Vertu memm

Freisting

Tvö tonn af skyri seld vestanhafs

Birting:

þann


Áhugi Bandaríkjamanna á skyri og öðrum íslenskum mjólkurvörum er slíkur að Baldvin Jónsson verkefnisstjóri segir að bændur á Íslandi verði að auka mjólkurframleiðslu um fimmtung hið minnsta. Í síðustu viku gerðust þau stórtíðindi að tvö tonn af skyri seldust upp á skömmum tíma í verslunum í höfuðborginni Washington. Sagt var frá því í vor að skyrneysla Íslendinga hefði snaraukist. En fleiri virðast kunna að meta þessa séríslensku afurð. Tólf íslenskir matreiðslumeistarar eru nýlega komnir af Food and Fun matvælahátíð í Washington en milli þess sem þeir elduðu íslenskan mat ofan í gesti veitingastaða kynntu þeir íslenskar landbúnaðarafurðir í verslunum á vegum markaðsátaks bændasamtakanna.

Salan var langt umfram björtustu vonum en seldir voru tæplega þrjú þúsund ostar, tvo þúsund stykki af smjöri og tvö tonn af skyri svo eitthvað sé nefnt.

Baldvin segir áhuga Bandaríkjamanna slíkan að íslenskir bændur verði að bre tta upp ermar. Hann telur að á næstu fimm árum þá geti mjólkurbændur horft til þess að auka framleiðsluna að minnsta kosti um 20% frá því sem nú er miðað við þá eftirspurn sem er að myndast í Bandaríkjunum. Íslensku heitin duga vel og eru notuð á vörunum þegar þær eru seldar erlendis en heitið skyr hefur vakið mikla athygli hjá Bandaríkjamönnum. Baldvin spáir því að sauðfjárbændur verði að auka lambakjötsframleiðslu sína um þriðjung því ekki takist að anna eftirspurn vestanhafs. Núna eru sjö svæði sem fá ekkert lambakjöt og þrjú svæði sem fá ekki nema helming af því kjöti sem þau báðu um. Gott verð fæst fyrir íslensku afurðirnar og Baldvin telur að þegar horft er til framtíðar þá sé ekki spurning um það að þetta sé lang besti markaðurinn fyrir okkar afurðir.

Visir.is greinir frá

 

Saga Skyrsins

Skyr er kalkríkt, sérlega próteinríkt og inniheldur enga fitu enda er það gert úr undanrennu. Það segir sig því sjálft að skyr er heppilegt megrunarfæði.

Skyr mun hafa þekkst víða í nágrannalöndum okkar fyrr á öldum en þekkist nú aðeins á Íslandi. Hér hefur það verið ómissandi undirstöðufæða þjóðarinnar frá landnámi til okkar daga og margir telja það gómsætasta íslenska réttinn. En hann er líka með þeim hollustu og sumir ganga jafnvel svo langt að telja að við eigum tilvist okkar skyrinu að þakka.

Skyrgerð fyrr á tímum

Undanrennan var hituð að suðumarki þannig að hún varð því sem næst gerilsneydd. Síðan var hún kæld niður í 37 °C og hleypi bætt út í hana ásamt þétti sem var bara svolítið af góðu, síuðu skyri frá eldri lögun. Þéttirinn var sérstaklega mikilvægur því með góðum þétti var tryggt að skyrgerlarnir væru af bestu gæðum. Hér áður fyrr gat það tekið nokkurn tíma að koma sér upp bragðgóðum þétti og var vandaverk sem krafðist nákvæmni og hreinlætis. Skyrið var svo látið hlaupa, mysunni hellt af og skyrið loks síað á grindum eða í dúk.

Mysa
Mysan sem gengur af við skyrgerðina var vinsæll svaladrykkur fyrir tíma ávaxta- og gosdrykkja og hún var einnig notuð til að súrsa kjötmeti eins og t.d. slátur. Súrsunin jók geymsluþolið og rannsóknir hafa leitt í ljós að næringargildi matarins eykst líka umtalsvert.

Skyr hefur verið algengur hversdagsmatur á borðum landsmanna frá fyrstu tíð. Og þrátt fyrir stórkostlega aukningu á framboði matvöru heldur skyrið vinsældum sínum enn.

Skyrgerð nútímans:
Nákvæm vísindi byggð á innlendu hugviti

Skyrgerð fer fram í flestum mjólkurbúum landsins. Hún hefur í grundvallaratriðum haldist óbreytt frá því sem að framan er lýst þó að aukið hreinlæti, fullkomin tækni og sjálfvirkni hafi tekið við af eldri aðferðum.

Þróun skyrgerðar í Mjólkurbúi Flóamanna
Skyr hefur verið framleitt í MBF frá upphafi starfseminnar árið 1929. Fyrst í stað voru allir mjólkuriðnaðarmenn búsins danskir og þekktu því lítt til skyrgerðar. Kona úr nágrenninu var því fengin til aðstoðar og má segja að hún hafi miðlað til MBF þeirri skyrgerðarhefð sem hafði þróast í sveitum landsins í gegnum aldir.

Þróun og aðlögun að framleiðslu í stórum stíl hófst þegar í stað. Sem dæmi um það má nefna að árið 1935 var gerlafræðingur ráðinn til þess verkefnis að endurbæta og útbúa staðla fyrir skyrið.

Árið 1942 urðu gríðarlegar framfarir í skyrgerð í MBF. Starfsmenn hönnuðu svonefnda skyrtromlu sem bætti stórlega gæði skyrsins og stytti framleiðsluferlið umtalsvert. Þessi tækni barst um allt land og er enn þann dag í dag notuð við framleiðslu á hefðbundnu skyri.

Skyrtromlur hannaðar af starfsmönnum MBF voru teknar í notkun árið 1942. Skyrhleypan var sett í léreftspoka. Pokarnir voru síðan settir í tromluna sem snérist um ás og þannig síaðist mysan frá í gegnum dúkinn.

Stórt framfaraskref var stigið á sjöunda áratugnum. Þá var þróuð í MBF tækni sem gerði það kleift að nota skilvindu við skyrframleiðsluna, auk þess sem skyrið var gerilskert með hitun og síðan vélpakkað í dósir. Segja má að þarna hafi verið lagður hornsteinn að nútíma skyrgerð og því vöruframboði sem neytendur þekkja í dag. Í kjölfarið fylgdu bláberjaskyr og rjómaskyr með og án ávaxta og síðar skólaskyr svo eitthvað sé nefnt.

Upp úr 1970 urðu miklar framfarir í notkun þrýstisíunar við mjólkurvinnslu. Slík tæki voru fyrst fengin til MBF árið 1974. Þróunin hélt áfram og 1983 tók MBF í notkun nýja kynslóð síunartækja sem voru sérhönnuð í þeim tilgangi að vinna hin dýrmætu mysuprótein úr mysunni og blanda þeim aftur í skyrið. Þetta tókst vel og jók gæði framleiðslunnar. Nú hafa tækin frá 1983 verið endurbyggð samkvæmt nýjustu tækni og eru notuð til framleiðslu á skyr.is.

Árið 1962 hófust tilraunir með skyrgerð í skilvindu í stað eldri síunaraðferða og ný gerð af skilvindu var sett upp 1967. Ári síðar hófst sala á skyri pökkuðu í plastdósir.

Starfsmenn MBF unnu um tveggja ára skeið að þróun nýrrar skyrtegundar þar sem menn tileinkuðu sér enn betri framleiðslutækni og afraksturinn sá svo dagsins ljós: skyr.is

heimild: skyr.ms.is

 

[email protected]

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið [email protected] Skoða allar greinar höfundar hér >>

Auglýsingapláss
Click to comment

Leave a Reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið