Veitingarýni
Mat-, vín- og bjórseðlarnir hjá Haust og Bjórgarðinum – Mat-, og vínseðlarýni
Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg opnaði 1. júní s.l. Hótelið sem er það stærsta á landinu býður upp á tvo veitingastaði Haust og Bjórgarðinn.
Veitingarýni hefur verið á veitingageirinn.is til fjölda ára þar sem fréttamenn skrifa um upplifun sína á veitingastöðum. Það hefur nú ekki verið venjan hér að gagnrýna matseðla hjá nýjum veitingastöðum og hótelum án þess að vera búnir að prufa staðina áður, en þetta er nú stærsta hótelið, sælkerar og margir aðrir forvitnir hvað hótelið býður upp á.
Látum hér vaða og hér eftirfarandi er fyrsta upplifun á mat-, vín- og bjórseðlunum hjá veitingastöðunum Haust og Bjórgarðinum við að lesa þá.
Veitingastaðurinn Haust
Matseðlar á Haust
Ef byrjað er að skoða hádegisverða matseðilinn hjá Haust, þá er hann ekki stór um sig, en þar má sjá 125 gr. nautahamborgara (2.200 kr), plokkfisk með sólþurrkuðum tómötum og mozzarella salati (1.950 kr.), fisk hjúpaðan í grænu pestói (2.200 kr.), fínt verð fyrir hádegismat.
Svo um kvöldið er seðillinn mun stærri og býður upp á forrétti, aðalrétti og eftirrétti. Kokkurinn mælir með Lamba „tartar“ í forrétt (2.200 kr.) og er sá réttur borinn fram með skessujurtarmajónesi, hesilhnetum, brenndum lauk og græn jarðarber, lítur vel út á pappír og alveg þess virði að prufa. Matseðillinn sem er árstíðabundinn þó með smá tvisti og íslenska hráefnið kemur sterklega inn. Einnig á matseðli er skötuselslifur og söl, afgreiddur sem forréttur með sölvaseyði, bygg-sölvabrauði, villtum sveppum, epli og piparrót (2.500 kr.)
Þorskur og bjór er líka sem kokkurinn mælir með og er það aðalréttur, þorskhnakki, smælki, bjór „beurre blanc“, kínakál, túnsúra (3.900 kr.), en ekki kemur fram hvaða bjór er paraður með réttinum.
Rófubaka er eitthvað sem kallar á mann að prufa, en það er einn eftirréttur af fjórum sem í boði er á matseðlinum. Rófubakan er framreitt með undanrennu og hvítu súkkulaði (1.900 kr.), en aðrir eftirréttir eru t.a.m. birkimús, rabarbari, súkkulaði og hafrar.
Alveg passlega margir réttir og lítið um valkvíða eins og getur gerst á öðrum veitingahúsum, þar sem matseðlar eru troðfullir af réttum og oft á tíðum eru sumir réttir keimlíkir.
Fyrsta upplifun:
Skemmtilega uppsettir matseðlar hjá Haust og flott verð á réttunum. Þó vantar meiri klassíska rétti, kannski einn til tvo, en engu að síður girnilegir réttir á pappír og er vel þessi virði að heimsækja Haust. Greinilegt að auðkenni eldhússins er af ferskum, íslenskum hráefnum í nýjum og spennandi búningi.
Vínseðillinn á Haust
Næst er það vínseðillinn, en hann samanstendur af húsvínum, kampa-, og freyðivínum, hvít-, og rauðvínum, eftirréttavínum og sérstökum kjallaralista.
Kampavínið Moet & Chandon Brut Imperial er á meðal vína á seðlinum (22.600 kr.), gæðavín frá framleiðanda Moët og Chandon, en þeir framleiða frægasta kampavínstegund heims Dom Pérignon sem margir hverjir þekkja. Svo má sjá hvítvínið Franck Millet Sancerre (8.900 kr.), en þau vín sem framleidd eru í Loire dalnum í Frakklandi eru létt og frekar sýrurík vín sem henta vel með sjávarréttum. Boðið er m.a. upp á rauðvínið Purato Nero d´Avola (6.200 kr.) sem er lífrænt vín og meðalbragðmikið.
Kjallaralistinn er áhugaverður en þar má sjá m.a. vínið Bouchard Ainé & Fils Chablis – Grand Cru „Valmur“ frá árinu 2009 (20.700 kr.), líflegt og mjög gott hvítvín með sítrus og myntu ilmi.
Fyrsta upplifun:
Þéttur og góður vínseðill, gott úrval og greinilega vel hugsaður til þess að para með matnum, verðið er fínt, enginn að fara veðsetja bílinn fyrir góða kvöldstund á Haust.
Mat-, og vínseðlar á Haust:
Hádegisverða matseðillinn hér.
Bjórgarðurinn
Þá er það Bjórgarðurinn sem opnar nú í vikunni, en staðurinn tekur 120 manns í sæti og lögð er sérstök áhersla á vítt úrval af bjór ásamt mat undir áhrifum götumenningar New York borgar.
Matseðill
Það kennir ýmissa grasa á matseðlinum, pylsubarinn, meiri mat fyrir þá sem vilja metta sig, flott meðlæti, sósur og að lokum smá sætt.
Aðal áherslan er lögð á pylsubarinn og eru þetta ekki bara þessar venjulegu pylsur, en þar má nefna Chilitómatur og ostur, Döðlur, önd og beikon og verðið á pylsunum er frá 900 kr. til 1.100 kr.
Aðrir réttir á matseðlinum eru nautarif (1.300 kr.), Fish ´n´ chips að sjálfsögðu í bjórdeigi (1.200 kr.), salat Bjórgarðsins með confit önd (eitthvað segir manni að þetta salat sé mjög gott), (1.700 kr.)
Bjórseðill
Bjórseðillinn er stór og flottur og á heimasíðunni segir að Bjórgarðurinn sé með stærsta úrval af bjór á krana á landinu, alls 22 krana. Þar af eru tveir nitro-kranar sem eru þeir einu sinnar tegundar á landinu. Villibjór, ávaxtabjór, Stout, „Trappist“ bjórar, belgískir bjórar ofl. ofl. ofl. ofl. ofl. og jú miklu fleiri tegundir.
Fyrsta upplifun:
Matseðillinn er framandi, girnilegur og verði er stillt í hóf, enda hugsað til að fólk fái sér bjór með matnum. Bjórseðillinn, úff hvað skal segja, þvílíkt úrval, flottir bjórir án þess að farið sé út í smáatriði.
Yfirmenn á veitingastaðnum Haust og Bjórgarðinum eru eftirfarandi:
- Bjarni Rúnar Bequette – yfirmaður eldhúss á Fosshótel Reykjavík.
- Kjartan Óli Guðmundsson – yfirmatreiðslumaður á Haust.
- Halldór Jensson – veitingastjóri Haust
- Magnús Örn Guðmarsson – Matreiðslumeistari og innkaupastjóri á Haust.
- Loftur Hilmar Loftsson – rekstarstjóri Bjórgarðsins.
Lokaniðurstaða
Eins og áður sagði þá vantar meira af klassískum réttum þó ekki nema einn til tvo rétti, en það kannski eyðileggur heildarconseptið. Spennandi veitingastaðir sem er góður kostur fyrir sælkera að heimsækja, en Haust og Bjórgarðurinn smellpassa í flóru veitingastaða Reykjavíkur, ferskt og öðruvísi.
Mæli með því að prófa staðina.
Myndir: af facebook síðu Haust og Bjórgarðsins.
-
Markaðurinn2 dagar síðan
Lifandi fréttavakt: sýningin Stóreldhúsið 2024
-
Keppni2 dagar síðan
Grétar keppir á morgun á heimsmeistaramótinu – Sendinefnd Íslands er mætt á Madeira
-
Uppskriftir3 dagar síðan
Alvotech kokkarnir buðu upp á hrollvekjandi kræsingar – Uppskrift: Rauð flauelskaka með rjómaostakremi
-
Keppni2 dagar síðan
Úrslit í Eftirréttur ársins og Konfektmoli ársins 2024
-
Markaðurinn21 klukkustund síðan
Suðurlandsbraut 4a, fullbúinn veitingastaður til leigu
-
Markaðurinn1 dagur síðan
Snjórinn fellur hjá Bako Verslunartækni á Stóreldhúsinu – Myndir
-
Keppni3 dagar síðan
Þessi keppa í Puratos-kökukeppninni á Stóreldhússýningunni á morgun
-
Keppni2 dagar síðan
Davíð Freyr sigraði í Puratos kökukeppninni