Vertu memm

Pistlar

Þegar Ísland gerðist aðili að Alheimssamtökum Matreiðslumanna ( WACS )

Birting:

þann

Hilmar B. Jónsson

Hilmar B. Jónsson

Árin 1986 til 1992 var ég forseti KM og við ákváðum að gerast aðilar að WACS, sem eru Alheimssamtök Matreiðslumanna. World Association of Chefs Societies. Alheimsráðstefnur WACS eru haldnar annað hvert ár. 1990 var hún haldin í Singapore.

Við höfðum sent inn beiðni um aðild og fengið jákvætt svar. Ég og Elín kona mín flugum til Kaupmannahafnar og gistum þar eina nótt en flugið til Singapore var kl 1300 næsta dag með Singapore Airline. Við höfðum pantað hótel við Lunsgade og þegar við opnuðum herbergið var það svo lítið að maður þurfti að skáskjóta sér fram hjá rúminu og það var engin tösku grind þannig að það þurfti að taka upp úr töskunum liggjandi á rúminu, loka þeim svo og setja upp við vegg.

Minnsta tveggja manna herbergi sem ég hef séð á minni 52ja ára ferðamennsku. Þar sem konan hafði búið í Kaupmannahöfn í heilt ár vegna skólagöngu, nokkrum árum áður, langaði hana til að sýna mér nokkra staði í borginni um morguninn. Við vöknuðum snemma og fórum á nokkra staði í flýti og fórum á hótelið sóttum töskurnar og tókum leigubíl út á Kastrup.

Þegar við komum að innritunar borðinu var engin biðröð og við sögðum að við værum að fara til Singapore, var okkur sagt að vélin væri um það bil að fara, en við héldum að við værum rúmum klukkutíma fyrir brottför. Þá kom í ljós að Danir höfðu breytt klukkunni um nóttina svo við vorum klukkustund of sein.

Afgreiðslustúlkan hringdi út í hliðið og samdi um að vélin biði eftir okkur. Við fengum miðana, töskunum hent á færibandið og svo var hlaupið á stað, í gegnum passaskoðun og alla leið útí hlið sem var fjarlægasta hliðið. Þegar við svo gengum inn í vélina móð og másandi, stóðu um tuttugu manns upp og klöppuðu fyrir íslensku fulltrúunum, en það voru um 40 manns í vélinni frá hinum Norðurlöndunum á leið á þingið.

Þegar til Singapore kom fórum við á ráðstefnuhótelið sem var kringlóttur turn og var þá var hæsta hótel í heimi, eða 70 hæðir. Herbergið okkar var á 68. hæð sem er efsta hæð með hótelherbergjum en hæðin fyrir ofan okkur var fyrir loftræstingu og geymslur og efsta hæðin veitingastaður.

Það voru stórar svalir á herberginu sem porterinn sýndi okkur. Það var stórkostleg sjón að standa þarna og virða fyrir sér borgina og við vorum svo hátt uppi að maður horfði niður á flugvélar sem voru að kom til lendingar. Svo til við hliðina á hótelinu var stór grunnur og var okkur sagt að þar hafi hið fræga Raffles hótel staðið en verið rifið til grunna til að endurbyggja í sama dúr, þar sem hinn frægi drykkur Singapore Sling var fundin upp.

Næst þegar ég kom til Singapore þá á stjórnarfund WACS, sem varaforseti WACS var búið að endurbyggja þetta fræga hótel og maður fór á barinn og fékk sér einn Sling. Það fyrsta sem ég gerði eftir að porterinn var farinn, var að fara fram á gang og finna hvar brunastiginn var.

Mér leist ekkert á hvað maður gerði ef eldur kæmi upp og maður á 68 hæð.

Þingið hófst næsta dag með pomp og prakt og það var mikið um dýrðir, meðal annars voru Norðmenn með mikla útstillingu fyrir framan fundarsalinn, með risastórum ísstyttum af meðal annars hreindýri og ísbirni.

Opnunin var glæsileg og gerð af þáverandi forseta frá bandaríkjunum Keith Keogh en ef ég man rétt var hann með vídeó filmu þar sem hann eldaði veislumat á pústgrein á leigubíl, af hverju en þetta var frábærlega skemmtileg filma. Síðan var flottur kvöldverður.

Næsta dag byrjuðu svo þingstörf og þá átti meðal annars að taka inn fjórar nýjar þjóðir og var Ísland síðast í röðinni. Fyrsta þjóðin, ef ég man rétt, var Ísrael og fór forseti þeirra upp á svið og hélt brennandi ræðu um þeirra starfsemi og svo kom 5 mínútna kvikmynd um ísraelska matarmenningu og salurinn klappaði og landið var boðið velkomið í samtökin.

Undirritaður seig aðeins í stólnum. Síðan komu hinar þjóðirnar með svipaðar kynningar og var fagnað á sama hátt og enn seig ég niður í sætinu. Þá var komið að mér og ég fór á sviðið, sagist heita … og vildi fyrir hönd íslenskra kokka þakka fyrir þann mikla heiður að verða meðlimur í WACS. En svona var það fyrir litla Ísland. Við vorum nýir í öllu og höfðum ekki séð svona fyrr.

Ef ég hefði vitað að svona æfingar væru venjan hefði ég getað talað 5-10 mínútur um klúbbinn okkar og sýnt bíómynd um landið, en það var rosalega lítill karl sem fór uppá senu þennan dag. Mér var sagt daginn eftir að lengsta klappið hafi verið fyrir Ísland, enda langstysta ræðan.

Á sama tíma og þingið, var haldin alþjóðleg matreiðslukeppni og sýning í stórri sýningarhöll í bænum og þar sá ég sumar glæsilegustu og fallegustu smjör listaverk (Tallow) sem ég hef nokkru sinni séð. Þvílík handavinna er gersamlega ótrúleg.

Tallow er sérstök blanda af feiti og tólg sem helst nógu hörð til að standa í herbergishita og undir sterkum ljósum án þess að leka niður. Hún er rosalega auðveld til að móta listaverk og má strjúka algerlega spegilslétt með réttum verkfærum.

Fyrir all nokkrum árum prófaði ég að nota smjör til að móta styttur með góðum árangri en það þoldi ylla að standa lengi undir sterku ljósi.

© Höfundur er Hilmar Bragi Jónsson matreiðslumeistari

Viltu birta grein á Veitingageirinn.is? Sendu okkur póst [email protected]. Með pistlinum þarf að fylgja nafn höfundar, titill og mynd.

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið