Vín, drykkir og keppni
Tvö vín frá Vín og mat fá fjögur glös í Gestgjafanum
Chianti Classico Riserva 2000 frá Castello di Querceto og Ferntano 2003 frá Falesco fá bæði fjögur glös í Gestgjafanum. Þorri segir þetta um vínin:
Castello di Querceto Chianti Classico Riserva 2000.
Þegar vínin frá Chianti eru góð þá eru þau alveg einstaklega góð, rétt eins og þetta vín sem ég skora á alla að prófa til að sannreyna gæðin. Riserva merkir að vínið er látið þroskast í eikartunnum ákveðinn lágmarkstíma og einnig ákveðinn lágmarkstíma í flösku áður en það er sett á markað. Þetta vín hefur mjög þéttan, kirsuberjarauðan lit og ríflega meðalopna angan af soðnum kirsuberjum, leðri, eik, kakói, dökkum berjum, leir og málmi.
Það er vel bragðmikið og mjög þurrt með töluverð tannín og sýru. Endingu þess er hægt að mæla í mínútum og þrátt fyrir að vera fimm ára gamalt er það ungt og svolítið ferkantað sem dregur aðeins úr ánægjunni af að smakka það núna. Þarna eru glefsur af kræki- og brómberjum, sultuðum kirsuberjum, apótekaralakkrís og kakói. Umhellið því nokkrum klukkustundum fyrir neyslu eða setjið það í kjallarann og geymið. Hafið það með nauta- og folaldakjöti, hörðum ostum og ítölskum kjötréttum.
Í reynslusölu vínbúðanna [fer í kjarna 1. mars] 2190 kr. Mjög góð kaup.
Hiti: 17-19°C. Geymsla: Drekkið frá 2006 til 2012.
Ferntano Falesco 2003.
Héraðið Lazio hefur löngum staðið í skugganum af kunnari vínræktarsvæðum á Ítalíu, bæði fyrir norðan, t.d. Toskana, og einnig sunnan við það, t.d. Kampaníu. Þar er vínrækt þó á uppleið, eins og víðast hvar á Ítalíu, og mörg athyglisverð vín hafa komið þaðan á undanförnum árum. Víngerðin Falesco er eins sú þekktasta á þessum slóðum og í eigu eins kunnasta víngerðarmanns Ítalíu í dag, Ricardo Cotarella.
Þetta skemmtilega hvítvín er úr þrúgunni roscetto (sem enginn hefur heyrt minnst á geri ég ráð fyrir) sem er staðbundin í Lazio og með nútímalegri víngerð hefur tekist að gera úr henni athyglisverð hvítvín. Þetta vín er gulgyllt að lit með ríflega meðalopna angan af vanillu, möndlum, peru, melónu og sítrónu. Greinilegt er að vínið hefur verið látið gerjast að einhverju leyti í eikartunnum og að auki hefur það fengið malólaktíska gerjum.
Það er þurrt og rétt ríflega meðalbragðmikið með góða sýru og fína lengd. Þarna er bragð af vel þroskaðri peru, sítrónu, steinefnum og melónu. Ákaflega skemmtilegt og persónulegt vín sem ætti að vera gott með feitara fiskmeti, kjúklingi og öðru ljósu fuglakjöti með rjómasósu.
Í reynslusölu vínbúðanna 1890 kr. Mjög góð kaup.
Hiti: 9-11°C. Geymsla: Drekkið núna og til 2007.
Af heimasíðu Víns og matar
Heiðar Birnir Kristjánsson
Mynd: úr safni
![](https://veitingageirinn.is/wp-content/uploads/2018/02/veitingageirinn.png)
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Saga barónanna lifir – Veitingahúsið Hornið heldur upp á 46 ára afmæli
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Viðskiptavinir okkar eiga skilið að hafa valkost: Segir Sigurður um ákvörðun MooGoo að vera opinn allt árið
-
Frétt4 dagar síðan
Jamie Oliver rífur þögnina um erfitt samband sitt við Marco Pierre White
-
Frétt5 dagar síðan
Launahækkun í næsta launaumslagi – Allir eiga að fá hækkun, hvort sem þeir eru á taxtalaunum eða umsömdum launum
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Fróðlegt námskeið á Tipsý með viskísérfræðingnum Toffa frá Dillon
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel3 dagar síðan
Ný bylgja í vínheiminum – Fyrsta áfengislausa vínverslunin opnar í hjarta vínborgarinnar Bordeaux
-
Vín, drykkir og keppni2 dagar síðan
Hvað er Heitast á BWW 2025? Sóley Björk og fremstu vínsérfræðingar heims afhjúpa leyndardóma Spænskra vína
-
Frétt5 dagar síðan
Breytingar á reglugerð um vöruval, innkaup og dreifingu ÁTVR á áfengi í samráðsgátt