Nemendur & nemakeppni
Nóg um að vera á vorönn 2024 í matvælagreinum í VMA
Á vorönn 2024 býður Verkmenntaskólinn á Akureyrir (VMA) upp á nám í 2. bekk í matreiðslu og framreiðslu og ennig er stefnt á nýjan námshóp í lotunámi í matartækni.
Nám í þessum greinum, sem allar eru undir braut matvæla- og ferðagreina í VMA, er háð því að nægilega margir skrái sig í það. Þeir sem hafa starfsreynslu í þessum greinum er bent á þann möguleika að fara í raunfærnimat. Upplýsingar um raunfærnimat eru hjá símenntunarmiðstöðvum t.d. hjá SÍMEY hér á Akureyri.
Opnað var fyrir innritun á vorönn 2024 1. nóvember sl.
2. bekkur í matreiðslu
Undanfari náms í bæði matreiðslu og framreiðslu er grunnnám matvælagreina sem er tveggja anna nám og kennt árlega í VMA. Til þess að læra matreiðslu að loknu grunnnáminu er fyrst setinn 2. bekkur og síðasti hluti námsins í skóla er 3. bekkur. Að honum loknum og áskildum starfstíma í faginu geta nemendur þreytt sveinspróf og sett þar með punktinn yfir i-ið.
VMA hefur undanfarin ár boðið upp á bæði 2. og 3. bekk í matreiðslu og þar með fullmenntað fjölmarga matreiðslumenn. Ætlunin er að hefja nám í matreiðslu í 2. bekk við upphaf vorannar í janúar nk. ef næg þátttaka fæst. Náminu verður lokið á vorönn. Það verður síðan kynnt síðar hvenær 3. bekkurinn verður næst í boði. Síðasti hópurinn í matreiðslu var brautskráður frá VMA sl. vor.
2. bekkur í framreiðslu
Á síðasta skólaári urðu merk tímamót þegar VMA brautskráði fyrsta námshópinn í framreiðslu. Námið hófst á haustönn 2022 og lauk á vorönn 2023 og var bæði kenndur 2. og 3. bekkur. Nemendur brautkráðust frá skólanum sl. vor. Ef nægileg þátttaka næst verður nám í 2. bekk í framreiðslu á vorönn 2024. Eðli málsins samkvæmt er mikilvægt að geta boðið upp á nám í framreiðslu á sama tíma og matreiðslunámið.
Matartækni
Matartækni er sett upp sem lotunám og að nemendur geti stundað það með vinnu. Reynslan hefur sýnt að námið sækja nemendur á öllum aldri, margir hafa unnið lengi í matvælageiranum, t.d. í mötuneytum en vilja með náminu auka við þekkingu sína og fá starfsréttindi.
Bæði hafa nemendur farið í matartækninámið að loknu grunnnámi matvælagreina og einnig hafa nemendur, sem sumir hafa lengi unnið í faginu, farið í námið að loknu raunfærnimati.
Fullt matartækninám er á þriðja þrepi og er í þrjár annir. Einnig geta nemendur valið að ljúka tveggja anna námi á öðru þrepi til réttinda sem matsveinar. Á hverri önn eru 4-5 námslotur í skóla og er námið blanda af verklegu og bóklegu. Á föstudegi er kennt kl. 13-18 en á laugardegi kl. 8 til 16. Á milli lota leysa nemendur verkefni í fjarnámi.
Hér er umfjöllun frá síðasta ári um nám í matartækni í VMA.
Þeir sem hafa áhuga á námi í 2. bekk í matreiðslu og framreiðslu og lotunámi í matartækni eru hvattir til að sækja um sem fyrst.
Upplýsingar um námið veit Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari og einnig Ari Hallgrímsson brautarstjóri matvælabrautar Steinunn Heba Finnsdóttir kennari í framreiðslu og Marína Sigurgeirsdóttir sem hefur umsjón með námi í matartækni.
Opnað var fyrir umsóknir 1. nóvember sl.
Mynd: vma.is
-
Keppni5 dagar síðan
Grétar keppir á morgun á heimsmeistaramótinu – Sendinefnd Íslands er mætt á Madeira
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Suðurlandsbraut 4a, fullbúinn veitingastaður til leigu
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Snjórinn fellur hjá Bako Verslunartækni á Stóreldhúsinu – Myndir
-
Keppni5 dagar síðan
Úrslit í Eftirréttur ársins og Konfektmoli ársins 2024
-
Keppni3 dagar síðan
Grétar hefur lokið keppni á HM – Keppti með drykkinn Exótísk jól á Íslandi
-
Keppni5 dagar síðan
Davíð Freyr sigraði í Puratos kökukeppninni
-
Viðtöl, örfréttir & frumraun4 dagar síðan
Myndir frá Stóreldhússýningunni 2024
-
Keppni4 dagar síðan
Grétar komst áfram í 15 manna úrslit á Heimsmeistaramóti Barþjóna