Viðtöl, örfréttir & frumraun
The Herring House á Sigló hlýtur hin virtu bresku THA evrópuverðlaun – Dagur og Helga „Gestir eru alveg himinlifandi yfir þessu, að setjast niður inn í stofu rekstraraðila og fá sér morgunmat“ – Myndir
THA (Travel & Hospitality Awards) hefur veitt The Herring House (Síldarhúsinu) á Siglufirði hin virtu THA evrópuverðlaun 2024.
„Þessi viðurkenning er dæmi um framúrskarandi og persónulega þjónustu Síldarhússins í ferða- og gistigeiranum.“
Segir í lýsingu dómnefndar.
Dómnefnd sem samanstendur af ferðarithöfundum, bloggurum, sérfræðingum í ferðaiðnaði, fjölmiðlamönnum ofl. velur hótel og gistiheimili víðsvegar um heiminn á grundvelli ítarlegrar greiningar á umsögnum frá ýmsum óháðum aðilum. Hópur sérfræðinga fer vandlega yfir allt innsent efni sem berst til höfuðstöðva THA.
The Herring House er með 9.6 í einkunn á booking.com og fullt hús stiga á TripAdvisor.
Öll hótel og gistiheimili á listanum eiga það sameiginlegt að veita framúrskarandi og persónulega þjónustu.
Yfirgripsmikill listi yfir sigurvegara verður sýndur í árlegri verðlaunaútgáfu sem áætlað er að birtist á vef THA í nóvember næstkomandi.
Fyrir áhugasama er hægt að nálgast allar upplýsingar um THA (Travel & Hospitality Awards) á vefslóðinni www.thawards.com.
Um The Herring House á Sigló
The Herring House á Siglufirði er yndislegt gistiheimili á Siglufirði, vinalegum bæ sem tekur vel á móti ferðamönnum og gestum á flakki um Norðurland.
Gistiheimilið er einstaklega vel staðsett; í stórum friðsælum garði bak við kirkjuna, með útsýni yfir bæinn, fjörðinn og fjöllin í kring og aðeins fárra mínútna göngufjarlægð frá Ráðhústorginu, hjarta bæjarins. Stutt er í alla þjónustu, svo sem verslun, kaffihús, veitingastaði og söfn.
Fjöllin í kringum Siglufjörð eru engu lík. Þau bjóða uppá mikla möguleika til útiveru; fjallgöngur á sumrin og skíðaiðkun á veturna, hvort sem er göngu-, svig- eða fjallaskíði, sem oft er hægt að stunda fram í júní.
Eigendur The Herring House eru Dagur Jónasson og Helga H. Þórarinsdóttir.
The Herring House býður uppá fjögur glæsileg vel búin herbergi með uppábúnum rúmum og tvö gestahús sem staðsett eru á lóðinni.
Herbergin eru með sameiginlegum vel útbúnum eldhúskrók og rúmgóðu baðherbergi á neðri hæð hússins og á efri hæðinni búa þau Dagur og Helga.
Boðið er upp á morgunmat en þar hafa Dagur og Helga útbúið sér borðstofuborð sem er stækkanlegt og er innangengt á efri hæðina þar sem gestir ganga í gegnum eldhúsið og þar inn í stofuna þar sem morgunverðarhlaðborðið bíður eftir gestunum.
„Gestir eru alveg himinlifandi yfir þessu, að setjast niður inn í stofu rekstraraðila og fá sér morgunmat. Við fáum okkur oft sæti með gestunum og spjöllum um allt á milli himins og jarðar, hvað hægt að gera í nágrenni við Siglufjörð og margt fleira,“
sögðu Dagur og Helga í samtali við veitingageirinn.is.
Gestahúsin, sem eru tveggja manna, eru með verönd, sér baðherbergi og litlu en fullbúnu eldhúsi.
Á lóðinni er einnig að finna útisturtu, baðhús og heitan pott inn á milli trjánna.
Fátt er betra eftir góðan dag í fersku íslensku fjallalofti, en að skola af sér í útisturtu og slaka síðan á í heitum potti.
Heimasíða: www.theherringhouse.com
Myndir: Smári / Veitingageirinn.is
-
Frétt2 dagar síðan
Nýr miðlægur listi yfir sveina með starfsréttindi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel2 dagar síðan
Flottir ekta ítalskir réttir og pizzur af betri gerðinni – Fagnaðu gamlárskvöldinu með stæl á Piccolo – Myndir
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Veitingageirinn í jólaskapi
-
Nemendur & nemakeppni4 dagar síðan
Útskriftarnemendur Hótel- og matvælaskólans í MK tóku þátt í ýmsum keppnum og krefjandi verkefnum
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Óáfengir kokteilar frá ISH, danskur framleiðandi
-
Kokkalandsliðið4 dagar síðan
Jólakveðja frá Kokkalandsliðinu og Klúbbi matreiðslumeistara – Vídeó
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Gleðileg jól, kæru lesendur – Veitingageirinn.is þakkar fyrir sig
-
Markaðurinn3 dagar síðan
Jólakveðja frá Leiðtoga matvæla- og veitingagreina