Frétt
Sjálfbær matvælaframleiðsla meðal áhersla í Samstarfi háskóla
Öflugt háskólanám í þágu fiskeldis, framleiðsla nýrra próteina og þverfaglegt meistaranám í heilbrigðislausnum og í svefni eru meðal verkefna sem hljóta styrk úr Samstarfi háskólanna og hafa aukna sjálfbærni að markmiði, að því er fram kemur á vefnum stjornarradid.is.
Við mat umsókna í verkefni Samstarf háskóla var sérstaklega litið til möguleika á aukinni sjálfbærni m.t.t. meginmarkmiðs um samvinnu háskóla landsins í þágu samfélagsins. Alls tilheyra 9 af þeim 25 verkefnum sem hljóta styrk þessum áhersluflokki, en flest verkefnanna styðja við tvö eða fleiri markmið.
Sjálfbærni og umhverfisþættir hafðir að leiðarljósi þegar kemur að fiskeldi
Allir opinberu háskólarnir, þ.e.a.s. Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands (HÍ), Háskólinn á Akureyri (HA), og Landbúnaðarháskóli Íslands (LHBÍ), auk Háskólaseturs Vestfjarða, Hafrannsóknarstofnunar, Matís og Náttúruminjasafns Íslands, koma að samstarfsverkefni um öflugt háskólanám í þágu fiskeldis sem styrkt er um 58 m.kr.
,,Fæðuöryggi er okkur mikilvægt og fiskeldi er þar mikilvægur hlekkur. Á vissum stöðum í heiminum er fiskeldi orðið stærra en hinn hefðbundni sjávarútvegur,” sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, þegar úthlutun var kynnt. ,,Á sama tíma og þessi atvinnugrein byggist upp á Íslandi er mikilvægt að rétt sé staðið að allri uppbyggingu með sjálfbærni og umhverfisþætti að leiðarljósi.”
Hið styrkta samstarfsverkefni opinberu háskólanna snýr að því að bjóða upp á háskólanám í eldi. Ræktun og nýtingu sjávar- og vatnalífvera samhliða samræmdum rannsóknum og rannsóknainnviðum. Um er að ræða bæði grunn- og meistaranám sem skila mun öflugu fagfólki til starfa og nýsköpunar á þessu ört vaxandi sviði matvælaframleiðslu. Verkefnið stuðlar einnig að forystuhlutverki Íslands í sjálfbæru lagareldi sem tekur fullt mið að opinberum stefnum um sjálfbærni, loftslagsmál og líffræðilega fjölbreytni.
Ísland verði í forystu á sviði framleiðslu nýrra próteina
Sjálfbærni og fæðuöryggi haldast oftar en ekki í hendur og ljóst er að hið opinbera og einkaframtök þurfa á komandi árum að vinna hörðum höndum að sameiginlegu markmiði um sjálfbæra matvælaframleiðslu hér á landi. Í því skyni hefur samstarfsverkefni LBHÍ og HÍ fengið tæplega 32 m.kr. styrk til að koma upp aðstöðu til rannsókna og nýsköpunar á sviði næstu kynslóða matvæla- og fóðurpróteina og byggja upp nám á því sviði.
Markmið verkefnisins er að taka þátt í þeirri umbyltingu sem á sér stað í matvælaframleiðslu í heiminum um þessar mundir þar sem hugað er að sjálfbærri og umhverfisvænni framleiðslu próteingjafa úr þörungum, skordýrum, einfrumungum og með frumuvökum. Með þessu er stefnt að því að koma Íslandi í forystu á sviði framleiðslu nýrra próteina sem er ört vaxandi svið í heiminum. Auk LBHÍ og HÍ koma Matís og Samtök þörungafélaga einnig að verkefninu.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur ráðstafað yfir milljarði króna til aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna. Hugmyndin var kynnt í haust og brugðust allir 7 háskólarnir við ásamt 37 öðrum samstarfsaðilum. 48 umsóknir bárust og sótt var um styrki fyrir samtals 2,8 milljarða króna. Verkefnið er þegar fjármagnað af safnlið háskólastigsins en með því að ráðstafa framlögum af safnliðnum í gegnum Samstarfið verður fjármögnun á háskólastigi gagnsærri en áður.
Mynd: úr safni
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun6 dagar síðan
La Barceloneta er fyrsti veitingastaðurinn á Íslandi sem hlýtur ICEX viðurkenningu
-
Uppskriftir5 dagar síðan
Vinsælustu uppskriftirnar árið 2024
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Þessi réttir stóðu upp úr hjá Michelin eftirlitsmönnum á árinu 2024
-
Frétt4 dagar síðan
Mest lesnu fréttir ársins 2024 á Veitingageirinn.is
-
Markaðurinn23 klukkustundir síðan
Myndaveisla – Franski bakarameistarinn Remy Corbet Daniel Jean kynnti aldagamlar aðferðir við súrdeigs- og sætabrauðsbakstur
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun3 dagar síðan
Fálkahúsið og Kokka verðlaunuð fyrir bestu jólaskreytingarnar á árinu sem var að líða
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun2 dagar síðan
Ertu frumkvöðull í íslenskri matvælaframleiðslu? 20 milljónir í boði fyrir matarfrumkvöðla
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Fagfélögin taka í notkun nýjar Mínar síður