Vertu memm

Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel

Nýr kafli í Fiskbúð Fjallabyggðar – veitingastaður tekur við af fiskborðinu

Birting:

þann

Nýr kafli í Fiskbúð Fjallabyggðar – veitingastaður tekur við af fiskborðinu

Eigendurnir og hjónin Hákon Sæmundsson og Valgerður Þorsteinsdóttir eru spennt fyrir nýjum kafla – veitingastaðurinn opnar formlega á morgun, miðvikudaginn 16. apríl 2025.

Íbúar Fjallabyggðar og gestir sveitarfélagsins geta nú hlakkað til nýrrar upplifunar þar sem veitingastaður tekur við af fiskborði í Fiskbúð Fjallabyggðar. Eigendur búðarinnar, þau Valgerður Þorsteinsdóttir og Hákon Sæmundsson matreiðslumaður, segja breytinguna tilkomna eftir mikla ígrundun og í ljósi áskorana sem fylgja rekstri ferskra fiskborða á minni stöðum.

„Eftir mikla hugsun og alls konar vangaveltur þá komumst við að þeirri niðurstöðu að breyta aðeins til. Aðallega vegna þess að rekstur á fersku fiskborði er orðinn erfiðari að halda út á minni stöðum,“

segir í sameiginlegu svari þeirra.

„Við ákváðum því að færa okkur yfir í að vera eingöngu með frosinn fisk – pakkaða bleikju, þorsk, ýsu, saltfisk, rækjur og bollur.“

Nýr kafli í Fiskbúð Fjallabyggðar – veitingastaður tekur við af fiskborðinu

Í stílhreinu og fallegu umhverfi Fiskbúðar Fjallabyggðar fær ferskt sjávarfang að njóta sín – bæði á diski og í stemningu.

Þrátt fyrir að fiskborðinu verði hætt, heldur nafnið Fiskbúð Fjallabyggðar áfram að standa fyrir gæði og fagmennsku. Fiskbúðin hefur um árabil boðið upp á heita rétti samhliða fiskborðinu, en nú verður sú starfsemi færð í fastari og formlegri farveg með veitingastað, staðsettum í hjarta bæjarins, þar sem boðið verður upp á vandaða og bragðgóða rétti með áherslu á sjávarfang.

„Við ætlum að byrja á að hafa í boði okkar vinsæla fisk og franskar, fiskipizzu og stefnan er að bjóða upp á rjúkandi heitan plokkfisk með rúgbrauði og smjöri,“

segja þau um nýjan matseðil.

„Við stefnum einnig á að vera mögulega með eitthvað pop-up af og til, til dæmis með Segul 67 eins og við höfum verið að gera. Við munum svo sjá til hvernig þetta þróast.“

Nýr kafli í Fiskbúð Fjallabyggðar – veitingastaður tekur við af fiskborðinu

Hlutabréf í Þormóði Ramma hf. á Siglufirði – upp á 100.000 krónur frá árinu 1976. Myndin hangir uppi á vegg í Fiskbúð Fjallabyggðar og vekur forvitnilegar spurningar: Hvers virði væri þetta í dag, ef það væri enn í gildi?

Staðsetningin, ásamt fersku hráefni og reynslu Hákonar sem matreiðslumanns, er lykilþáttur í því sem þau telja gera staðinn einstakan.

„Staðurinn okkar er í hjarta bæjarins á besta stað. Við notum ferskan fisk í fisk og franskar sem gerir hann einstaklega ljúffengan.“

Veitingastaðurinn opnar formlega miðvikudaginn 16. apríl kl. 11:00, og verður opinn yfir páskana samkvæmt eftirfarandi opnunartímum:

Miðvikudagur: 11–18

Skírdagur: 11–18

Föstudagurinn langi: 11–18

Laugardagur: 11–15

Að páskum loknum verður staðurinn opnaður aftur í byrjun júní.

Aðspurð um væntingar til sumarsins og ferðamannastraumsins eru þau bjartsýn:

„Ef veðrið ætlar að vinna með okkur teljum við að það eigi eftir að koma jafn margir ferðamenn – ef ekki fleiri – til Fjallabyggðar í sumar, sérstaklega þar sem ferðamenn eru farnir að vilja skoða Norðurland mun meira.“

Myndir: Smári / Veitingageirinn.is

Smári er matreiðslumaður að mennt, en hann hefur starfað við fagið til fjölda ára, bæði sem starfsmaður og rekstraraðili. Hægt er að hafa samband við Smára á netfangið smari@veitingageirinn.is Skoða allar greinar höfundar hér >>

Podcast / Hlaðvarp

Auglýsingapláss

Ekki missa af neinu

Fréttabréf

Veldu eitt eða allt af eftirtöldu:
Auglýsingapláss

Mest lesið

Veitingageirinn.is - Allt um veitingageirann - Fréttavefur um mat og vín - Netfang: frettir@veitingageirinn.is
RSS - Molar