Viðtöl, örfréttir & frumraun
Matur og drykkur
Veitingastaðurinn Matur og drykkur lætur ekki mikið fara fyrir sér þar sem hann kúrir á horni Grandagarðs og Mýragötu. Húsið er gamalt fiskverkunarhús, huggulegt hornhús sem hefur staðið þarna lengi og fengið að vera í friði að mestu leiti. Í nyrðri endanum er Sögusafnið.
Mig hefur lengi langað til að koma á Mat og drykk enda hefur staðurinn fengið góða dóma reglulega og erlendar viðurkenningar, núna síðast frá Michelin sem er ekki slæmt.
Ævintýrið hófst fyrir um fjórum árum en þá réðust Elma Backman, eiginmaður hennar Albert Munoz og fleiri í að opna veitingastað þarna með áherslur á íslenskt hráefni og menningu.
Metnaðurinn var að færa eldri þjóðlegan íslenskan mat í nútímaleg klæði en samt halda tengingunni við upprunann.
Albert, eiginmaður Elmu, hefur nokkuð skemmtilega tengingu við Ísland en kvenleggurinn í hans fjölskyldu, amma og móðir, sem báðar eru miklar kjarnakonur, hafa rekið verslun í Barcelona í áratugi með íslenskan saltfisk. Honum hefur því verið kunnugt um Ísland frá blautu barnsbeini en að sjálfsögðu ekki órað fyrir því að enda hér.
Þetta er hús með sál og á sér langa og merka sögu. Á sínum tíma þegar amma mín var ung kona, fyrir seinna stríð, vann hún í saltfiski í þessu húsi, móðir mín sem þá var þriggja/fjögurra ára fylgdi henni daglega. Einn dag datt henni í hug að láta reyna á þyngdaraflið og reyndi að fljúga heim frá vörulúgunni á efri hæðinni. Tilraun sem að sjálfsögðu endað bara illa í mölinni fyrir neðan.
Það var afburða vel tekið á móti okkur er við komum. Við vorum strax boðin drykkur og eiginlega áður en við vissum af þá sátum við með bubblandi freyðivínið í glösum og spennandi matseðil í höndum.
Kvöldið byrjaði vel og endaði vel því það er kinnroðalaust hægt að segja að þjónustan hafir verið til mikillar fyrirmyndar. Salurinn fylltist hægt og sígandi en það var sama hversu mikið gekk á, alltaf var tími fyrir þjónustuna að stoppa og spjalla aðeins við gesti.
Margir gestir voru eðlilega forvitnir og vildu fræðast um hitt eða þetta, vita aðeins söguna eða matreiðsluna. Aldrei vantaði okkur samt neitt og allir voru á vaktinni, vélin bara gekk vel smurð í rólegum gír á þægilegum snúningi allt kvöldið.
Matseðillinn á Matur og drykkur er fjölbreyttur og einkennist af góðum útfærslum af eldri uppskriftum úr íslensku hráefni sem gerir hann sérlega spennandi. Eldhúsið er einnig opið að hluta og geta gestir fylgst með því sem þar er að gerast .
Í boði eru fjölbreyttir samsettir matseðlar frá „Frá landi“ og „Frá sjó“ sem eru fjögurra rétta seðlar sem hægt er að fá vínpörun við. Einnig er í boði þriggja rétta sér seðill og a la cart seðill. Allt á íslensku nótunum nema vínið að sjálfsögðu.
Staðurinn er smekklega innréttaður með skemmtilegum útfærslum þar sem blandað er saman eldri og nýrri list og ekki fer á milli mála að þarna hefur listamaður/kona farið höndum um hlutina.
Ég renndi við nokkru dögum eftir heimsóknina og ætlaði að taka myndir aukalega en stundum getur það verið snúið að ná góðum myndum að kvöldi til.
Í heimsókn minni var Vala Matt mætt með sitt tökulið en hún var að vinna að þætti um þá veitingastaði sem höfðu fengið Michelin viðurkenningu um daginn.
Ég læt því eldri myndir fylgja með og að sjálfsögðu myndir af Völu Matt ásamt Elmu Backman veitingakonu.
Ég mæli eindregið með Mat og drykk, þar er spennandi matur, góð þjónusta og það er til og með ekkert vandamál að finna bílastæði sem er víða orðið hausverkur í miðborginni í dag.
Lifið heil
-
Markaðurinn5 dagar síðan
Girnilegt camembert jólatré með döðlu og pekan krönsi
-
Nýtt bakarí, veitingahús, fisk- og kjötbúð og hótel5 dagar síðan
Mikil uppbygging framundan á Hofsstöðum – Veitingastaðurinn með eigin framleiðslu og hráefni úr heimabyggð
-
Frétt3 dagar síðan
34 veitingastaðir birtu matseðil og annað kynningarefni bara á ensku
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Wolt “wrapped” samantektin – Það sem Íslendingar pöntuðu á árinu 2024
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Kalkúnaveisla með öllu tilheyrandi
-
Frétt2 dagar síðan
Innköllun á sviðasultu frá Kjarnafæði
-
Markaðurinn4 dagar síðan
Uppskrift – Fylltar kjúklingabringur með eplum, Dala höfðingja og rósmarín-hlynsírópsgljáa
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Fallegur og girnilegur jólakrans bar sigur úr býtum