði, kortleggja helstu hindranir og áskoranir í útflutningi. Einnig að kanna þörf á handleiðslu og áhuga fyrirtækja í greininni á að taka þátt í samstarfi í markaðsverkefnum erlendis. Markmiðið er að varpa ljósi á tækifæri og framtíðarsýn í greininni fá fram viðhorf fyrirtækja og hagsmunaaðila til að byggja á við mótun á áherslum til að auka gjaldeyristekjur af útflutningi matvæla.
Efni fundarins:
- Jóna Karen Sverrisdóttir frá Gallup kynnir niðurstöður spurningakönnunar sem lögð var fyrir um 300 fyrirtæki í matvælageiranum.
- Guðný Káradóttir forstöðumaður matvælasviðs Íslandsstofu og Bryndís Eiríksdóttir verkefnisstjóri kynna niðurstöður kortlagningarinnar og viðhorf aðila í matvælageiranum.
- Guðrún Hafsteinsdóttir formaður SI, Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri SFS í sjávarútvegi og Sindri Sigurgeirsson formaður BÍ ræða tækifæri og framtíðarsýn í greininni.
- Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu verður fundarstjóri og tekur saman niðurstöður
Niðurstöður úr þessari vinnu eru teknar saman í þremur skjölum sem verða aðgengileg á vef Íslandsstofu: tölfræðiupplýsingar um þróun útflutnings ólíkra framleiðslugreina í matvælaframleiðslu, spurningakönnun Gallup og skýrslu sem tekur saman greiningarvinnuna og niðurstöður. Væntingar eru um að kortlagningarvinnan nýtist í stefnumörkun og mótun á aðgerðum, sem ætlunin er að vinna undir merkjum Matvælalandsins Íslands. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að verja samtals 400 milljónum króna í verkefnið á næstu fimm árum en Íslandsstofa hefur umsjón með framkvæmd þess.
Fundurinn er öllum opinn en nauðsynlegt er að skrá þátttöku fyrirfram.
Nánari upplýsingar um fundinn veita Áslaug Þ. Guðjónsdóttir, [email protected] og Bryndís Eiríksdóttir, [email protected], verkefnastjórar á matvælasviði og Guðný Káradóttir forstöðumaður matvælasviðs, [email protected], í síma 511 4000.
Helstu niðurstöður sem fjallað verður um á fundinum:
- Gjaldeyristekjur sem byggja á hráefnisauðlindum lands og sjávar skipta Íslendinga gífurlega miklu máli, enda er um þriðjungur gjaldeyristekna vegna útflutnings matvæla.
- Íslensk matvæli og matarmenning Íslendinga geta orðið grunnur að enn frekari verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag í margþættum skilningi, sérstaklega í formi aukinna gjaldeyristekna af útflutningi og sölu til erlendra ferðamanna.
- Árið 2014 var útflutningur á matvælum frá Íslandi 44% af heildarverðmæti vöruútflutnings og var að langstærstum hluta sjávarafurðir, eða 93,5%. Mikilvægur vöxtur hefur verið síðustu ár á útflutningi nýrra útflutningsvara, t.d. drykkjarvara, sælgætis og salts.
- Bjartsýni ríkir meðal fyrirtækja sem stunda eða hafa áhuga á að stunda útflutning á matvælum. Tæp 82% svarenda töldu að útflutningur á matvælaafurðum fyrirtækisins myndi aukast á næstu tveimur árum.
- Þekking erlendra neytenda á Íslandi og vitund um hvað landið stendur fyrir þegar kemur að mat og matvælaframleiðslu leggur grunninn að því að hægt sé að byggja upp útflutning á matvælum frá Íslandi.
- Helstu útflutningsmarkaðir fyrir íslensk matvæli eru lönd innan Evrópu og Bandaríkin. Í spurningakönnuninni sögðu tæp 30% fyrirtækja Bandaríkin vera verðmætasta útflutningsmarkaðinn, 15% nefndu Bretland og 10% Spánn. Mikill áhugi er á meðal fyrirtækja að sækja á Bandaríkjamarkað en einnig er áhugi á Bretlands- og Þýskalandsmarkaði.
- Tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðslu og útflutning felast í að þjóna mörkuðum þar sem gæði og uppruni er mikils metinn. Það var samhljóma álit meðal fyrirtækja og hagsmunasamtaka að mikilvægt væri að nýta sér áhuga á Íslandi og tengingu við upprunalandið Ísland í kynningu á íslenskum matvælum erlendis.
- Styrkleikar íslenskrar matvælaframleiðslu tengjast einkum gæðum og hreinleika. Flestir voru sammála um að íslensk matvæli geta ekki keppt í verðum eða magni á erlendum mörkuðum og því á áherslan að vera á gæði. Tækifærin felast m.a. í að byggja samkeppnishæfni á gæðum, hreinleika, ferskleika og ímynd landsins.
- Fyrirtæki í útflutningi standa frammi fyrir ýmsum hindrunum eins og háum flutningskostnaði og takmörkuðu plássi í flugi fyrir ferskar vörur.
- Skortur á samstöðu og langtímasýn fyrir greinina í heild sem og skortur á þekkingu á mörkuðum eru talin hindrun. Tollar hafa verið hindrun fyrir útflutning á ákveðnum vörum t.d. skyri og ákveðnum afurðaflokkum sjávarafurða.
- Það felast tækifæri í sölu til erlendra ferðamanna einkum fyrir minni fyrirtæki sem eru ekki í stakk búin að selja vörur sínar á erlendum mörkuðum.
- Það liggja tækifæri í aukinni framleiðslu og sókn á erlenda markaði með drykkjarvörur, sælgæti og fiskeldi en einnig mjólkur- og kjötafurðir. Tækifærin liggja ekki einungis í aukinni framleiðslu heldur líka í að gera vöruna verðmætari með réttri hönnun, vöruþróun og að segja söguna bak við framleiðsluna.
- Það er sameiginlegt verkefni fyrirtækja í matvælaframleiðslu, hagsmunasamtaka þeirra, aðila í stuðningsumhverfinu og stjórnvalda, að vinna að framgangi þessara mála. Með samstilltu átaki má ná meiri slagkrafti í erlendu markaðsstarfi og samhæfingu sem ætti að skila betri árangri.
![](https://veitingageirinn.is/wp-content/uploads/2018/02/veitingageirinn.png)
-
Keppni5 dagar síðan
Björt framtíð í íslenskri matargerð – Matreiðsla, framreiðsla, kjötiðn og bakaraiðn í brennidepli á Íslandsmótinu um helgina
-
Keppni1 dagur síðan
Sigurvegarar í Íslandsmóti matvæla- og veitingagreina 2025 – Myndaveisla
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Kokkur(ar) óskast til sumarstarfa á lítið sveitahótel
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Rafn Heiðar Ingólfsson tekur við sem veitingastjóri Olís – Rafn Heiðar: Cuisine.is verður óbreytt – gæluverkefni sem fær nægan tíma
-
Frétt1 klukkustund síðan
Sviðasulta og svínasulta valda sýkingum: Veisluþjónusta án starfsleyfis
-
Nemendur & nemakeppni2 dagar síðan
Tólf nemendur í matartækni hjá VMA
-
Bocuse d´Or2 dagar síðan
Ert þú næsti Bocuse d´Or keppandi Íslands? Umsóknarfrestur er til 1. mars 2025
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Veitingastaðir framtíðarinnar einblína á starfsfólkið