Vertu memm

Smári Valtýr Sæbjörnsson

Útflutningur matvæla – hvað er í kortunum?

Birting:

þann

Íslandsstofa - Logo

Íslandsstofa boðar til fundar á mánudaginn 28.september, kl. 14 á Grand Hótel Reykjavík með framleiðendum og útflytjendum matvæla og öðrum þeim sem áhuga hafa á málefninu. Þar verður kynnt kortlagning á íslenskum matvælafyrirtækjum sem Íslandsstofa lét gera í samstarfi við hagsmunafélög í framleiðslu matvæla.

Tilgangur kortlagningarinnar var að kanna stöðu útflutnings, helstu útflutningsmarkaði, kortleggja helstu hindranir og áskoranir í útflutningi. Einnig að kanna þörf á handleiðslu og áhuga fyrirtækja í greininni á að taka þátt í samstarfi í markaðsverkefnum erlendis. Markmiðið er að varpa ljósi á tækifæri og framtíðarsýn í greininni fá fram viðhorf fyrirtækja og hagsmunaaðila til að byggja á við mótun á áherslum til að auka gjaldeyristekjur af útflutningi matvæla.

Efni fundarins:

  • Jóna Karen Sverrisdóttir frá Gallup kynnir niðurstöður spurningakönnunar sem lögð var fyrir um 300 fyrirtæki í matvælageiranum.
  • Guðný Káradóttir forstöðumaður matvælasviðs Íslandsstofu og Bryndís Eiríksdóttir verkefnisstjóri kynna niðurstöður kortlagningarinnar og viðhorf aðila í matvælageiranum.
  • Guðrún Hafsteinsdóttir formaður SI, Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri SFS í sjávarútvegi og Sindri Sigurgeirsson formaður BÍ ræða tækifæri og framtíðarsýn í greininni.
  • Jón Ásbergsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu verður fundarstjóri og tekur saman niðurstöður

Niðurstöður úr þessari vinnu eru teknar saman í þremur skjölum sem verða aðgengileg á vef Íslandsstofu: tölfræðiupplýsingar um þróun útflutnings ólíkra framleiðslugreina í matvælaframleiðslu, spurningakönnun Gallup og skýrslu sem tekur saman greiningarvinnuna og niðurstöður. Væntingar eru um að kortlagningarvinnan nýtist í stefnumörkun og mótun á aðgerðum, sem ætlunin er að vinna undir merkjum Matvælalandsins Íslands. Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að verja samtals 400 milljónum króna í verkefnið á næstu fimm árum en Íslandsstofa hefur umsjón með framkvæmd þess.

Fundurinn er öllum opinn en nauðsynlegt er að skrá þátttöku fyrirfram.

Nánari upplýsingar um fundinn veita Áslaug Þ. Guðjónsdóttir, [email protected] og Bryndís Eiríksdóttir, [email protected], verkefnastjórar á matvælasviði og Guðný Káradóttir forstöðumaður matvælasviðs, [email protected], í síma 511 4000.

 

Helstu niðurstöður sem fjallað verður um á fundinum:

  • Gjaldeyristekjur sem byggja á hráefnisauðlindum lands og sjávar skipta Íslendinga gífurlega miklu máli, enda er um þriðjungur gjaldeyristekna vegna útflutnings matvæla.
  • Íslensk matvæli og matarmenning Íslendinga geta orðið grunnur að enn frekari verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag í margþættum skilningi, sérstaklega í formi aukinna gjaldeyristekna af útflutningi og sölu til erlendra ferðamanna.
  • Árið 2014 var útflutningur á matvælum frá Íslandi 44% af heildarverðmæti vöruútflutnings og var að langstærstum hluta sjávarafurðir, eða 93,5%. Mikilvægur vöxtur hefur verið síðustu ár á útflutningi nýrra útflutningsvara, t.d. drykkjarvara, sælgætis og salts.
  • Bjartsýni ríkir meðal fyrirtækja sem stunda eða hafa áhuga á að stunda útflutning á matvælum. Tæp 82% svarenda töldu að útflutningur á matvælaafurðum fyrirtækisins myndi aukast á næstu tveimur árum.
  • Þekking erlendra neytenda á Íslandi og vitund um hvað landið stendur fyrir þegar kemur að mat og matvælaframleiðslu leggur grunninn að því að hægt sé að byggja upp útflutning á matvælum frá Íslandi.
  • Helstu útflutningsmarkaðir fyrir íslensk matvæli eru lönd innan Evrópu og Bandaríkin. Í spurningakönnuninni sögðu tæp 30% fyrirtækja Bandaríkin vera verðmætasta útflutningsmarkaðinn, 15% nefndu Bretland og 10% Spánn. Mikill áhugi er á meðal fyrirtækja að sækja á Bandaríkjamarkað en einnig er áhugi á Bretlands- og Þýskalandsmarkaði.
  • Tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðslu og útflutning felast í að þjóna mörkuðum þar sem gæði og uppruni er mikils metinn. Það var samhljóma álit meðal fyrirtækja og hagsmunasamtaka að mikilvægt væri að nýta sér áhuga á Íslandi og tengingu við upprunalandið Ísland í kynningu á íslenskum matvælum erlendis.
  • Styrkleikar íslenskrar matvælaframleiðslu tengjast einkum gæðum og hreinleika. Flestir voru sammála um að íslensk matvæli geta ekki keppt í verðum eða magni á erlendum mörkuðum og því á áherslan að vera á gæði. Tækifærin felast m.a. í að byggja samkeppnishæfni á gæðum, hreinleika, ferskleika og ímynd landsins.
  • Fyrirtæki í útflutningi standa frammi fyrir ýmsum hindrunum eins og háum flutningskostnaði og takmörkuðu plássi í flugi fyrir ferskar vörur.
  • Skortur á samstöðu og langtímasýn fyrir greinina í heild sem og skortur á þekkingu á mörkuðum eru talin hindrun. Tollar hafa verið hindrun fyrir útflutning á ákveðnum vörum t.d. skyri og ákveðnum afurðaflokkum sjávarafurða.
  • Það felast tækifæri í sölu til erlendra ferðamanna einkum fyrir minni fyrirtæki sem eru ekki í stakk búin að selja vörur sínar á erlendum mörkuðum.
  • Það liggja tækifæri í aukinni framleiðslu og sókn á erlenda markaði með drykkjarvörur, sælgæti og fiskeldi en einnig mjólkur- og kjötafurðir. Tækifærin liggja ekki einungis í aukinni framleiðslu heldur líka í að gera vöruna verðmætari með réttri hönnun, vöruþróun og að segja söguna bak við framleiðsluna.
  • Það er sameiginlegt verkefni fyrirtækja í matvælaframleiðslu, hagsmunasamtaka þeirra, aðila í stuðningsumhverfinu og stjórnvalda, að vinna að framgangi þessara mála. Með samstilltu átaki má ná meiri slagkrafti í erlendu markaðsstarfi og samhæfingu sem ætti að skila betri árangri.

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið